27.04.1977
Efri deild: 66. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3796 í B-deild Alþingistíðinda. (2733)

233. mál, ráðstafanir til að draga úr tóbaksreykingum

Ingiberg J. Hannesson:

Herra forseti. Mér finnst á stæða til þess að fagna því, að þetta frv. skuli vera komið fram, og þakka ráðh. fyrir framlagningu þess. Það hefði að vísu mátt vera komið fram fyrr, en ég vona að Alþ. beri gæfu til þess að koma málinu fram, helst áður en þessu þingi lýkur.

Við höfum ekki komist hjá því undanfarið að verða vör við mjög vaxandi áróður gegn tóbaksreykingum, og það er ekki óeðlilegt þar sem það er orðið læknisfræðilega sannað hversu heilsuspillandi tóbaksnotkun er. Og þeim mun meiri nauðsyn er að koma því í reglugerð, að þetta ávanalyf sé ekki auglýst hvar sem er, þannig að þeir, sem ekki eru þegar farnir að reykja, læri það ekki af því sem þeir sjá í kring­um sig beinlínis. Nóg er samt til þess að kenna ósómann.

Við tölum gjarnan mikið um það og sérstak­lega nú á síðustu tímum, að mengunin sé yfir­vofandi í kringum okkur, og við erum eðlilega, íslendingar, hræddir við alla mengun þar sem við búum við hreint og tært loft. Þetta ber á góma sérstaklega í sambandi við umr. um ýmsa stóriðju, og er ekki óeðlilegt að við íhugum það og það vandlega. En við skulum líka líta á hitt, að við eigum þá ekki að stuðla að því að menga andrúmsloftið sjálf með því að reykja, eins og við gerum vissulega, og hugsum þá ekki alltaf um það, að við spillum andrúmsloftinu fyrir öðrum sem ekki reykja. Þetta finnum við kannske enn þá betur sem höfum reykt, en höf­um hætt því. Við verðum varari við þetta og tökum betur eftir því, hversu mengandi þetta er, einmitt af því að við höfum verið gegnsósa og samsamaðir þessu áður fyrr.

Yfirleitt er reglan sú í mannlífinu að hinir fullorðnu reyna að hafa gott fyrir börnunum, reyna að hafa áhrif á þau í uppeldinu og móta þau til góðs og fagurs lífernis. Undanfarið hefur þetta snúist nokkuð við, eins og komið hefur fram í máli hv. þm. hér á undan. Unga fólkið, skólaæskan, hefur upp á síðkastið kennt okkur hinum fullorðnu að berjast í þessu máli og náð undraverðum árangri. Það sýnir einmitt sú aukna viðleitni sem á sér stað um þessar mundir og hefur átt sér stað undanfarið, viðleitni fólks til þess að reyna að hætta að reykja. Það er ánægju­legt þegar dæmið snýst svona við og við hinir fullorðnu getum lært af hinum yngri, því nóg er nú samt sem hinir yngri læra af okkur.

Við skulum hafa það hugfast, sem okkur öll­um er ljóst, að auglýsingin sem slík er ákaflega stefnumarkandi og hefur ávallt mikil áhrif. Það er kannske aldrei hægt að koma í veg fyrir að öllu leyti að svona hlutir verði auglýstir, því alltaf má fara í kringum hlutina. En með þessu frv. er reynt að sporna við og það er vissulega spor í rétta átt og gæti náð verulegum árangri í því að losa okkur við auglýsingar eða vana­bindandi þætti í þessu sambandi.

Hv. þm. Stefán Jónsson talaði hér nokkuð um að það væri einkamál hvers og eins þegar hann hætti að reykja, og vissulega er það rétt. Þar verður hver að berjast við sinn löst og sigra eða taka ósigri eftir atvikum. En við skulum minnast þess í þessu sambandi, að auglýsingin á tóbakinu er ekkert einkamál. Henni er ætlað að koma fyrir margra sjónir og hún er sterkur áhrifavaldur í lífi manna. Þess vegna er það mik­ils virði ef löggjafinn vill reyna að sporna hér við og koma í veg fyrir að tóbak sé auglýst eins og hefur verið gert. Að vísu eru tóbaks­auglýsingar bannaðar utan dyra, en farið hefur verið í kringum þetta bann eins og við öll þekkjum.

Ég ætla ekki að tefja þessa umr. meir að sinni, en vil vænta þess og vona að þetta frv. komist í gegnum þetta þing sem nú stendur.