04.05.1977
Sameinað þing: 87. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4300 í B-deild Alþingistíðinda. (3387)

Þinglausnir

Forseti (Ásgeir Bjarnason):

Hæstv. ríkisstj. Háttvirtir alþingismenn. Ég mun gefa yfirlit yfir störf Alþingis.

Þingið hefur staðið frá 11. okt. til 21. des. 1976 og frá 24. jan. til 4. maí 1977, alls 173 daga.

ÞINGFUNDIR hafa verið haldnir:

Í neðri deild .............. 91

Í efri deild ................ 90

Í sameinuðu þingi ....... 87

Alls 268

ÞINGMÁL og úrslit þeirra:

I. Lagafrumvörp:

1. Stjórnarfrumvörp:

a. Lögð fyrir neðri deild…. 25

b. Lögð fyrir efri deild .... 45

c. Lagt fyrir sameinað þing 1

71

2. Þingmannafrumvörp:

a. Borin fram í neðri deild…32

b. Borin fram í efri deild …19

51

122

Úrslit urðu þessi:

Lagafrumvörp:

a. Afgreidd sem lög:

Stjórnarfrumvörp ........ 50

Þingmannafrumvörp .... 13

63

b. Vísað til ríkisstjórnarinnar:

Þingmannafrumvörpum 4

c. Ekki útrædd:

Stjórnarfrumvörp 21

Þingmannafrumvörp 34

55

122

II. Þingsályktunartillögur:

a. Bornar fram í sameinuðu

þingi .................... 79

b. Bornar fram í neðri deild… 7

e. Borin fram í efri deild… 1

87

Úrslit urðu þessi:

Ályktanir Alþingis ... .. .. . . . 26

b. Vísað til ríkisstjórnarinnar 9

c. Ekki útræddar ........ 52

87

III. Fyrirspurnir:

Í sameinuðu þingi 54. Sumar

eru fleiri saman á þingskjali

svo að málatala þeirra er ekki

nema 29

Öllum þessum fyrirspurnum

var svarað nema einni skriflegri.

Mál til meðferðar í þinginu

alls 238

Skýrslur ráðherra voru 7

Tala prentaðra þingskjala .. 704

Yfirlit þetta sýnir að mörg mál hafa verið lögð fyrir Alþ. það sem nú er að ljúka störfum. Þótt sum þeirra hafi eigi hlotið afgreiðslu nú hafa þau allflest komið til umr. og meðferðar í nefndum. Auk þessa hefur komið fyrir þingið margvíslegur fróðleikur og skýrslur um fjölþætt viðfangsefni, niðurstöður og útreikningar um marga þætti þjóðmála. Nú sem oft áður hefur talsverður tími farið í umræður utan dagskrár, einkum þó fyrri hluta vetrar. Orkumálin hafa sem oft áður legið mönnum á hjarta. Ísland er land mikilla andstæðna, þar sem jöklarnir hylja mikil svæði og eldfjöllin gera vart við sig af og til. Jarðhitinn er þýðingarmikill og yljar nú íbúðir meiri hluta landsmanna.

Af verkum þessa þings ber hæst og verður lengst í minnum höfð staðfesting á samningi þeim sem fól í sér fulla viðurkenningu á óskor­uðum yfirráðum íslendinga á 200 mílna fiskveiði­lögsögu. Þar með er löngum og erfiðum þætti í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar lokið með fullum sigri sem að vísu leggur mikla ábyrgð á hendur íslenskri þjóð og löggjafarsamkomu hennar. Sá sigur er merkur áfangi í sögu ís­lendinga. Honum er þegar fylgt eftir með löggjafarstarfi um nýtingu og vernd fiskimiðanna.

Þetta þing hefur líka afgreitt þýðingarmikil lög á fleiri sviðum. Þar má fyrst nefna réttar­farsmál, en langt er síðan sambærileg skref hafa verið stigin í þeim efnum. Þjóðin er komin í þjóðbraut eftir margra alda einangrun. Þá breyt­ist margt og þá er m. a. nauðsyn að endurskoða réttarfarsreglur.

Sama má segja um menntamál og uppeldismál yfirleitt. Þar er líka brýn þörf aðlögunar að nýjum tíma og nýjum viðhorfum. Það mun verða dómur sögunnar að þetta þing hafi unnið vel að því að þoka þeim málum á betri veg þó að ýmis atriði þeirra séu enn á athugunarstigi.

Eins má nefna þá miklu vinnu sem þetta þing hefur lagt í athugun skattamálanna og er nauðsynlegur undirbúningur að afgreiðslu þeirra á næsta þingi. Skattheimtan og framkvæmd hennar er hyrningarsteinn velferðarþjóðfélags og það varðar alla þegna landsins hvernig þar tekst til. Afgreiðsla fjárlaga ein sér er mikið starf, enda margir þættir sem þar koma saman. Þegar verið er að skipta og ráðstafa opinberu fé þykir það síst of mikið sem á er lagt og til ráðstöfunar kemur. Hvort sem færri eða fleiri eru ánægðir með úrslitin er það býsna mikil vinna sem liggur þeim til grundvallar. Fjárlagagerðin og þar með skattheimtan er mikið verk og vandasamt og snertir alla sem í landinu lifa.

Þingsályktanir þær, sem samþykktar hafa verið á þessu þingi, eru næsta ólíkar, svo sem jafnan vill verða. Sumar eru kannske helst yfirlýsing um æskilega stefnu, athugun eða leit að því sem ekki er vitað hvort finnst. Aðrar eru hins vegar ákveðin fyrirmæli um aðgerðir svo að segja á öllum sviðum þjóðlífsins. Er stjórnvöldum vissu­lega sett talsvert fyrir með þeim ályktunum. Munu flestir finna í þeim ýmislegt sem þeir binda nokkrar vonir við.

Störf Alþingis hafa löngum verið umdeild, og átakamál hafa verið til meðferðar á þessu þingi eins og öðrum. Lög um stóriðju hafa verið samþykkt. Áður var að því fundið að hliðstæð fram­kvæmd væri á valdi og í eigu útlendinga. Nú óttast ýmsir þá fjárhagslegu áhættu að fyrir­tækið sé í íslenskri eign að meiri hluta. Reynslan sker úr, en e. t. v. mættu menn stundum hug­leiða að það er síst minni vinna sem liggur að baki afgreiðslu viðkvæmra og örlagaríkra deilumála. Nýting íslenskra orkulinda og sam­starf við erlendar þjóðir um fjármagn og fram­kvæmdir er þýðingarmikill þáttur í stjórn þjóðmálanna.

Efnahagsmálin eru sífellt viðfangsefni Alþing­is. Á margan hátt hefur birt yfir þeim málum nú á síðustu tímum, viðskiptaárferði batnað, við­skiptin við útlönd orðið hagstæðari. Ýmsar blikur eru að vísu á lofti í sambandi við kaupgjalds- og verðlagsmál og ærin óvissa ríkjandi. En við lítum þó björtum augum til framtíðarinnar í þeirri von, að almenn lífskjör megi batna, en ekki komi til verkfalla eða neyðarástands vegna ósamkomulags um skiptin innbyrðis nú þegar efnahagur fer batnandi.

Löggjafarstarfi Alþingis er lokið að þessu sinni. Ég þakka hæstv. ríkisstj. og hv. alþm., skrifstofustjóra og starfsfólki Alþingis umburðarlyndi í minn garð og einnig ánægjulegt samstarf. Sér­stakar þakkir færi ég varaforsetum sem jafnan hafa veitt mér bestu aðstoð. Ég þakka skrifurum þingsins ágæt störf. Skrifstofustjóra og öllu starfsfólki Alþingis þakka ég mikil og vel unnin störf. Ég óska hv. alþm. góðrar heimferðar og heimkomu og vona að við hittumst öll heil til starfa á næsta þingi. Landsmönnum öllum óska ég árs og friðar.