16.11.1976
Sameinað þing: 19. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í B-deild Alþingistíðinda. (433)

250. mál, aðgerðir vegna langvarandi neyðarástands í atvinnumálum á Bíldudal

Fyrirspyrjandi (Gunnlaugur Finnsson):

Herra forseti. Örfá orð að lokum. Ég vil leyfa mér að taka á margan hátt undir þau orð, sem hæstv. forsrh. sagði hér síðast, og leggja á það áherslu, að mér er kunnugt um að þeir, sem eru að fást við þessi mál á Bíldudal í dag, vilja taka á þessum málum af alvöru. Það er þeim alvörumál, sem eiga að sjá um rekstur sveitarfélags, sem er nánast gjaldþrota, og líka um rekstur atvinnufyrirtækis, sem ekki hefur náð enn að hefja rekstur, að tilraun takist sem nú er þar uppi. Það er alveg sérstakt mál þegar á tveimur síðustu mánuðum hafa flutt úr svo litlu byggðarlagi 60 manns, 17–18% af íbúunum: 13 fjölskyldur og átta einstaklingar. Það er alvörumál. Og það sýna einnig þær undirtektir, að 171 maður skrifar undir.

Ég vil segja það, að mín hugsun í sambandi við þessa fsp., sem ég flutti hér, hún er sú, að málið sé svo sérstakt að það sé ástæða til að bregða út af reglunni, og þess vegna talaði ég um eitt ár eingöngu sem umþóttunartíma, til þess að þeir, sem ætla að takast á við atvinnumálin þarna, fái umþóttunartíma til að koma undir síg fótunum um öflun hráefnis. Það er gott og vel, ef það getur orðið sem kom fram hjá hv. 3. þm. Austurl., að þau mál leysist nú þegar eftir öðrum leiðum, þannig að þeir fái þar annan bát.