30.04.1977
Neðri deild: 82. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4046 í B-deild Alþingistíðinda. (3083)

50. mál, orkulög

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Í fjarveru frsm. minni hl. hv. iðnn., Benedikts Gröndals, vil ég segja hér nokkur orð um málið, einnig þar sem 1. flm. frv., Magnús Kjartansson, er ekki á þingi nú.

Ég get tekið undir það með frsm. meiri hl., að það er ekki aðstaða til þess að hefja hér neinar meiri háttar umr. um efni þessa frv., enda hafa slíkar umr. farið fram á Alþ. nokkrum sinnum og verið allítarlegar.

Það kemur m. a. fram í grg., sem fylgir þessu frv., að það er ekki nýtt af nálinni. Hér er um stórmál að ræða sem þarf í rauninni að fá afgreiðslu á Alþ. Grg. þessa frv. hefst með þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Frv. þetta var flutt sem stjfrv. á þingunum 1972 og 1973 og á sumarþinginu 1974 og sem þmfrv. á þingunum 1974 og 1975, en hefur ekki hlotið fullnaðarafgreiðslu. Rök fyrir flutningi frv. og lagasetningu um málið hafa að dómi flm. orðið ljósari með hverju ári sem líður.“

Það kemur síðan fram, að þetta frv. hafði verið samið á sínum tíma af sérfróðum mönnum um þessi efni. Hins vegar fjallar frv. um mikið ágreiningsmál, eins og komið hefur fram í umr. á Alþ., þ. e. a. s. um það, hvernig skuli líta á og skipa lagareglum varðandi yfirráð og eignar­rétt á svonefndum háhitasvæðum í landinu.

Meiri hl. hv. iðnn., eða þeir þrír sem undir­rita meirihlutaálitið, leggur til að málinu verði enn vísað frá, ekki tekin afstaða til málsins, því verði vísað til ríkisstj. þar sem það sé í athugun. Eins og kunnugt er hefur það verið í athugun mjög lengi og óheyrilega lengi. En minni hl., þeir Benedikt Gröndal og Magnús Kjartans­son, þeir sem þá voru í iðnn. d., leggur til að frv. verði samþykkt. Ég tel ekki þörf á því, eins og sakir standa, að hafa um þetta fleiri orð, en afstaða mín til málsins er sú, að ég tel orðið brýna þörf á því að málið fái þinglega meðferð og afgreiðslu og legg því til að frv. verði samþykkt.