10.11.1976
Neðri deild: 10. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í B-deild Alþingistíðinda. (367)

41. mál, dvalarheimili aldraðra

Flm. (Benedikt Gröndal):

Virðulegi forseti. Á árinu 1973 voru sett lög um dvalarheimili aldraðra þar sem gert var ráð fyrir því að ríkið greiddi þriðjung af kostnaði við byggingu þeirra, tæki og búnað. Var þessum lögum almennt fagnað í landinu og þau voru mikilvægt skref til að auðvelda byggingu slíkra dvalarheimila, sem geta að sjálfsögðu verið í margvíslegu formi, bæði íbúðir fyrir aldraða og samfelld skipulögð heimili.

Tveim árum síðar, eða snemma á árinu 1975, setti hæstv. ríkisstj. lög um margvíslegar aðgerðir sem horfðu til sparnaðar í ríkisrekstrinum, og þ. á m. voru ýmsar ráðstafanir sem breyttu verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Í þessum bandormi var ákvæði um að fella skyldi niður lagaákvæðið frá 1973, tveggja ára gamalt, um hluta ríkisins af kostnaði við byggingu á dvalarheimilum aldraðra. Þessi skyndilega breyting hefur valdið sveitarfélögum margvíslegum erfiðleikum, m.a. af því að hún hefur verið framkvæmd af nokkurri harðneskju, þar sem ýmis sveitarfélög lögðu mikla áherslu á að hraða slíkum byggingum og höfðu stofnað til kostnaðar í trausti þess að ríkisvaldið stæði við sinn hluta af þeim kostnaði, en sitja nú uppi með hann allan eftir að ríkið kippti að sér hendinni með sparnaðarlögunum frá 1975.

Þá er þess að geta, sem ég tel vera veigamikil rök í málinu, að hér á höfuðborgarsvæðinu eru reist stór og mjög myndarleg dvalarheimili fyrir happdrættisfé sem safnað er á landinu öllu með happdrætti sem að sjálfsögðu er heimilað í lögum. Þetta er mjög ánægjulegt framtak. Allir hljóta þó að vera sammála um að ekki megi auka svo mjög byggingar þessara dvalarheimila hér á höfuðborgarsvæðinu að úr þeim dragi annars staðar á landinu. M.ö.o.: það getur ekki verið stefna Alþ. að draga sem allra mest af öldruðu fólki frá heimahögum sínum og til þess að dveljast síðustu árin hér í höfuðborginni. Önnur sveitarfélög hafa ekki neina sambærilega tekjulind við þetta myndarlega happdrætti, sem byggir hér í Reykjavík og nágrenni, og verða því að leggja á borgara sína með almennum gjöldum þann kostnað sem þau hafa af byggingu dvalarheimilanna, en nú eiga þau að standa undir þeim kostnaði ein. Ég tel því að reynslan, sem þegar hefur fengist af sparnaðarlögunum frá 1975, bendi tvímælalaust í þá átt að þar hafi ekki verið stigið rétt skref og að Alþ. eigi ekki annars kost en að taka upp hið fyrra ákvæði um að ríkið greiði 1/3 hluta af kostnaði við byggingu dvalarheimila aldraðra, tæki þeirra og búnað. Um það er þetta stutta frv. sem við hv. 8. landsk. þm. höfum leyft okkur að flytja.

Bæjarstjórn Akraness hefur fyrir nokkrum dögum sent Alþ. erindi þar sem skýrt er frá samþykkt sem gerð var í bæjarstjórninni einróma hinn 29. okt. s.l. Þar samþykkti bæjarstjórnin að beina þeirri áskorun til Alþ. samþ. frv. til l. um breyt. á l. um dvalarheimili aldraðra sem hefur verið lagt fram og felur í sér að ríkissjóður skuli að nýju greiða 1/3 hluta stofnkostnaðar við þessar stofnanir.

Á fjölmennum fundi Samtaka sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi, sem haldinn var í Munaðarnesi fyrir síðustu helgi, kom fram till, þar sem það var talið hafa verið spor aftur á bak, er þátttaka ríkissjóðs í stofnkostnaði dvalarheimila aldraðra var afnumin um s.l. áramót, og sagt, að þetta bitni harðast á byggðum dreifbýlisins þar sem þörf er verulegs átaks í þessum málaflokki. Aðalfundurinn beinir því þeirri áskorun til stjórnvalda og Alþingis að beita sér fyrir því að fyrri lagaákvæði um þessi efni verði lögleidd að nýju. Þessi till. var flutt af sveitarstjórnarmönnum á Akranesi, í Skilmannahreppi, Borgarnesi, Stykkishólmi og Búðardal. Þess má geta, að Ásgeir Pétursson sýslumaður í Borgarnesi, sem er sérlega kunnugur slíkri byggingu þar, lýsti yfir á fundinum einróma stuðningi við hana, en hann var þar gestur.

Enda þótt þessi dæmi, sem ég hef hér nefnt um beinar áskoranir, séu bæði úr Vesturlandskjördæmi, þá eru svipuð vandamál uppi umhverfis allt land. Ég vil því vænta þess að mál þetta verði skoðað vandlega, og ég hygg að athugun þess geti ekki leitt til annarrar niðurstöðu en þeirrar, að Alþ. verði að taka upp hinn fyrri hátt. Ríkissjóður verður að greiða 1/3 hluta af kostnaði við dvalarheimili aldraðra. Það misræmi, sem nú er varðandi slíkar byggingar milli höfuðstaðarsvæðisins og annarra landshluta, getur ekki staðið til langframa.