29.04.1977
Sameinað þing: 83. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3956 í B-deild Alþingistíðinda. (2915)

232. mál, samþykkt um votlendi

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að mæla hér fyrir till. til þál. um heimild fyrir ríkisstj. til að fullgilda samþykkt um votlendi sem hafa alþjóðlegt gildi, einkum fyrir fuglalíf. Þessi till. er flutt fyrst og fremst samkv. eindreginni áskorun Náttúruverndarráðs og formanns þess. Till. er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að veita ríkisstj. heimild til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd samþykkt um votlendi sem hafa alþjóðlegt gildi, einkum fyrir fuglalíf, er undirrituð var í Ramsan í Íran hinn 2. febr. 1971 og prentuð er hér sem fskj.“

Aths. eru svofelldar:

„Á ráðstefnu um vernd votlendis og votlendisfugla, sem haldin var í Ramsan í Íran dagana 30. jan. til 3. febr. 1971, var gerð alþjóðasamþykkt sú um verndun votlendis, sem hér liggur fyrir, og samþykkt að vinna að aðild sem flestra ríkja að henni. Samþykktin er ávöxtur af miklu undir­búningsstarfi margra þjóða í því skyni að skrá­setja og vernda merkustu votlendi í hverju landi.

Í samþykktinni eru votlendi skilgreind sem hvers konar mýrlendi, vötn, fjörur og sjór að 6 m dýpi (1. gr.). Ákvæði eru um að hver samningsaðili skuli tiltaka votlendi innan lögsögu sinnar vegna sérstakrar skrár um svæði er hafa alþjóðlegt gildi (2. gr.). Lögð er áhersla á að skráning slíkra svæða raskar á engan hátt óskor­uðum fullveldisrétti viðkomandi samningsaðila yfir umræddu svæði (2. gr., 3. liður, sbr. 4. gr. 2. lið). Kveðið er á um samstarf þjóða á milli um verndaraðgerðir, rannsóknir og miðlun upplýsinga (2.–5. gr.). Náttúruverndarþing 1972 ályktaði að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir aðild Íslands að samþykktinni. Náttúruverndar­ráð og ýmis náttúruverndarsamtök hafa síðan unnið að stefnumótun á þessu sviði með friðun svæða, upplýsingasöfnun og útgáfu fræðsluefnis, þ. á m. rits Landverndar: Votlendi. Hefur Náttúruverndarráð lagt til að Mývatn og Laxá, sem friðlýst eru með 1. nr. 36/1974, verði við fullgildingu samþykktarinnar sett á skrá samkv. 2. gr. hennar.

Aðildarríki samþykktarinnar voru fyrir skemmstu orðin 15 talsins, þ. e. Ástralía, Bretland, Búlgaría, Finnland, Grikkland, Íran, Ítalía, Noregur, Nýja-Sjáland, Pakistan, Sambandslýðveldið Þýskaland, Sovétríkin, Suður-Afríkulýðveldið, Sviss og Svíþjóð. Nokkur fleiri höfðu undirritað samþykktina með fyrirvara um full­gildingu.

Samþykkt þessi er á ýmsan hátt hliðstæð milliríkjasamningum sem íslendingar hafa þegar gerst aðilar að, t. d. alþjóðasamþykkt um fuglaverndun og alþjóðasamkomulagi um varnir gegn olíu­mengun. Alþjóðlegt samstarf á þessu sviði er skipulagt af Alþjóðasambandi um náttúruvernd, sem Ísland er aðili að, og Alþjóðastofnun um rannsóknir votlendisfugla, sem íslendingar hafa átt allmikið samstarf við og óformlega aðild að.“

Fskj. er síðan samningurinn sem ég ætla ekki að tefja hv. Sþ. á að lesa. Menn hafa haft hann fyrir augum og geta lesið hann og hafa sjálfsagt gert. En ég vil taka fram að lokum, að það er ekki sök utanrrn. að svo lengi hefur dregist að leggja fram þá till. sem hér er til umr. Hún hefur ekki legið þar.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta mál nema tilefni gefist til, en leyfi mér að leggja til að till. verði vísað til hv. utanrmn. og með þeirri eindregnu ósk formanns Náttúruverndarráðs, að n. og Alþ. sjái sér fært að afgreiða hana áður en þessu þingi lýkur.