02.05.1977
Efri deild: 84. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4144 í B-deild Alþingistíðinda. (3169)

129. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég sé nú enga ástæðu til þess að teygja þessar umr. langt fram á nóttina. Ég hef flutt á þskj. 663 till. til rök­studdrar dagskrár, sem ég mun kynna síðar við umr. þessa máls. Við atkvgr. eftir 2. umr. verður úr því skorið, hvort till. hv. þm. Stefáns Jónsson­ar um að frv. verði fellt nær fram að ganga, og ég mun því taka þessa till. mína aftur til 3. umr. Ég vil hins vegar, vegna þess að umr. lýkur senn, freista þess að koma hér fram með aðra brtt. sem ég ætlast til að fram fari atkvgr. um við 2. umr. Þessi brtt. er svo hljóðandi:

„Aftan við frv. bætist ákvæði til bráðabirgða: Áður en lög þessi koma til framkvæmda skal íbúum Hvalfjarðarstrandarhrepps, Innri-Akraneshrepps, Skilmannahrepps og Leirár- og Mela­sveitar í Borgarfjarðarsýslu gefinn kostur á að taka afstöðu til byggingar járnblendiverksmiðju í Hvalfirði. Þátttaka í atkvgr. er bundin við þá sem kosningarrétt hafa til Alþingis. Verði niður­staðan sú, að meiri hl. þeirra, sem taka þátt í atkvgr., hafnar byggingu verksmiðjunnar koma lög þessi ekki til framkvæmda.“

Eins og ég hef sagt sé ég enga ástæðu til þess að teygja frekar úr þessari næturumr., en áskil mér rétt til að taka síðar til máls. Ég vil hins vegar óska eftir því við forseta, að hann leiti afbrigða svo að þessi brtt. megi koma til atkv.