27.04.1977
Neðri deild: 74. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3851 í B-deild Alþingistíðinda. (2779)

124. mál, símaafnot aldraðs fólks og öryrkja

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Aðeins örfá orð sem ég legg í þessar umr. — hér liggur fyrir þáltill. um framkvæmd lagaákvæðis um ókeypis símaafnot aldraðs fólks og öryrkja. Ég kem hér fyrst og fremst til að láta það álit mitt í ljós, að ég sé ekki að framkvæmd þessa máls, sem er í sjálfu sér ákaflega gott mál og mikið réttlætismál, þurfi að stranda á því að þessi þáltill. hljóti ekki samþykki nú þar sem þegar er heimild í lögum til að framkvæma þetta. Ég vil hins vegar skora á hæstv. ráðh., sem ég veit að hlýtur að hafa allan vilja til að leysa þetta mál, að nota þessa heimild í lögum. Ég er hins vegar alveg sannfærð um að hæstv. ráðh. hefur rétt fyrir sér í því, að þetta mál þarf að athuga vel, því að það er ekkert hægara en að misnota þetta gróflega. Og það held ég að við hljótum öll að vera sam­mála um, að það er hægt að skrá síma á nafn aldraðs einstaklings og aðrir fjölskyldumeðlimir gætu svo notað þann síma til eigin þarfa. Þetta liggur auðvitað alveg í augum uppi.

Mér kemur í hug bara af persónulegri reynslu minni varðandi síðari hluta till., að aldrað fólk og öryrkjar fái verulegan afslátt við kaup farmiða með almenningsfarartækjum á landi, á sjó og í lofti, að ég veit ekki betur en t. d. flugfélögin veiti allverulegan afslátt — ég held 20% eða 25% afslátt — til aldraðs fólks, hvort það er miðað við 67 eða sjötugt skal ég ekki fullyrða, en þessi afsláttur er þegar í gildi, og mér finnst það ósköp eðlilegt og sanngjarnt þegar í hlut á aldr­að fólk, þ. e. a. s. aldrað fólk, sem hefur lítil efni. Hinir, sem hafa nóg úr að spila, eiga að sjálf­sögðu að borga fullt fyrir sig. En hér er miðað við lágmarkstekjur, og það vil ég leggja áherslu á að gildi í reyndinni.

Ég er alveg sannfærð um það, að sjálfsagt væri best að leysa þetta mál, ef hægt væri, með það ríflegum lífeyri til handa þessu fólki að ekki þyrfti að fara að gera sérundanþágur. En það er nú svo að þarfir aldraðs fólks og öryrkja eru misjafnar til tryggingabóta eða til annarra þarfa þjóðfélagsins, og ég get ósköp vel leyft því að koma fram hér, sem er mín hjartans meining, að við gerum allt of mikið að því að ausa úr almenn­um sjóðum til efnafólks sem hefur ekki þörf fyrir og kærir sig ekkert um að fá opinbera að­stoð sér til lífsframfæris. Ef við gætum lagað okkar tryggingamál þannig, að við gerðum vel og gerðum betur en við gerum í dag til þeirra sem raunverulega þurfa aðstoðar með, þá væri vel farið. En þetta er víst ákaflega flókið og illt viðureignar og tekur allt of langan tíma að koma sér niður á hvernig við eigum að haga okkar tryggingamálum þannig að þau gegni sínu upprunalega markmiði að hjálpa þeim sem eru hjálp­ar þurfi, en ekki hinum sem ekki þurfa hjálpar með.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan: Ég treysti því að sú heimild, sem þegar er fengin í lög, til þess sem till. fer fram á verði nýtt og hún verði nýtt þannig að þar komi engin misnotkun til.