03.05.1977
Sameinað þing: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4184 í B-deild Alþingistíðinda. (3251)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Sinn er siður í landi hverju. Alþ. á nú að fara heim og hætta störfum þegar ástand á vinnumarkaðinum er eins og öllum er kunnugt. Ríkisstj. ætlar að sjá um hlut hins opinbera — þjóðarheildarinnar — á eigin spýtur með starfshópum sem hún hefur skipað og a. m. k. sumir þm. vita engin skil á. Sem dæmi um önnur vinnubrögð skal ég nefna það, að á pálmasunnudag s. l. var fjhn. norska þingsins kölluð á hátíðisdegi til kvöldfundar svo að fjmrh. gæti rætt við hana um tíðindi sem höfðu gerst í vinnusamningum einmitt varðandi hlut ríkisins, af því að fjmrh. taldi sig ekki geta rætt um hvað ríkisvaldið eða ríkissjóður gæti lagt fram án þess að ræða við þingið, og hann ræddi við þm. stjórnarandstöðunnar líka. Það er að vísu ekki nýr háttur hér á landi, en okkur ekki til neins sóma, að ríkisstj. telji sig við þessar aðstæður yfirleitt ekki þurfa neitt við stjórnar­andstöðu að tala, hún fái að vita um þetta eftir á, það sé nóg að kokka þetta í herbúðum stjórnar­liðsins eins. Hjá nágrönnum okkar er öðruvísi að þessu farið.

Hæstv. forsrh. nefndi að stjórnarandstaðan væri of seint á ferð eins og fólkið hans Jónasar uppi í Borgarfirði, en stjórnarandstöðuflokkarnir hefðu ekkert haft við það að athuga fyrir mánuði að rætt væri um þinglausnir nú um þetta leyti. Breskur stjórnmálamaður hefur sagt, að vika sé mjög langur tími í pólitík, hvað þá heill mánuður. Fyrir mánuði hygg ég að það hefði ekki hvarflað að öllum þorra manna hér, a. m. k. ekki stjórnarandstæðingum sem fylgjast ekki með því sem gerist í stjórnarherbúðunum, að ríkisstj. mundi guggna á afgreiðslu skattamálsins, bein­línis koðna niður og hætta við að afgreiða veiga­mesta stjfrv. sem hefur komið fram á þessu þingi og það sem allur þorri landsmanna gerði sér hvað mestar vonir um að yrði til aukins réttlætis í fjármálum, aukins jafnaðar og annars sem þessi hæstv. ríkisstj. hefur þóst berjast fyrir. Aðstaðan er því hvað þingið snertir töluvert önnur nú en fyrir mánuði. Það er enn þá aumara fyrir þing­heim að fara heim þegar veigamestu málum, sem vitað er að gætu hjálpað til, hefur ekkert þokað áfram, þá á að hlaupa frá þeim.

Ég veit ekki hvað stjórnin ætlast fyrir, en mig minnir að það standi í stjórnarskránni að skattar verði ekki lagðir á með brbl. Ég hygg að það hafi verið túlkað þannig, að lög um skattaálögur, þó að þær séu eitthvað ofurlítið lægri en þær sem fyrir eru, verði ekki heldur sett sem brbl. Ég vil vara hæstv. ríkisstj. við því að ætla sér mjög langt á því sviði algerlega að þarflausu, af því að þingheimur er á fullum launum og getur hæglega verið til taks.

Að lokum sagði hæstv. ráðh. að það væri vafasamt að hér í þessum sal fari fram umr. um samningaviðræður. Hér hefur verið rifjað upp hvað hæstv. dómsmrh., formaður annars stjórnarflokksins, Framsfl., sagði í útvarpsumr., sem gladdi margt fólk í landinu að heyra hann segja. Var þetta sneið til samstarfsflokksins og formanns hans hjá hæstv. forsrh.?