29.04.1977
Sameinað þing: 83. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3975 í B-deild Alþingistíðinda. (2950)

86. mál, kosningaréttur

Frsm. meiri hl. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti meiri hl. allshn. um till. til þál. um kosningarrétt. Meiri hl. leggur til á þskj. 517 að till. verði samþykkt, og undir þetta álit rita Ellert B. Schram, Lárus Jónsson, Jón Skaftason og Ólafur G. Einarsson, og auk þess skrifar Magnús Torfi Ólafsson undir álitið með fyrirvara. Jón Helgason og Jónas Árnason hv. þm. skila hins vegar sér­áliti þar sem þeir leggja til að till. verði vísað til ríkisstj.

Þessi till. var flutt hér fyrr á þinginu og eru flm. hennar 17 þm. Till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela stjórnarskrárnefnd að leggja fram till. til breytinga á stjórnarskránni sem miði að jöfnun kosningarréttar.“

Það er því auðséð að þessi till. nýtur víðtæks stuðnings þm. úr öllum þingflokkunum. Hv. 1. þm. till., Ellert B. Schram, gerði ítarlega grein fyrir till. í framsöguræðu 3. mars s.l., auk þess sem í grg. till. eru talin upp ýmis rök sem mæla með því að Alþ. lýsi nú yfir þeim vilja sínum að stjórnarskrárnefnd leggi fram till. til breytinga á stjórnarskránni, — till. sem miði að jöfnun kosningarréttarins.

Hér er um að ræða slíkt réttlætismál, að Alþ. getur ekki undan því vikist að láta í ljós vilja sinn um þetta efni, og dugir ekki að drepa málinu á dreif með því að segja, sem stundum er sagt, að þar sem starfandi sé stjórnarskrárnefnd, sem vinni að endurskoðun stjórnarskrárinnar, sé ástæðulaust fyrir Alþ. að vera að lýsa yfir vilja sínum um einn hinna mörgu þátta sem koma til umræðu í stjórnarskrárnefnd. Forsendur þessarar kröfu um viljayfirlýsingu Alþ. eru svo augljósar að vart þarf að telja þær upp. Ég nefni aðeins þá staðreynd, sem nú er orðin, að atkvæði fjögurra kjósenda í Reykja­vík og Reykjaneskjördæmi vega nú jafnt og eitt fyrir vestan. Raunar er munurinn 4.5 milli Reykjaneskjördæmis og Vestfjarðakjördæmis. Þetta mætti eins orða þannig, að flytji fjórir menn utan af landi í annað hvort þessara kjördæma, þá missa þrír þeirra atkvæðisréttinn. Mér er um megn að skilja hvernig nokkur maður getur varið slíkt óréttlæti, en það gera þeir í verki, sem á einn eða annan hátt standa í vegi fyrir úrbótum.

Þegar kjördæmaskipan var breytt árið 1959 sýndist mönnum við hæfi að atkv. eins manns í dreifbýli skyldi vega sem tvö í þéttbýli. Því hefur verið haldið að mönnum síðan að nokkurt misvægi sé eðlilegt, aðeins sé spurningin sú, hversu mikill munurinn skuli vera. Mér finnst skorta sannfærandi rök fyrir þessari skoðun, og eftir því sem ég hugsa meira um þessi mál, þá sannfærist ég betur um það, að þarna eigi alls enginn munur að vera.

Ég fullyrði að þm. þéttbýlisins hafa haft fullan skilning á málefnum dreifbýlisins og léð málum þess líð og sýnt það í verki.

En það er ekki einungis vegna misvægis atkv. sem leiðrétta þarf kjördæmaskipan og kosningafyrirkomulag. Það þarf einnig að styrkja stjórnarfarið, og eitt af því mikilvægasta til þess er án efa breytt kjördæmaskipan og kosningafyrirkomulag. Þessi till. bendir ekki á neinar sérstakar leiðir sem fara mætti til þess að ná fram hinum æskilegu markmiðum. Henni er einungis ætlað að fá fram þann vilja Alþ., að stjórnarskrárnefnd leggi fram till. sem jafni kosningarréttinn, en þær till. hljóta þá um leið að styrkja stjórnarfarið og lýðræðið í landinu. Ég mun því ekki ræða sérstaklega mögulegar breytingar, það þjónar engum tilgangi á þessu stigi málsins. Umræða um leiðirnar á sér stað þegar tillögur stjskrn. liggja fyrir, og vonandi verður það fyrr en síðar.

Ég orðlengi þetta ekki frekar, herra forseti, en legg áherslu á að Alþ. samþykki þessa þáltill. eins og meiri hl. allshn. leggur til.