25.11.1976
Sameinað þing: 25. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 779 í B-deild Alþingistíðinda. (545)

40. mál, lagning bundins slitlags á þjóðvegi

Páll Pétursson:

Herra forseti. Þetta eru nú orðnar nokkuð langar umr. um þetta mál, og þeir geta ekki kvartað undan því, hv. flm. þessarar till., að þeir fái ekki umr. um hana hér í hv. Sþ. Ég held að tímanum hefði þó verið enn þá betur varið til þess að setja ný vegalög og í framhaldi af því að afgreiða vegáætlun, sem mér sýnist nú að sé nokkuð brýnt. En vegna tiltekinna ummæla í ræðu hv. 1. flm. till., Ólafs G. Einarssonar, 5. þm. Reykn., sé ég mér ekki fært annað en að segja hér örfá orð.

Hann sagðist — það voru hans sjónarmið — ekki óttast ísingarhættu á fjallvegum þó að á þeim væri bundið slitlag. Vitnað er til vegarins suður í Keflavík og vitnað er til vegarins austur yfir Hellisheiði. Það vill nú svo til með veginn austur yfir Hellisheiði, að snjómoksturskostnaður á þessum vegi var samkv. skýrslu samgrh. fyrir árið 1975 hvorki meira né minna en 12 millj. kr. Þeir urðu stöðugt að vera að skafa þetta og gerðu það til þess að það kæmi ekki ísing. Þessi upphæð er nákvæmlega jafnhá og fór í að moka Holtavörðuheiðina og leiðina til Siglufjarðar, tvær leiðir sem mér eru sérstaklega minnisstæðar. Og með fullri virðingu fyrir Hellisheiði, þá vil ég ekki láta gera lítið úr Holtavörðuheiði, leiðinni til Siglufjarðar eða Öxnadalsheiði. Og ég held að það væri býsna vel farið með peningana að nota þá til þess að byggja upp vegi yfir þessar tilteknu heiðar.

Það er verið að spyrja um brýnustu verkefnin í vegagerð. Hv. flm. mega ekki líta svo á að við, sem teljum að það sé brýnt að byggja vegina upp úr snjónum, séum að leggjast gegn lagningu olíumalar alfarið. Það er a.m.k. ekki mín hugmynd. Hún á fullan rétt á sér. En að láta allt ganga út á olíumölina, það er aftur á móti óskynsamlegt, finnst mér, og við verðum að raða þessum verkefnum með skynsamlegum hætti.

Mér leiddist að heyra í hv. 5. þm. Reykn., Ólafi G. Einarssyni, tal hans um afdala- og útnesjavegi. Mér fannst kenna nokkurrar lítilsvirðingar á því fólki, sem notar þessa vegi, og því starfi, sem þar er unnið. Ég lít svo á að okkur beri skylda og réttur til þess að byggja land okkar og hafa það byggilegt, og það er illt að þurfa að eyða dýrmætum fundartíma í að jagast við gamlan Siglfirðing um svona hluti. Siglufjörður er einn af þessum stöðum, einn af þessum útvörðum í landi okkar, einn sá staður þar sem ég tel að byggð eigi að haldast og byggð eigi að haldast með blóma. Við ættum heldur að sameinast um það að lagfæra veginn til Siglufjarðar. Ég er alls ekki að frábiðja mér tilstyrk og atbeina þm. Reykn. til þess að sprengja veg inn í klettana þarna neðan við Mánárskriður, en það er, eins og hv. þm. veit, þröskuldur sem endilega þarf að lagfæra. Hann ræddi réttilega um merkilega framkvæmd, göngin í gegnum Stráka, en þau koma því aðeins að fullum notum að það sé fært á þjóðvegakerfið í gegnum þessi göng, en það verður ekki fyrr en ef tekst að búa til góðan veg til Siglufjarðar. Það er alveg sýnt að það er ekki hægt að gera allt í einu, og satt að segja þótti mér formaður fjh.- og viðskn. Nd. vera býsna lántökuglaður í sínum tillöguflutningi. Hann segist nefnilega ekki vilja draga úr framkvæmdahraða við aðrar framkvæmdir. Ég skil það ekki öðruvísi en svo, að það þurfi miklu meiri peninga til þess að gera allt þetta í einu, og þá peninga verður að taka einhvers staðar. Hann benti á þrjár leiðir og tvær af þeim voru lántökuleiðir. Hann talaði enn fremur um ríkistekjur, að ná nú tekjunum af umferðinni til vegakerfisins. Þetta er gamalt mál og nýtt, og mönnum hefur sýnst álitlegt í mörg skipti að halda þessu fram. En þá náttúrlega rýrnaði ríkissjóðurinn hjá hv. formanni fjh.- og viðskn. Nd., ef tollurinn af bílunum yrði t.d. settur alfarið í umferðina.

Síðan talaði hv. þm. um hvað þetta yrði nú allt gott og blessað og mikið hægt að gera þegar efnahagurinn batnaði. Ég verð nú bara að lýsa nokkrum efa um, ef þeir eru svona stórhuga allir í fjh.- og viðskn. eins og hv. flm. þessarar till., formaður fjh.- og viðskn. Ed., að efnahagurinn batni nokkurn skapaðan hlut. Ég er hræddur um að þeir setji okkur á hausinn með þessari miklu framkvæmdagleði sinni.

Það hefur komið rækilega fram, að vöruflutningar eru miklir á þessu vegakerfi, og hv. þm. Ólafur G. Einarsson lýsti því yfir að það væri vöruflutningum til Norður- og Austurlands og Vestfjarða mikilvægt að komast eftir holulausum olíumalarvegi. En ég held að þeim sé enn mikilvægara, jafnvel miklu mikilvægara, að þurfa ekki að brjótast áfram í verulegum snjó og aur, heldur að komast eftir nothæfum vegum. Og ég varð að vissu leyti fyrir nokkrum vonbrigðum með afstöðu hæstv. samgrh., þar sem mér skildist á honum að hann teldi nú enn þá brýnna að leggja bundið slitlag fremur en að undirbyggja vegina. Menn eru að gera því skóna að við séum nokkuð heimaríkir, við sem stöndum að till. þeirri sem Ingi Tryggvason, hv. þm., er 1. flm. að, og viljum nú ráðskast með þessa hluti í okkar kjördæmum. En ég get sagt hæstv. samgrh. það alveg skýrum stöfum, að mér er það miklu meira áhugamál að fá veg, færan veg yfir Hrútafjarðarháls, færan veg yfir Holtavörðuheiði heldur en olíumalarkafla á góða veginn í Hrútafirðinum og fresta hinu, svo að við tökum dæmi sem ýmsir þekkja.

Hv. þm. Lúðvík Jósepsson gerði því skóna að þessi till. væri flutt af sýndarmennsku. Það vil ég ekki taka undir með honum. Ég held að mönnum sé alvara með þetta mál og þeir hafi hugsað þetta vel og rækilega og þetta sé þeirra hjartans mál, þó að ekki sýnist öllum þm. ástæða til þess að leggja jafnmikla áherslu á það. Ég tek ekki undir það með hv. þm. Lúðvík Jósepssyni að þetta sé sýndarmennska.

Alþfl: menn fluttu hér margar þáltill. í byrjun þings, og formaður flokksins fór svo í sjónvarpið og tók það fram í sjónvarpsþætti að þáltill.- flutningur í Sþ. væri sýndarmennska. En ég er sem sagt bæði um þessa till. og raunar flestar sem fram hafa komið á þessu þingi, raunar ekki allar, ég tek það skýrt fram, — þeirrar skoðunar að þær séu fluttar í alvöru, en ekki bara upp á myndina.