16.11.1976
Sameinað þing: 20. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í B-deild Alþingistíðinda. (442)

Mræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hefði kosið að fleiri af hv. þm. væru viðstaddir. Ég er ekki hér með neina till., heldur stutt mál um áfengisböl og vandamál þeirra samtaka sem berjast gegn því.

S.l. fimmtudag tók ég ásamt þrem öðrum þm. boði Landssambands gegn áfengisbölinu að sitja fund, er haldinn var að Hótel Loftleiðum, þar sem áfengisvandamál þjóðarinnar voru rædd af reynsluríku fólki og fagmönnum í baráttu okkar gegn áfengisbölinu, sem lýstu aðdraganda að drykkjusýki frá fyrsta sopa þar til neysla áfengis verður að ávana og vandamáli, bæði einstaklingsins og þjóðfélagsins. Það var fróðlegt að hlusta á Jóhannes Bergsteinsson lækni, Tómas Helgason lækni og Ólaf Hauk Árnason áfengisvarnaráðunaut. Þeir lýstu störfum sínum og niðurstöðum. Kom fram í málflutningi þeirra allra, að tilfinnanlega skortir fjármagn til þess að vinna fyrirbyggjandi störf. Allir þeir, sem töluðu á þessum fundi, beindu þeirri ósk til Alþ. að sýna skilning á þessu þjóðarböli með því að styrkja víðtækari fyrirbyggjandi starf gegn neyslu áfengis, bæði í skólum landsins og vísindalegar rannsóknir. Tekjur ríkisins af áfengissölu eru ótrúlega miklar. Því spyr ég: Væri ekki hægt að taka myndarlegan hundraðshluta af þeim til byggingar og rekstrar leitarstöðva sem hefði að aðalmarkmiði fyrirbyggjandi starfsemi á breiðum grundvelli?

Mér er ljóst að ríkissjóður þarf sínar tekjur. En varla erum við svo háð tekjum af áfengi að ef hluti ágóðans færi til áfengisvarna mundi það setja ríkissjóð úr skorðum. Sé það hins vegar staðreynd erum við illa á vegi stödd.

Fjárlög eru nú í smíðum. Fjvn. situr að störfum. Ég kem því hér með á framfæri við þm., að góðir læknar og margt áhugafólk vinnur merkileg störf í baráttunni við eitt mesta böl þjóðarinnar, áfengisbölið. Þetta fólk þarf á aðstoð fjárveitingavaldsins að halda og nú þegar. hetta fólk lítur til Alþ. í von um skilning og forustu. Barátta þess er hörð. Við megum ekki bregðast þeim vonum sem tengdar eru við störf okkar á Alþ. í þessum málum. Við verðum að taka saman höndum og snúast gegn þessum vanda, — vandanum sem fæðir af sér afbrot og ólgu í þjóðfélaginu. Ég held að við gerum það best með samstöðu við þær forustusveitir sem berjast gegn þessu böli úti í þjóðlífinu. Vona ég að sá boðskapur, sem þessum fáu orðum er ætlað að flytja, nái til alþm. almennt og þá ekki síst þeirra sem fara með fjárveitingavaldið.