18.10.1976
Efri deild: 4. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í B-deild Alþingistíðinda. (43)

23. mál, umferðarlög

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Við fljótan yfirlestur á þessu frv. til l. um breyt. á umferðarlögum, nr. 40 23. apríl 1968 o.s.frv., sé ég að þar stendur, með leyfi hæstv. forseta: „15. gr. orðist svo: Bifreiðaeftirlit ríkisins annast skráningu, skoðun og eftirlit ökutækja.“ Þetta er ekki mikil breyting frá því sem er. En ég veit ekki hvernig færi t.d. í þeim löndum, sem ég hef búið í erlendis til langframa, ef allir bifreiðaeigendur ættu að koma með bíla sína á sama blett í höfuðborg, eins og gert er hér. Ég vildi frekar, úr því að verið er að endurskoða þessi lög núna, reyna að breyta þessu í það horf sem er annars staðar þar sem ég hef búið. Öll bílaverkstæði eru fær um að skoða bílana, og það væri þá heldur að skylda bíla að hafa eitthvert merki, eins og þeir hafa í dag, um að þeir hafi verið skoðaðir á einhverjum tíma og jafnvel þá kannske oftar en nú er. Þannig sé á ábyrgð eigandans sjálfs að bíllinn sé í lagi, en hann geti þá farið á hvaða bílaverkstæði sem er til þess að fá bifreiðina skoðaða og miða á bílinn um að hann sé í fullkomnu lagi. Við gætum þá kannske lagt alveg niður Bifreiðaeftirlit ríkisins í því formi sem það er núna, en skoðunin færi þá aðeins fram hjá fagmönnum. Þetta eru allt menn sem hafa lært til verka og kunna að skoða bíla og meta, og ekki er vandinn fólginn í því að setja límið á bílrúðurnar. Þetta er nú bara ábending. Það hlýtur að koma hjá okkur einhvern tíma að verkstæðin verði öll lögillt til þessara starfa.

Ég vil þá færa mig aftur í 8, gr. þar sem segir svo í síðustu málsgr.:

„Verði starfsmaður viðgerðarverkstæðis þess var að öryggisbúnaði vélknúins ökutækis, sem þar er til viðgerðar eða hreytinga, sé áfátt, skal hann skýra yfirmanni verkstæðis frá því, en honum ber að gera eiganda ökutækisins aðvart.“ Þetta finnst mér gott. Ég held það sé óþarfi að hafa þetta þarna. Ég held það sé yfirleitt gert. Verkstæðin benda eigendum á ef það er eitthvað meira sem þarf að gera við bifreiðina heldur en eigandinn hélt þegar hún kom inn. En síðan heldur áfram: „og síðan tilkynna það bifreiðaeftirlitsmanni eða lögreglustjóra, ef eigi verður úr bætt.“ Það finnst mér heldur langt gengið. Þar finnst mér eins og við séum að lögfesta það að hver og einn einasti maður, sem skoðar bíl á bilaverkstæði, sé orðinn nokkurs konar útsendari eða eftirlitsmaður og njósnari fyrir Bifreiðaeftirlitið og hann sé að brjóta lög ef hann tilkynnir ekki Bifreiðaeftirlitinu að viðkomandi ökutæki er ekki í eins góðu lagi og hann vill hafa það. Það getur líka verið sölumennska. Það eru mörg fyrirtæki sem telja heppilegra að hafa sem kallað er fyrirbyggjandi viðgerðir þannig að um vissa slitpunkta er skipt áður en þeir eru fullnotaðir. Og ég mundi ekki ætlast til þess af verkstæðismanni að hann léti skipta um ákveðna hluti í bifreið, sem eru kannske kostnaðarsamir, áður en þeir eru slitnir, bara vegna þess að vélin eða tækið er komið yfir einhvern ákveðinn km-fjölda. Sá km-fjöldi, sem er miðað við erlendis, er allt annar hjá okkur þar sem við erum með stuttar vegalengdir og yfirleitt meiri hlutinn af bilaforða landsins ekur hér á Suðurlandsundirlendinu, allt stuttar vegalengdir. Það eru engar langar vegalengdir eins og er erlendis þar sem bílarnir eru langtímum saman á mikilli ferð, þannig að ég er dálitið hræddur við þessa grein.

Ef ég má færa mig svolítið neðar á bls. 2, þá segir í 9. gr. að 20. gr. orðist svo, og þar segir í 2. mgr., með leyfi hæstv. forseta: „Heimilt er að afskrá ökutæki án samþykkis eiganda ef það er ónýtt að dómi eftirlitsmanns.“ Það er bara einn maður, trúnaðarmaður Bifreiðaeftirlitsins, sem getur sagt til um það hvort á að dæma tækið ónýtt eða ekki. Mér finnst, ef það er ágreiningur milli eiganda og eftirlitsmanns, að þá þurfi þriðji aðilinn að skera úr um það.

Þetta eru bara ábendingar til hæstv. dómsmrh. sem ég kem hér fram með, en ekki að ég sé að deila á frv. sem slíkt. Þetta eru eins og ég segi, ábendingar sem ég vona að komi til athugunar í meðferð þeirrar n. í þessari hv. d. sem það fær til meðferðar.