24.11.1976
Neðri deild: 14. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 763 í B-deild Alþingistíðinda. (533)

31. mál, dagvistarheimili fyrir börn

Svava Jakobsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu um þetta mál hér við 1. umr. Eins og hv. þm. er kunnugt, er þetta frv. afleiðing af því illræmda frv. um verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem var samþ. á Alþ. í fyrra, en þá svipti meiri hl. Alþ. dagheimili í landinu ríkisframlagi til rekstrar. Hins vegar vill hæstv. menntmrh. láta líta svo út nú að það sé verið að tryggja dagvistarheimilum stuðning, og honum er í sjálfu sér vorkunn að orða það svo eða reyna að láta líta svo út sem þessi ríkisstj. sé að gera eitthvað sérstaklega jákvætt fyrir þennan málaflokk sem allir vita að er í mikilli hnignun.

Mér finnst kominn tími til að hæstv. ráðh. og ríkisstj. geri okkur grein fyrir því hvernig á að fjármagna dagvistarheimili í landinu, úr því að hæstv. ráðh. sagði að hér væri ekki ætlað að draga úr framlögum. Nú vita allir að fjármögnun er alls ónóg. Sveitarfélögum var alls ekki tryggður sá tekjustofn sem nauðsynlegur var til þess að þau stæðu undir rekstrinum ein, og framlag ríkisins til stofnkostnaðar er svo smánarlega lítið samanborið við hina raunverulegu þörf, að það má segja að dagvistarheimili séu í algjöru sveiti, svo miklu svelti að fjármagnsskorturinn verður æðimörgum tilefni til þess að segja að lögin frá 1973 hafi verið óþörf. Án fjármagns er vitanlega ekkert hægt að gera.

Ég vildi gjarnan fá það fram hvernig á að fjármagna þennan málaflokk. Hvað byggst ríkisstj. fyrir? Ef ég man rétt eru framlög á þessu ári 68 millj. þegar þörfin var 160 millj. eða um það bil, og á fjárlagafrv. því, sem nú liggur fyrir, er gert ráð fyrir rúmum 80 millj., en þörfin er yfirlýst 230 millj. eingöngu í stofnkostnaðinn.

Ég flutti frv. í fyrra um lánasjóð dagvistarheimila, þar sem ég lagði til að atvinnurekendur greiddu smávegis gjald til þessara mála. Þetta frv. fékk þá afgreiðslu hér í hv. Nd. að því var vísað til ríkisstj., en í nál. meiri hl. fjh- og viðskn. stóð þessi klausa, með leyfi hæstv. forseta:

„Undirrituðum nm. er ljóst, að ýmis sveitarfélög eiga örðugt með að fullnægja þörfinni fyrir dagvistunarstofnanir vegna fjárskorts. Hins vegar eru þeir ósammála þeirri aðferð, sem frv. gerir ráð fyrir til að leysa þennan fjárhagsvanda, og telja einnig vafasamt að rétt sé að skattleggja atvinnureksturinn í landinu sérstaklega til að standa undir framlögum í formi 0.25% launaskatts til myndunar umrædds lánasjóðs.“

Hér kom fram, að þessir hv. þm. voru algjörlega andvígir því að nokkurt gjald væri lagt á atvinnureksturinn í þessu skyni. Þessi sami meiri hl. á Alþ. á ugglaust eftir að samþ. þetta smánarframlag af ríkisins hálfu í stofnkostnað. Og þá er í rauninni ekkert annað eftir en fara aftur til þeirra gömlu daga þegar fólk varð að standa undir þessu algjörlega sjálft. Þetta er atriði sem ég held að hæstv. ríkisstj. verði að horfast í augu við, en hún gerir hvort tveggja í einu, talar fagurlega, en sér svo um að þessi málaflokkur er sveltur í hel.

Ég vil að endingu, hæstv. forseti, mótmæla því að félmn. fjalli um þetta. Þetta er málaflokkur sem heyrir undir menntmrn. og menntmn. Alþ. fjölluðu um dagvistunarlögin á sínum tíma, árið 1973. Ég tel tvímælalaust að þetta frv. eigi heima í menntmn. og geri till. um það.