15.11.1976
Neðri deild: 11. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í B-deild Alþingistíðinda. (405)

45. mál, umferðarlög

Flm. (Jón Skaftason):

Virðulegi forseti. Á þskj. 46 hef ég leyft mér að flytja frv. til l. nm breyt. á umferðarlögum, nr. 40 frá 23. apríl 1968. Frv. er stutt og hljóðar þannig með leyfi hæstv. forseta:

„1. gr.: 1. mgr. 50. gr. laganna orðist þannig: Í þéttbýli má eigi aka hraðar en 50 km á klukkustund.

2. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Tíðni umferðarslysa af völdum bifreiða er áreiðanlega meiri hér á landi en víðast annars staðar miðað við fólksfjölda og tölu ökutækja. Valda því margar ástæður og að mínu viti sú fyrst og fremst, að nægileg tillitsemi þeirra, er bifreiðum stjórna, er ekki sýnd í umferðinni né heldur hlýðni við gildandi umferðarreglur. Umferðarreglur, sem þannig eru úr garði gerðar að þær eru brotnar sífellt af stórum hópi bifreiðarstjóra, eru til þess fallnar að skapa virðingarleysi fyrir umferðarlögum. Reglan um hámarkshraða 45 km í þéttbýli telst að mínu viti til slíkra reglna og því hef ég freistað þess með flutningi þessa frv. að fá þessu breytt.

Það hefur verið umdeilt í mörgum löndum hvort yfirleitt sé ástæða til þess að hafa lögbundin ákvæði um hámarkshraða bifreiða og hefur þar sitt sýnst hverjum. Sums staðar hafa þau almennu lagaákvæði ein verið í gildi að akstri bifreiða beri að haga af varkárni og miða hann við allar aðstæður. Í öðrum löndum hafa verið lögtekin ákvæði um hámarkshraða bifreiða á vegum og telst Ísland í þeim flokkinum. Eftir því sem ég hef fengið upplýsingar um, þá virðist sú þróun vera í gangi að þeim löndum fer fjölgandi þar sem sérstök ákvæði um hámarkshraða eru lögtekin, og tel ég því ástæðulaust að við förum að breyta frá þeirri reglu sem hér hefur gilt, að hafa þetta lögbundið.

í umferðarlögum, nr. 23 frá 1941, var hámarkshraði ákveðinn 60 km á klst. á vegum utan þéttbýlis, en 30 km á vegum í þéttbýli. Það var á árinu 1958 sem breyting var gerð á þessum ákvæðum laganna með setningu laga nr. 26 frá 2. maí það ár, en hámarkshraðinn var þá færður upp í 70 km á klst. utan þéttbýlis og í 45 km í þéttbýll. Eru þau lagaákvæði óbreytt í gildandi umferðarlögum, nr. 40 frá 23. apríl 1968.

Ég skal með örfáum orðum, hæstv. forseti, færa þau rök fyrir því, að ég tel nú tímabært að hækka nokkuð ákvæði laga um hámarkshraða í þéttbýli.

Eins og hv. alþm. allir vita, þá hafa miklar umbætur verði unnar í vegagerð, í þéttbýli fyrst og fremst. Þar sem áður lágu víða moldarvegir, holóttir moldarvegir, er nú að finna breiða og slétta steypta vegi eða vegi með öðru varanlegu slitlagi á. Þessi breyting leiðir það m.a. af sér að umferðin hefur þrátt fyrir óbreytt lagaákvæði orðið nokkru harðari. Þetta er fyrsta ástæðan til þess að ég tel að breyta beri þessu lagaákvæði.

Í öðru lagi vil ég benda á það, að nú hin síðari árin hefur öryggisbúnaður bifreiða orðið nokkru fullkomnari en áður var, þannig að bifreiðar geta nú stöðvast á styttri vegalengd en áður var. Auk þess er mér tjáð af kunnáttumönnum um bifreiðar að hin tíða gíraskipting, sem nauðsynleg er, ekki síst á hinum minni bifreiðum sem í notkun eru í landinu, þegar ekki er ekið hraðar en 45 km, valdi nokkrum erfiðleikum á bifreiðinni og geti valdið óeðlilegu sliti.

Í þriðja lagi vil ég benda á það, að nú hefur það færst mjög í vöxt í löndum hins vestræna heims, að samræmdar hafa verið umferðarlegur og þá ekki síst um hámarkshraða bifreiða. Það er nú orðið æ algengara að menn ferðist í eigin bifreiðum um mörg lönd, og reynslan hefur sýnt að það hefur valdið vandræðum ef umferðarreglur eru mjög frábrugðnar frá einu landinu til annars. Við íslendingar höfum kynnst því hin síðari árin í vaxandi mæli að landsmenn hafa gjarnan tekið með sér bifreiðar sínar þegar þeir hafa farið í sumarfrí, t.d. til Vestur-Evrópu, og ekið á þeim um þessi lönd.

Mér er ekki kunnugt um annað land í Vestur-Evrópu en Ísland sem hefur það í lögum að hámarkshraði í þéttbýli megi ekki vera hærri en 95 km. Ég veit fyrir víst að t.d. í Svíþjóð og í Noregi og í Englandi og í Vestur-Þýskalandi er að finna ákvæði um hámarkshraða ekki undir 50 km í þéttbýli. Ég tel því að það sé eðlilegt að breyta reglum hér um þetta atriði til samræmis við það sem gildir í þessum löndum.

Síðast, en ekki síst tel ég að meginrökstuðningur fyrir þessari breytingu felist í þeirri staðreynd, að meiri hluti ökumanna í landinu mun á mörgum bestu vegum í þéttbýlinu aka nokkru hraðar en lögleyfður hámarkshraði er, og það er alkunn staðreynd að sá ökumaður, sem á breiðri og sléttri götu ekur á löglegum hraða, er í reyndinni hindrun þeim sem á eftir aka og þetta stofnar til óeðlilega mikils framúraksturs. En eins og reynslan hefur sýnt og auðvelt er að kynna sér af lestri skýrslna um umferðarslys, þá er einmitt framúraksturinn ein meginástæðan fyrir umferðarslysum hér á landi. Mér hefur líka verið tjáð að aðeins um 10% af þeim umferðarslysum, sem hafa orðið hin síðari árin hér í þéttbýli, megi rekja til of hraðs aksturs.

Ég er ekki í nokkrum vafa um það og hef fyrir mér umsagnir margra greinargóðra manna, bæði ökukennara og annarra, sem vel þekkja til þessara mála, að þeir telja, að nokkru hærra hámark um aksturshraða bifreiða en nú er í lögum mundi leiða til jafnari ökuhraða og skipulegri og öruggari umferðar á götum í þéttbýli.

Ég tel mig muna það rétt, að ég sá það í dagblaðinu Vísi, að ég held, fyrir nokkrum dögum, að frá því var skýrt að umferðarnefnd Reykjavíkur hefði samþ. að gera till. til borgarstjórnar um að hún gerði sitt til þess að ákvæðum í 50. gr. umferðarlaga yrði breytt í þá áttína sem frv. mitt gerir ráð fyrir, þ.e.a.s. að lögleyfður hámarkshraði verði aukinn úr 45 km í 50 km. Ég tel þetta verulegan stuðning við frv. og vænti þess, að það ásamt efni sjálfs frv. verði til þess að á Alþ. geti tekist góð samstaða um samþykkt þess.

Ég vil svo að endingu aðeins taka það fram, að mér er fyllilega ljóst að sumar götur í þéttbýli eru slíkrar gerðar að bær leyfa ekki 50 km hámarkshraða. En til þess að koma í veg fyrir að einhver standi gegn því að styðja frv. vegna þess arna, þá vil ég benda á það almenna ákvæði í upphafi 49. gr. umferðarlaga, sem gengur út frá því sem almennri reglu að akstri bifreiða skuli hagað miðað við aðstæður og alls öryggis skuli gætt, það ákvæði heldur gildi sínu þrátt fyrir samþykkt þessa frv. Auk þess er í 4. mgr. 50. gr. laganna að finna heimild til dómsmrh. þar sem hann getur ákveðið lægri hámarkshraða á vissum götum í þéttbýli en hin almenna heimild gerir ráð fyrir ef efni og aðstæður liggja til þess. Þannig tel ég að þessa atriðís sé fyllilega gætt með ákvæðum í gildandi lögum.

Ég vil svo, virðulegi forseti, leggja til, að að þessari umr. lokinni verði frv. vísað — að ég held frekar til allshn. heldur en samgn., en ég legg það í vald hæstv. forseta hvorrar n. hann gerir till. um að frv. gangi til.