04.05.1977
Neðri deild: 89. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4292 í B-deild Alþingistíðinda. (3367)

124. mál, símaafnot aldraðs fólks og öryrkja

Jónas Árnason:

Virðulegi forseti. Sannleikurinn er sá, að þetta mál er þess eðlis að það gefur tilefni til þess að maður haldi langa ræðu. Til þess er hins vegar enginn tími. En ég vil líta svo á að þeir, sem hér hafa talað, vilji allir að gamalt fólk fái þá kveðju frá Alþ. nú á þessum síðasta degi þessa þings, að það sé alls góðs mak­legt og m. a. þess að fá ókeypis síma. Það er rétt hjá hv. þm. Karvel Pálmasyni, að það er blettur á Alþ. að mál eins og þetta skuli ekki vera samþykkt umyrðalaust. Enn verri er þó bletturinn á ríkisstj. og sérstaklega viðkomandi ráðh. að vera ekki búinn að framkvæma það, sem honum hefur fyrir löngu verið uppálagt.

Hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir gerði þá aths. áðan við ræðu hv. þm. Karvels Pálmasonar, að hann hefði haft hátt eins og fyrri daginn. Oft hefur hv. þm. haft ástæðu til þess að hafa hátt, en að mínum dómi sjaldan eins og einmitt núna. Hann hefur hátt vegna þess að hann skilur eðli þessa máls. Hann veit að kjör gamals fólks í þessu velferðarþjóðfélagi okkar eru til skammar. Og aths. hv. þm. Sigurlaugar Bjarnadóttur og töluverður hiti í hennar máli stafar af þessu sama. Hér tala þm. sem — guði sé lof — hafa ekki glatað úr sér manneskjunni þrátt fyrir pólítískt vafstur. Hins vegar getur maður látið sér detta í hug að æðimargir, sem fást við stjórnmál og skipa ábyrgðarstöður í þessu þjóðfélagi, hafi glatað úr sér manneskjunni eða að manneskjan í þeim fái ekki lengur notið sín fyrir öllu talnafarganinu og öllum útreikningunum.

Ég álít að það sé fátt hneykslanlegra heldur en það, — þegar um er að ræða sjálfsagt mál eins og þetta að veita gömlu fólki ókeypis síma, — fátt hneykslanlegra heldur en að setjast þá niður með blýant og blað og fara að reikna út hvað þetta kosti þjóðfélagið eða einstakar stofnanir þjóðfélagsins. Svona afstaða er fyrir neðan allar hellur og ekki hvað síst vegna þess, að sennilega eru fá þjóðfélög í heiminum þar sem er bruðlað eins með almannafé og í þessu þjóð­félagi.

Ég ætla ekki að segja allt sem mér býr í brjósti í sambandi við þetta mál. Það yrði of langt mál, allt of langt. T. d. væri hægt að flytja langa hugleiðingu um það, hvernig velferðarþjóðfélögin fara stundum með hjartað í manneskjunum, hvað tilfinningin fyrir þeim, sem minna mega sín, slævist smám saman vegna þess að menn telja sér trú um að þessi eða hin stofnunin hljóti að sjá um þetta allt saman, — menn hætta að finna sjálfir til ábyrgðar gagnvart gömlu fólki eða öðrum þeim sem bágt eiga. Í þessu er fólgin mikil hætta. Velferðarþjóðfélagið getur smám saman gengið svo langt í að slæva manneskjulegar tilfinningar, kæla svo hjartað í fólki að til mestu hörmunga leiði fyrir ýmsa einstaklinga og þá ekki hvað síst gamalt fólk, — það fólk sem á náttúrlega fyllstan rétt á öllu í þessu þjóð­félagi. Það er gömlu fólki að þakka að við búum við þá hagsæld sem ríkir í dag, starfi þess og striti á fyrri ævirárum.

Ég ítreka það að ég leyfi mér að skilja svo mál manna hér við þessa umr. að þeir vilji um­fram allt gera líf gamals fólks þægilegra, betra og hamingjuríkara. Ég vil líta svo á, að fyrir þeim, sem hér hafa lagt orð í belg nú á þessum síðustu mínútum þessa þings, hafi þetta vakað, m. ö. o. að það verði kveðja þessarar hv. d. til gamals fólks í landinu, að við séum sammála um að það sé ekki nærri nógu mikið fyrir það gert og það standi til í næstu framtíð að bæta þar stórlega um.