02.05.1977
Efri deild: 82. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4050 í B-deild Alþingistíðinda. (3088)

234. mál, Iðnlánasjóður

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég gat því miður ekki verið við 2. umr. þessa máls þar sem brtt. okkar hv. 1. landsk. þm. var m. a. til umr., en grunnurinn að henni var sú skýrsla, sem fram hefur verið lögð og er á borðum hv. þdm. allra frá Framkvæmdastofnun ríkisins. En á bls. 25 í henni er skýrsla um hvernig útlán s. 1. árs hafa skipst hjá stofnuninni til hinna einstöku atvinnugreina. Þar er m. a. sagt að Fisk­veiðasjóður Íslands hafi fengið tvo milljarða 609 millj. kr. og Stofnlánadeild landbúnaðarins 1 milljarð og 100 millj. kr., en Iðnlánasjóður 250 millj. og er þá allveruleg hækkun frá því sem áður hafði runnið til Iðnlánasjóðs. Þetta var megingrunnurinn að flutningi till. okkar, ásamt því að forustumenn iðnaðarins hafa í fjölmiðlum að undanförnu lýst því mjög skýrt og skorinort yfir að iðnaðurinn sitji ekki við sama borð og aðrir atvinnuvegir landsins, sem aftur háir iðnaðinum mjög í því að leysa yfirstandandi vinnudeilu og framkvæma það sem er m. a. í kröfum verkalýðssamtakanna um hætta og betri atvinnuaðstöðu í hinum ýmsu fyrirtækjum lands­ins. Þess vegna taldi ég og við flm. nauðsynlegt að undirstrika þessar yfirlýsingar aðila vinnu­markaðarins á þörf iðnaðarins fyrir aukið fé til Iðnlánasjóðs.

Með yfirlýsingu hæstv. iðnrh. nú og samþykki iðnn. er að meginefni til tekin inn sú meginhugsun sem í brtt. okkar fólst, og fagna ég því sér­staklega að það sjónarmið er í raun viðurkennt. Hitt er minna atriði fyrir okkur út af fyrir sig, að sérstök deild sé stofnuð, þó að í till. okkar hafi verið, heldur hitt, sem er aðalatriði málsins, að útvega verði aukið fjármagn. Um það má að sjálfsögðu deila, hvort ekki ætti að setja þá skyldu eða kvöð inn í lög um Framkvæmda­stofnun ríkisins, en slík ákvæði eru ekki til í dag. Um það efni hefur stjórn Framkvæmda­stofnunarinnar frjálsar og óbundnar hendur. En það er raunverulega megingrunnurinn undir því, að þessi hugsun verði framkvæmd, að aukið fjármagn fáist til iðnaðarins, til þeirra þarfa er frá greinir í brtt., því að e. t. v. er það einn alfjölmennasti hópur vinnandi fólks sem hér er um að ræða hvað aðilafjölda snertir, þ. e. a. s. verkafólkið sjálft á vinnustöðum hinna ýmsu iðnfyrirtækja um landið allt. En því miður er of mikið um það í dag, að einstökum iðnfyrir­tækjum sé látið haldast það uppi að halda áfram rekstri sínum á eilífum og síendurteknum undan­þágum um starfshætti og starfsaðstöðu á vinnu­stöðum. Þetta er gersamlega óþolandi ástand. Iðn­rekendur bera því hins vegar fyrir sig, og ekki skulu heldur dregnar í efa þeirra fullyrðingar, að þeir geti ekki bætt um þarna vegna lánsfjár­skorts, sem þeir þó gjarnan vildu að eigin sögn.

Ég ítreka það sem sagt, að meginatriði málsins er það, og það snýr að Framkvæmdastofnuninni sjálfri, að úr því verði bætt að aukið fjármagn renni til iðnaðarins hlutfallslega jafnt og til annarra starfsgreina þjóðfélagsins, þ. e. a. s. fiskveiða og landbúnaðar, hið óréttláta hlutfall leiðrétt verulega frá núverandi óþolandi ástandi. Beini ég í því efni sérstaklega aths. mínum til stjórnar Framkvæmdastofnunar Íslands. Við þennan hlut iðnaðarins verður ekki unað, og það verður alls ekki heldur við það unað, með hliðsjón af öllum þeim mikla fjölda fólks sem þarna á hlut að máli, að það búi við annars eða þriðja flokks hollustuhætti og starfsaðstöðu. En með hliðsjón af yfirlýsingum iðnrh. og vitandi um vilja iðnn., þá mun ég draga till. okkar tvímenninganna til baka. Þessa ákvörðun tek ég jafnframt í trausti þess, að Framkvæmdastofnunin breyti um stefnu í þessum atriðum og iðnaðinum verði gert kleift með auknu fjármagni til þeirra hluta, sem í till. er greint frá, að gera hlut iðnverkafólks ekki lakari á vinnustað en annarra þegna þjóðfélagsins sem hörðum höndum vinna.