29.04.1977
Neðri deild: 79. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3997 í B-deild Alþingistíðinda. (2989)

233. mál, ráðstafanir til að draga úr tóbaksreykingum

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. um ráðstafanir til að draga úr tóbaksreykingum felur í sér þá breytingu frá því, sem nú er í gildi í lögum um Áfengis- og tóbaks­verslun ríkisins, að 0.2% af brúttósölu tóbaks er varið til þess að vinna gegn tóbaksreykingum með áróðri og auglýsingum, en þetta frv. gerir ráð fyrir að kostnaður við þessa starfsemi verði greiddur á fjárl., eins og tekið verður í fjárlög hverju sinni. Hefur orðið að samkomulagi á milli fjmrh. og mín að hann taki upp í fjárlagafrv. 20 millj. kr. á næsta ári í þessu skyni.

Alþingi samþykkti á s. l. vetri till. um að skipa n. til að vinna að því að draga úr tóbaksnotkun, og með þeirri till. hefðu verið tvær n. að fjalla um þetta sama mál. Þótti rétt að sam­ræma þetta og veita heilbrrh. með þessa frv. heimild til að skipa samstarfsnefnd sem hafi með höndum framkvæmd þessara mála.

Í Ed. var þessu frv. mjög vel tekið og það afgreitt þaðan með shlj. atkv. Aðeins einn þm. þar lét í ljós andstöðu við þetta frv., en enginn greiddi þó atkv. á móti frv. Ég held að sé líka mikils virði sá mikli áhugi sem ungt fólk og sérstaklega börn í barnaskólum hafa nú hafið fyrir því að vinna gegn tóbaksnotkun, og það er ekki nema sjálfsagt og eðlilegt að Alþ. sýni bæði þeim og öðrum að það vilji vinna eindregið að því að draga úr tóbaksnotkun. Ég ætla ekki að fara hér inn á skaðsemi tóbaksreykinga. Það vita allir og þekkja það vel. Ég hygg að með þessu frv. sé verið að stíga skref í rétta átt og til samræmisvið það sem er að gerast á hinum Norðurlöndunum.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en legg til, herra forseti, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til heilbr.- og trn.