10.11.1976
Neðri deild: 10. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í B-deild Alþingistíðinda. (369)

50. mál, orkulög

Flm. (Magnús Kjartansson):

Hæstv. forseti. Þetta frv. hefur verið flutt fimm sinnum áður hér á hinu háa Alþ., þar af þrívegis sem stjórnarfrv., og ég ætla að þessu sinni ekki að halda ítarlega framsögu um efni þess eða röksemdir þær sem að efni þess lúta. Ég þekki það vel vinnubrögð starfsfélaga minna hér á þingi, að ég veit að hver einasti maður, sem hér á sæti, þekkir efni þessa frv., hefur tekið afstöðu til þeirra röksemda sem fluttar hafa verið í sambandi við þetta frv., og ég er víss um að hver einasti þm. hefur tekið afstöðu til þess meira að segja í huga sínum.

Þetta frv. hefur hlotið þau örlög, sem sum frv. hljóta hér á hinu háa Alþ. og hlutu sérstaklega mikið hér áður fyrr, það hefur verið svæft, það hefur aldrei komið til afgreiðslu. Ég las það fyrir nokkrum dögum í því dagblaði íslensku sem forðast mest að láta sannleikann birtast á síðum sínum, Morgunblaðinu, að þetta mál hefur verið fellt fimm sinnum hér á þingi. Þetta eru ósannindi, eins og allir þm. vita, það hefur aldrei verið fellt. Hins vegar hefur verið að því unnið þannig, ekki síst af hálfu hv, þm. Ingólfs Jónssonar, að svæfa það, að koma í veg fyrir að það kæmi nokkurn tíma til atkvgr. Þetta er aðferð sem oft hefur verið beitt hér á þingi og var einkum beitt hér áður fyrr. Og þetta er aðferð sem síst hefur stuðlað að því að virðing Alþingis færi vaxandi meðal þjóðarinnar, því þetta eru vinnubrögð sem ekki ná nokkurri átt. Alþm. eiga vissulega að taka sér nægan tíma til þess að fjalla um mál. Ég hef oft gagnrýnt þau vinnubrögð að ætlast til þess að alþm. taki afstöðu til hinna flóknustu mála á nokkrum dögum, eins og ríkisstjórnir ástunda allt of oft. En Alþ. á líka að lita á það sem skyldu sína að afgreiða mál sem fyrir það eru borin og láta afþjóð vita hver afstaða manna er til þeirra. Það hefur verið komið í veg fyrir það í sambandi við þetta frv.

Ég sagði áðan að þetta frv. hefði þrívegis verið flutt sem stjórnarfrv., það var í tíð fyrri ríkisstj., en að henni stóðu Framsfl., Alþb. og SF. Það voru flokkar sem þá höfðu meiri hl. hér á hinu háa Alþ. Og þegar frv. var flutt hér tóku fulltrúar Alþfl. mjög eindregið undir það og hafa sýnt málinu mikinn áhuga.

Ég minnist þess, að í hvert skipti sem málið var flutt hélt hv. þm. Ingólfur Jónsson langa ræðu, mjög langa ræðu í hvert skipti um málið, en hann tók aldrei neina afstöðu til þess, hann prjónaði í allar áttir, en án þess að nokkurn tíma væri tekin nokkur heildarafstaða. Þetta gerðist meðan ég gegndi ráðherrastörfum. En síðar átti ég sæti í sömu n. og hv. þm. Ingólfur Jónsson, iðnn., sem fjallaði um þetta mál. Á fundi í n. sagði þessi hv. þm. einu sinni við mig: „Ég er samþykkur meginatriðunum í þessu frv., en það eru nokkur atriði sem ég vildi hafa á aðra lund.“ Ég hvatti þá hv. þm. til þess að ganga frá brtt. um þessi ágreiningsefni sem hann taldi sig hafa og við gætum svo rætt það í n. og kannað hvort við kæmumst að samkomulagi, en ella látið Alþ. skera úr um þetta mál. Hv. þm. neitaði á engan hátt þessari ósk minni, en hann gerði ekki neitt, hann reyndi að halda sér í þau vinnubrögð að svæfa málið.

Hv. þm. hefur gert þetta mjög oft áður. Ég man t.a.m. eftir því þegar áburðarverksmiðjan var sett á laggirnar samkvæmt nýjum lögum á sínum tíma, þá urðu ákaflega einkennileg umskipti á málínu í meðferð Alþ. og henni breytt í hlutafélag enda þótt ríkið legði fram fjármagn til fyrirtækisins, og hlutafélagið var talið eiga þessa verksmiðju. Einar Olgeirsson, sem þá átti sæti á þingi, flutti á hverju einasta þingi till. um að breyta þessari skipan. Hv. þm. Ingólfur Jónsson, sem þá var einnig stundum ráðh., beitti þessari aðferð: að svæfa og svæfa. En þegar hann var búinn að svæfa þessar till. í ein sjö skipti, held ég, þá gerðist það að ráðh. varð sjálfur að láta undan, hann varð sjálfur að flytja og fallast á þær athugasemdir sem Einar Olgeirsson hafði gert. Ég held að þessi svæfingaraðferð sé ákaflega óeðlileg og að menn eigi að leggja hana niður. Við erum ekkert of góðir til þess, alþm., að taka afstöðu til mála og láta kjósendur okkar vita hver afstaða okkar er í rann.

Ég sagði áðan að meiri hl. alþm. hefði staðið á bak við þá sem hafa flutt þetta frv., bæði þegar það var flutt sem stjórnarfrv. og eins þegar það hefur verið flutt sem þingmannafrv. Ég hef talað um þetta við ákaflega marga þm., og ég er ekki í nokkrum vafa um að þetta er rétt. En þá á þessi afstaða einnig að koma fram. Þjóðin á heimtingu á því að alþm. myndi sér skoðun og að þeir séu menn til að standa við hana.

Þessi verulegi meiri hl., sem ég tel vera hér á þingi um þetta frv., er athyglisverður, vegna þess að þarna er fjallað um atriði sem er oft mjög viðkvæmt, eignarréttinn. Það er eignarrétturinn sem er meginástæða til þess að menn skiptast í flokka. Mismunandi viðhorf til einkaeignarréttar eru þar eitt meginatriðið. En sem betur fer gera flestir sér ljóst að það eru vissir þættir sem eru fyrir utan svið þessa einkaeignarréttar. Ég held, sem betur fer, að það komi engum manni, a.m.k. hér á hinu háa Alþingi íslendinga, í hug að einhverjir eigi að fá ágóðann af andrúmsloftinu sem við drögum að okkur, ekki heldur af sólargeislunum sem skina á okkur. En það atriði, sem fjallað er um í þessu frv., er af sama taginu. Það er orkan í iðrum jarðar. Við erum þannig settir hér á Íslandi að um Ísland liggur sprungukerfi sem liggur eftir gjörvöllu Atlantshafi. Það liggur um Ísland frá suðvestri til norðausturs. Við erum þar í meira nágrenni við orkuna í iðrum jarðar en flestar aðrar þjóðir, og það hefur haft í för með sér ýmis einkenni á okkar landi. Þessi orka í iðrum jarðar er í eðli sínu sams konar og sólarorkan sem ég var að tala um áðan eða loftíð sem við öndum að okkur. Ég er sannfærður um að yfirgnæfandi meiri hl. þjóðarinnar og alþm. er þeirrar skoðunar að þessi orka í iðrum jarðar eigi ekki að vera í neinni einkaeign. Að því leyti sem við getum hagnýtt þessa orku eigum við að gera það í þágu alþjóðar, en ekki þannig að einhverjir einstaklingar geti gert sér það að gróðalind.

Ég beitti mér upphaflega fyrir því að þetta frv. var flutt þegar verið var að undirbúa lagningu hitaveitu á Reykjanesi. Það var ákaflega stórt mál vegna þess að olíuverð hafði hækkað mjög mikið, og það var í senn stórfellt efnahagsmál íslendinga og sjálfstæðismál að geta nýtt innlenda orkugjafa í stað olíu. En það svæði, sem notað var til þess og notað er til að koma hitaveitu um Suðurnes, er í einkaeign. Landið var í einkaeign enda þótt ríkið hefði lagt allan tilkostnað til þess að rannsaka þær miklu orkulindir sem þar eru. Og það kom í ljós að þeir einstaklingar, sem áttu land á þessu svæði, hugsuðu ekki um heildarhagsmuni þessarar þjóðar. Þeir fóru allt í einu að líta á sjálfa sig sem einhvers konar olíufursta og vildu hagnast á hví að unnið væri að því óhjákvæmilega þjóðhrifaverkefni að nýta innlenda orkugjafa í stað olíu. Það komu meira að segja upp þær hugmyndir hjá þeim að verðleggja orkuna í Svartsengi á sama hátt og olíu. Þrír litu á sjálfa sig sem einhvers konar olíufursta sem ættu að græða á því persónulega að þjóðin breytti um frá því að flytja inn orku og notaði sína eigin orku. Þetta eru sjónarmið sem brjóta í bága við siðgæðisvitund alls þorra þjóðarinnar að mínu mati, og ég er viss um að þau brjóta einnig í bága við sjónarmið alls þorra þm.

Það tókst vissulega að lækka þessar hrikalegu hugmyndir örfárra gróðaaðila, en engu að síður gerðist sá atburður sem ég tel að geti dregið dilk á eftir sér, að þessum aðilum voru greiddir fjármunir fyrir þessa orku sem unnin var úr iðrum jarðar. Ég tel það vera algjörlega rangt. Ef verður haldið áfram á þeirri braut, þá kunnum við að vera að búa til erfiðleika sem eiga eftir að verða okkur ákaflega þungbærir.

Ég vil minna á það, að á Reykjanesi er einnig annar staður þar sem hugsað hefur verið til þess að nýta orkuna í iðrum jarðar. Það eru uppi hugmyndir um það að koma upp sjóefnavinnslu á Reykjanesi. Rannsóknarráð ríkisins framkvæmdi á því máli ítarlega könnun á sínum tíma og niðurstöður þeirrar könnunar bárust til mín meðan ég gegndi störfum iðnrh. Ég lét óháða aðila kanna störf Rannsóknaráðs, og niðurstöður þessara óháðu aðila voru þær, að Rannsóknaráð hefði síst verið of jákvætt í viðhorfum sínum, heldur væri þarna mjög álitlegur möguleiki. En það land, sem þarna er um að ræða, þar sem heita vatnið er, það er af hálfu leyti í eigu ríkisins og að hálfu leyti í eigu einstaklinga. Einn þeirra einstaklinga, sem eiga þetta land, á sæti hér á Alþingi.

Þegar þessi atriði komu í ljós, þá lét ég eiga viðtal við þennan hv. alþm. um það hvort ríkið fengi ekki að kaupa landið, sem um var að ræða þarna, á því verði sem væri venjulegt gangverð á svæðinu, án tillits til þeirrar miklu orku sem þarna hefði fundist í undirdjúpunum. Þessi hv. þm. neitaði þessari ósk. Hann sagðist vilja að hann og ættmenn hans ættu kost á því að gera fjármunakröfur í sambandi við nýtinguna á orkunni.

Ef það heldur áfram að við látum viðgangast að einstaklingar geti gert kröfur um fjármuni þegar verið er að leysa vandamál í þágu alþjóðar, þá kunnum við að vera að búa til hrikalega erfiðleika, ekki aðeins stórkostlegt þjóðfélagslegt ranglæti, heldur einnig erfiðleika sem erfitt mun að yfirstiga og gera okkur ókleift að nýta þau auðæfi sem við eigum á þessu sviði. Þess vegna er óhjákvæmilegt að um þetta verði sett löggjöf. Ég vil vænta þess að sú aðferð hv. þm. Ingólfs Jónssonar að svæfa þetta mál, að hún standi ekki öllu lengur, því þetta er mál sem ekki má svæfa. Þetta er mál sem verður að leysa, og það er ekki orðið seinna vænna að leysa það ef við eigum ekki að búa til hrikalega erfiðleika fyrir okkur.

Ég mun ekki fara fleiri orðum um þetta mál á þessu stigi, ég er búinn að skýra það svo oft áður á þessu stigi. Ég er búinn að skýra það oft áður í ítarlegum ræðum og veit að þm. kunna skil á því öllu saman. Ég legg til að frv. verði vísað til hv. iðnn. En ég vil beina þeirri ósk jafnframt til hæstvirts forseta eða hæstvirtra forseta, að þeir fylgist með hví að iðnn. gegni skyldustörfum sínum og skili áliti um þetta mál eftir tiltölulega skamman tíma. Það er búið að kanna málið ár eftir ár, það er búið að safna gögnum úr öllum áttum, það er búið að kanna það til slíkrar hlítar að það geta ekki verið neinar efasemdir um málsatriði í sambandi við það.

Það er skylda n. að skila áliti um þetta mál hingað til d. þannig að Ed. geti einnig fjallað um það og hægt sé að ganga frá málinu á þessu þingi.

Ég sagði áðan að ég vissi að meiri hl. þm. væri samþykkur þessu frv. í huga sínum og hjarta. Ég er ekki eins víss um að það verði raunin þegar á reynir. Það gerast oft einkennilegir atburðir, ekki síst í samstarfi þeirra tveggja flokka sem nú stjórna landinu. En við skulum láta á það reyna. Ég vil þá gjarnan, ef þetta frv. yrði fellt, þá vil ég gjarnan að þeir menn, sem það gera, standi frammi fyrir þjóðinni með fulla ábyrgð á því sem þeir eru að gera.

Ég ítreka þá ósk mína til hæstv. forseta, að fylgst verði með því að iðnn. þessarar d. gegni skyldustörfum sínum og skili áliti á tiltölulega skömmum tíma, og legg svo til aftur, að málinu verði vísað til iðnu. og 2. umr.