27.04.1977
Neðri deild: 74. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3820 í B-deild Alþingistíðinda. (2745)

16. mál, kaup og kjör sjómanna

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Það er í rauninni ekki þörf á því að hafa langt mál hér við 1. umr. um þetta mál, því að það hefur þegar verið rætt hér talsvert áður, þó við nokkuð aðrar aðstæður. En það eru nokkur atriði sem ég tel ástæðu til að vekja sérstaka athygli á í sambandi við þetta mál, vegna þess að það ber hér að með býsna einkennilegum hætti.

Í fyrsta lagi vil ég benda á það, að hér er um að ræða frv. til staðfestingar á brbl. Þau brbl. voru gefin út 6. sept. 1976 eða rétt aðeins einum mánuði áður en Alþ. átti að koma saman. Þegar brbl. voru gefin út nokkru áður en Alþ. átti að koma saman, þá var ekki um nein sérstök vand­ræði að ræða í þessum efnum. Það var ekki um neina vinnustöðvun að ræða, nein verkföll eða neitt það sem réttlætti það að stökkva til á þessum tíma og setja brbl. Það hefur verið bent á það áður, að þarna var tvímælalaust um að ræða óþingræðislega meðferð.

En svo gerist það til viðbótar við það, að svona var staðið að málinu í upphafi, því að auðvitað hefði verið rétt að leggja það fyrir Alþ. sem þá átti að koma saman eftir stuttan tíma, og það átti að fjalla um málið og setja lög ef því sýndist svo, — síðan gerist það, að samkv. lögunum er málið lagt fyrir til staðfestingar hér á Alþ. strax í upphafi þings, í okt. 1976. Og það hefur síðan legið óstaðfest hér á Alþ. allan tímann. En nú lítur út fyrir að það eigi að samþykkja frv. til staðfestingar á brbl., nú rétt í þinglokin, líklega endanlega samþykkt hér 2., 3. eða 4. maí, síðasta þingdag. En hins vegar er efni frv. þannig, að ákveðið er að lögin gildi ekki nema til 15. maí. Hér er því um það að ræða að Alþ. samþykki þessi brbl. eingöngu af formsástæðum, efnislega ekki, vegna þess að þau eru búin að vera í gildi og hafa sín áhrif, á hvern hátt sem það svo hefur verið.

Ég er því þeirrar skoðunar, að einnig frá formástæðum séð hefði verið eðlilegt að þetta frv. hefði ekki verið staðfest. Hvað hefði gerst hér á Alþ. ef frv. væri ekki samþ. fyrir þinglok? Jú, þessi brbl. féllu þá úr gildi, þau mundu þá falla úr gildi að formi til 10 eða 12 eða 14 dögum fyrr en ella. Það er allt og sumt. En með því að staðfesta frv. ekki kæmi að sínu leyti fram sú skoðun á Alþingi, að Alþingi væri óánægt með alla þessa málsmeðferð.

Nú hef ég lýst því yfir áður, að ég tel fyrir mitt leyti að setning þessara brbl. hafi verið ósanngjörn, óeðlileg og óheppileg á sínum tíma. Ég ætla ekki að fara út í að ræða það efnislega úr því sem komið er. Ég undirstrika aðeins að það er mín skoðun, að það hafi verið farið að í þessum efnum á óþingræðislegan hátt og ólýð­ræðislegan hátt, að grípa hér inn í kjarasamn­inga sem voru í gangi. Sumpart var um að ræða fullkomlega löglega samninga í gangi sem farið var eftir, og að öðru leyti var ekki útséð um hvort samningar tækjust á milli aðila samkv. réttum reglum. Ég tel líka að setning þessara laga hafi verið óþörf og beinlínis hafi þessi laga­setning spillt fyrir kjarasamningum á þessu sviði sem nú á einmitt að fara að fjalla um.

Vegna bæði formsatriða og þá ekki síður efnisatriða málsins höfum við lýst því yfir, alþb.­menn, að við erum andvígir þessu frv. og við munum greiða atkv. gegn staðfestingu á frv. Við erum frv. andvígir.