04.11.1976
Sameinað þing: 15. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í B-deild Alþingistíðinda. (301)

7. mál, ferðafrelsi

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Ekki ætla ég mér að fara að verja strangar reglur bandaríkjamanna varðandi vegabréfsáritanir. Án efa eiga þær reglur sér margslungna og flókna sögu sem ég geri ráð fyrir að megi rekja til laga um heimild til þess að setjast að í Bandaríkjunum, gerast innflytjandi. Einnig geri ég ráð fyrir því, að þessar reglur megi rekja til þeirrar reynsla sem bandaríkjamenn hafa orðið fyrir í samskiptum sínum við aðrar þjóðir og einnig mikinn straum fólks sem hefur viljað komast til Bandaríkjanna með ólögmætum hætti. En sem sagt, ég ætla ekki fara að verja þeirra lög eða reglur varðandi þetta, enda geri ég ráð fyrir því að fæstir hv. þm, hafi kynnt sér þá forsögu nægilega vel.

En ég verð að segja það varðandi þessa till. til þál. um ferðafrelsi, að mér finnst hún ekki nægi­ lega viðtæk ef hún á raunverulega að ná tilgangi sínum, og hefur það enda komið fram í ræðum fleiri þm. hér á undan. En það kom einnig fram í ræðu hv. flm. sjálfs, að hann virtist ekki þekkja nægilega vel til hvernig þessu er háttað í sambandi við önnur ríki, því að hv. 3. þm. Reykv. sagði m.a.: Ég veit ekki til að svona takmarkanir eigi við um nokkur önnur ríki. — Ég held að ég hafi náð þessu svo til orðrétt. Síðan vitnaði hann til reynslu sinnar þegar hann fór sem ritari skipshafnar með íslensku skipi til Austur-Evrópu. Mér heyrðist hann segja að hann hafi farið sem hjálparkokkur, en hann tjáði mér að bann hefði ekki fengið þá stöðu, og er það skiljanlegt þegar maðurinn var með diplómatapassa í vasanum. En hann sagði þarna mjög fróðlega og skemmtilega sögu um lífsreynslu sína einmitt á því svæði sem einnig kemur töluvert við sögu varðandi Ísland þegar verið er að ræða um gagnkvæm réttindi, vegna þess að ég held að það sé rétt hjá mér þegar ég segi að ferðafrelsi t.d. íslendinga í Sovétríkjunum og Austur-Evrópu sé mun takmarkaðra heldur en ferðafrelsi íbúa þessara þjóða hérlendis. Þegnar þessara þjóða hafa mun meira og eiginlega svo til ótakmarkað ferðafrelsi á Íslandi. Það eru engar hömlur settar á frelsi þeirra hér umfram það sem gildir um aðra útlendinga, þannig að það er ekki rétt, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, þegar hann sagðist ekki kannast við það að ferðafrelsi sovétmanna eða austur-evrópubúa væri fullt. Hann vildi meina að það væri takmarkað. Þannig skildi ég hann, en það er kannske misskilningur. Ég vil sem sagt koma því á framfæri hér að það er ekki takmarkað. (Gripið fram í.) Það er þá rétt skilið hjá okkur báðum. Er það ekki rétt, ef ég mætti spyrja hv. þm. að því? (Gripið fram í.) Gagnvart þegnum frá Sovétríkjunum og Austur-Evrópu ríkir fullt ferðafrelsi á Íslandi. (Gripið fram í.) Þá er ekki um gagnkvæmni að ræða fyrir íslendinga. (Gripið fram í.) Þá er ekki um gagnkvæmni að ræða einmitt fyrir íslendinga gagnvart ferðafrelsi í Austur-Evrópu, og skal ég koma nokkru nánar að því.

Það er nefnilega þannig háttað hér, að það eru ekki allir sem ferðast á diplómatapössum til Austur-Evrópu. Það eru líka til venjulegir íslendingar, venjulegt fólk sem fer ekki í boðsferðum til þessara ríkja, heldur verður að bjarga sér sjálft og gegna erindum sínum undir því fyrirkomulagi og skipulagi sem tíðkast í þessum ríkjum. Og nú er ég aðeins að skýra frá minni eigin reynslu, eins og hv, þm. gerði áðan þegar hann skýrði frá reynslu sinni í Bandaríkjunum og í Sovétríkjunum. Ég geri ráð fyrir að sú gagnkvæmni ríki hér í sölum Alþingis að þm. megi skýra frá sinni reynslu með svipuðum hætti, og skal það nú gert.

Þannig er t.d. málum háttað, að þegar maður fer til Bandaríkjanna, þá þarf að sækja um vegabréfsáritun. Ég hef oft þurft að gera það. Ég hef sleppt því að fylla út sumar spurningarnar vegna þess að mér hefur fundist óþarfi fyrir Íslendinga að svara þeim, þ. á m. eru þær spurningar sem hv. þm. Svava Jakobsdóttir kom inn á áðan varðandi t.d. það, í hvaða flokki menn væru, og um það, hvort þeir væru haldnir einhverjum ókennilegum sjúkdómum eða ekki. Ég held, að það sé óþarfi fyrir íslendinga að fylla út þær spurningar, vegna þess að íslendingar eru yfirleitt mjög heilbrigð þjóð. Hins vegar veit kannske hv. þm. um það, að það eru milljónir manna sem sækja um að fara til Bandaríkjanna á hverju ári og það gæti verið æskilegt fyrir þessa þjóð, eins og aðrar þjóðir gera, að vita nokkuð um heilbrigði slíks fólks. Það hefur komið fyrir, að ég hafi verið spurður um hvort ég hafi ferðast með flugvélum frá Asíu, með tilliti til þess að þar hafi e.t.v. verið faraldur sem talinn væri hættulegur í þeim ríkjum sem ferðast er til. Nefni ég sem dæmi, að það er ekki óalgengt þegar komið er t.d. frá Suður-Evrópu að beðið er um að fylla út plagg um það hvort maður hafi nýlega verið á Indlandi. Það er vegna þess að þar er oft stóra bólan, sem er talin hættuleg, og er talið æskilegt að fylgjast með því hvort viðkomandi hafi verið þar eða ekki. Þetta er ekkert óeðlilegt í sjálfu sér, enda held ég að hv. þm, séu sammála um það.

En þá skulum við snúa okkur nokkuð að þeim ríkjum sem talað var um áðan og þá fyrst af hv. 3. þm. Reykv., Sovétríkjum Austur-Evrópu. Það tekur yfirleitt marga mánuði að fá vegabréfsáritun til þessara ríkja fyrir venjulegt fólk. Það hefur komið fyrir að menn hafi verið beðnir um að koma í sendiráð Sovétríkjanna við Túngötu og ræða við fulltrúa þessara ágætu ríkja hér. Þær spurningar eru e.t.v. ekki á blaði sem eru lagðar fyrir mann, en það skilst fyrr en skellur í tönnum. Ég ætla ekki að rekja það sem gerst hefur innan fjögurra veggja í þessu sovéska sendiráði þegar menn hafa verið spurðir spjörunum úr varðandi fyrirhugaða ferð þeirra til Sovétríkja Austur-Evrópu. En hvað skeður þegar maður kemur til víðkomandi ríkja sem venjulegur ferðamaður? Það fyrsta, sem gerist, er að það er leitað mjög rækilega í töskum manns. Það hefur jafnvel komið fyrir að hafi verið leitað á manni sjálfum. Að vísu hef ég sloppið við það, en ég hef verið vitni að því að íslendingur hefur verið tekinn afsíðis og látinn afklæðast og skoðaður mjög rækilega. Þegar komið er á hótel, þá er það fyrsta sem gerist þegar maður er búinn að skrá sig inn að beðið er um að afhenda vegabréfið, og það er undir hælinn lagt hvenær maður fær vegabréfið aftur ef ætlunin er að dveljast lengur en í viku í viðkomandi borg. Og ég bið hv. þm. að taka eftir því þegar ég segi: ef ætlunin er að dveljast lengur en eina viku í viðkomandi borg. Það er nefnilega staðreynd, hvað sem líður Helsinkiráðstefnunni og öllum samþykktunum þar, að almennur ferðamaður í Austur-Evrópu má ekki ferðast út fyrir borgartakmörk þeirrar borgar eða borga sem viðkomandi á erindi til. Þetta veit ég af eigin reynslu, vegna þess að ef maður vill t.d. fara út fyrir Leipzig, við skulum segja að ég hafi verið þar á vörusýningu í umboði íslenskra fyrirtækja, þá er tekið skýrt fram að til þess að mega fara til næstu borgar, Dresden, þarf að sækja um leyfi til lögreglustjóra staðarins.

Þetta er saga út af fyrir sig, eins og hv. 3. þm. Reykv. kom inn á áðan í sambandi við sína lífsreynslu. Hún segir sitt, því miður. En það auðvitað gerir málið ekkert betra gagnvart Bandaríkjunum í því sem þar er ábótavant, undir það skal ég taka.

Ég fyrir mitt leyti hefði talið æskilegra að þessi þáltill. hefði verið víðtækari, að hún beindist ekki aðeins að samskiptum íslendinga við eitt ríki, heldur að samskiptum okkar við fleiri ríki. (Gripið fram í: Hún gerir það.) Hún gerir það ekki, það er ekki rétt. Það er lögð megináhersla á að hér sé átt við eitt ríki, og það er undirstrikað sérstaklega og kom einnig fram í máli hv. þm. áðan, að hann hefði séð ástæðu til að koma með till. vegna framkomu bandaríkjamanna við sendinefnd Alþingis íslendinga til Kanada sem hefði orðið fyrir óvirðingu sem er auðvitað ekki gott. Þess vegna kom till. fram sérstaklega, það kom fram hjá hv. þm. áðan, þannig að hún er allmjög bundin við þetta eina ríki. En það er auðvitað ágætt að við þm. fáum tækifæri til að ræða um þetta. Þetta er mjög stórt mál í sjálfu sér, ferðafrelsi, og það er auðvitað hluti af víðtækari mannréttindum, eins og einn hv. þm. minntist á áðan, en ástæðulaust að fara inn á þau svið á þessu stigi. En ég vil bara undirstrika það, að það eru samskipti við fleiri þjóðir en aðeins Bandaríkin sem þyrfti að athuga í sambandi við þessa þáltill.