24.11.1976
Efri deild: 14. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (527)

85. mál, eignarráð yfir landinu

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Hv. 4. landsk. þm., Bragi Sigurjónsson, hefur gert hér grein fyrir frv. sem hann flytur um eignarráð yfir landinu, gögnum þess og gæðum. Það er ekki í fyrsta sinn að hann flytur till. þessa efnis hér á Alþ. Allmörg ár eru síðan fyrst var flutt þáltill. sem að öllu aðalefni var um sama mál, og hún hefur verið endurflutt nú nokkrum sinnum, en birtist nú í frv.-formi.

Þessi till. þeirra alþfl.- manna hefur verið að breytast nokkuð ár frá ári, og hún er enn nokkuð breytt í þetta sinn frá því sem var á s.l. ári, ekki aðeins að formi til, heldur einnig að efni. Upphaflega varð till. þeirra alþfl.-manna ekki skilin á annan veg en þann að þjóðnýta bæri allar bújarðir á landinu. Við alþb.-menn gagnrýndum þessa till. á sínum tíma. Okkur fannst að með þjóðnýtingu allra bújarða væri byrjað á öfugum enda hvað snertir endurskipulagningu íslenskra atvinnuvega. Búskaparhættir á Íslandi væru ekki þess eðlis, að það væri sérlega líklegt til ávinnings að ríkið yrði eigandi jarðanna, og að eðlilegra væri, a.m.k. eins og búskaparháttum væri enn háttað, að ábúendur ættu jarðirnar sjálfir. Við töldum einnig að ríkisvaldið hefði öðrum og brýnni verkefnum að sinna heldur en að leggja þúsundir milljóna og jafnvel tugi þúsunda millj. kr. fram sem skaðabætur vegna eignarnáms á bújörðum í landinu og að þessu fjármagni yrði áreiðanlega betur varið á annan hátt.

Eins og fram kom í þáltill. þeirri, sem hv. flm. þessa frv. flutti í fyrra, og í því frv., sem hann flytur nú, er ekki lengur í till. hans gert ráð fyrir því að bújarðir verði allar teknar eignarnámi. Því er að vísu lýst yfir í 1. gr. frv., að allt land sé sameign þjóðarinnar og að ríkið hafi umráð þess með höndum samkv. 2. gr., en í 3. gr. er skýrt tekið fram að þrátt fyrir 1. gr. skuli bændum frjálst, ef og meðan þeir svo kjósa, að eiga jarðir til eigin búrekstrar, bújörðum skulu fylgja þau hlunnindi sem þeim hafa fylgt, ef einhver eru og bændur hafa nýtt til bútekna, svo sem dúntekja eggjataka, selveiðar og reki, þó ekki veiðiréttur í ám né vötnum.

Ég vil láta þess getið við umr. þessa máls, eins og reyndar kom fram í máli flm., að við alþb.-menn höfum flutt till. um svipað efni á þskj. 101, og þetta frv., sem við höfum flutt, kemur væntanlega til umr. hér í hv. d, innan tíðar. Að meginstofni til er hér um svipaða tillögugerð að ræða og svipað frv. og ég flutti ásamt fleiri þm. Alþb. um miðjan seinasta áratug, fyrir tæpum 10 árum. Í 1. mgr. 1. gr, þessa frv. segir:

„Öll verðmæti í sjó og á sjávarbotni innan efnahagslögsögu, svo og almenningar, afréttir og önnur óbyggð lönd utan heimalanda teljast sameign þjóðarinnar allrar, einnig námur í jörðu, orka í rennandi vatni og jarðhiti neðan við 100 m dýpi.“

Þessi efnisgrein er í öllum aðalatriðum hin sama og var í frv. um stjórnarskrárbreytingu sem við alþb.-menn fluttum fyrir tæpum 10 árum. Síðan segir í 2. mgr.:

Eignarrétti á íslenskum náttúruauðæfum, landi og landgrunni skal að öðru leyti skipað með lögum. Tryggja ber landsmönnum öllum rétt til eðlilegrar umgengni og úttvistar í landinu. Við eignarnám á landi, í þéttbýli sem dreifbýli, skal almennt ekki taka tillit til verðhækkunar sem stafar af uppbyggingu þéttbýlissvæða í næsta nágrenni, opinberum framkvæmdum eða öðrum ytri aðstæðum, heldur ber að miða mat við verðmæti hliðstæðra eigna, þar sem þess háttar ástæður hafa óveruleg áhrif til verðhækkunar.“

2. mgr. í frv. okkar alþb.-manna er að meginstofni til samhljóða till. sem ég flutti hér við afgreiðslu jarðalaga, upphaflega fyrir 4 árum, og fulltrúi okkar í landbn. d., hv. þm. Helgi Seljan, flutti við afgreiðslu þessa máls fyrir einu ári.

3. mgr. er þannig hjá okkur: „Með þeim takmörkunum, sem hér greinir, skal við það miðað að bændur haldi eignarrétti á jörðum sínum, beitirétti í óbyggðum og öðrum þeim hlunnindum í heimalöndum og utan þeirra, sem fylgt hafa íslenskum búskaparháttum á liðnum öldum.“

„Þessi gr. er efnislega í samræmi við það stjórnarskrárfrv. sem við fluttum á seinasta áratug, þó að það væri ekki orðað með þessum hætti. En þetta hefur verið stefna okkar alþb: manna og kemur m.a. skýrt fram í þeirri stefnuskrá sem samþ, var einróma á landsfundi Alþb. sem haldinn var fyrir tveimur árum.

Ég hef vakið athygli á þessu frv. í tengslum við umr. hér um frv. þeirra alþfl.-manna fyrst og fremst til þess að gera mönnum fullkomlega ljóst að það er ekki fyrst í dag eða gær sem við alþb.-menn erum að setja fram stefnu okkar í þessum málum, heldur er hér um að ræða stefnumótun sem á sér langan aldur og hefur verið hin sama öll þessi ár. Hins vegar er það staðreynd að þessum tveimur frv. svipar saman um margt. Þó er á þeim talsverður munur, bæði munur á formi og efnismunur. Munurinn á formi er að sjálfsögðu mjög verulegur, þar sem okkar frv. er brtt. við stjórnarskrá lýðveldisins og með því reynum við að tryggja að þau ákvæði, sem sett yrðu um þetta efni, rekist ekki á ákvæði annarra laga eða ákvæði stjórnarskrárinnar og þá einkum 67. gr. stjórnarskrárinnar, eins og hún er nú.

Ég hjó eftir því að hv. flm., Bragi Sigurjónsson, nefndi áðan að sér hefði verið tjáð að nú væru í gangi 15 mál sem snertu eignarhald á afréttum eða óbyggðum landsins. Ég vil einmitt í þessu sambandi benda honum á að það er ákaflega hætt við því að samþykkt þess frv., sem hann flytur hér, mundi litlu breyta um þau málaferli, vegna þess að þau öll snerta vafalaust ákvæði stjórnarskrárinnar. Hætt er við að samþykkt frv. mundi þar engu breyta, þau málaferli mundu halda áfram þar sem menn munu halda því fram að þeir eigi stjórnarskrárverndaðan rétt til afrétta og óbyggða. Ég tel að úr þessu sé einfaldast að skera með beinu stjórnarskrárákvæði.

Annar efnismunur er m.a. sá, sem flm. nefndi áðan, að við leggjum til að allur jarðhiti neðan við 100 m dýpi verði lýstur sameign þjóðarinnar, en það er miðað við 200 m dýpi í frv. Þetta er að sjálfsögðu ekki stór munur, skiptir ekki stórmáli.

Í þriðja lagi tel ég ótvírætt að okkar frv. gangi nokkru lengra til varnar almenningshagsmunum gegn braski með jarðir og að um það efni séu skýrari ákvæði. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því að við ákvörðun bóta skuli draga frá að hlutum þá verðmætaaukningu sem dómkvaddir matsmenn ætla að víðkomandi þéttbýlissköpun eða aðrar aðgerðir samfélagsins hafi valdið. En við sláum því föstu í okkar frv. að við eignarnám á landi skuli almennt ekki taka tillit til verðhækkunar sem stafar af uppbyggingu þéttbýlissvæða í næsta nágrenni, opinberum framkvæmdum eða öðrum ytri ástæðum, heldur beri að miða mat við verðmæti hliðstæðrar eignar þar sem þess háttar ástæður hafa óveruleg áhrif til verðhækkunar.

Í fjórða lagi er frv. okkar byggt á þeirri grundvallarstefnu að staða bænda sé í engu skert og þeir haldi þeim hlunnindum sem fylgt hafa íslenskum búskaparháttum á liðnum öldum. En eins og fram hefur komið er afstaða sú, sem tekin er gagnvart hagsmunum bænda, nokkuð á annan veg í frv. hv. þm. Braga Sigurjónssonar.

Ég sé að öðru leyti ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þessi tvö frv. við þessa umr. Ég mun gera grein fyrir frv. okkar þegar tækifæri verður til þess, sem væntanlega verður á næsta fundi deildarinnar og læt því þessi orð nægja að sinni.