16.11.1976
Sameinað þing: 20. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í B-deild Alþingistíðinda. (446)

Mræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Tilgangur minn með því að vekja athygli á þessum fundi Landssambands gegn áfengisbölinu var sá, að draga athygli að þessu máli, því að allir erum við sammála um að þetta er hvað stærsta vandamálið sem við höfum við að glíma, ekki bara hér í Reykjavík, heldur um land allt. Og þó nokkur árangur hafi náðst hjá þeim mönnum sem starfa á vísindalegan hátt að fyrirbyggjandi aðgerðum gegn þessu böli, þá skortir þar samtakamátt vegna þess að þessi samtök eru févana. Það er rétt að það komi fram, að meðlimir þessara samtaka eru 30 landssamtök sem að mínum dómi spanna yfir flestalla landsmenn. Ég held að Alþýðusambandið sé í þessu sambandi, Íþróttasambandið er í því, ungmennafélögin og 26–27 fleiri landssamtök. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem hafa tekið hér til máls, því allt tal um þetta mál dregur athygli að því og stuðlar að því að árangur náist.