29.11.1976
Neðri deild: 15. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í B-deild Alþingistíðinda. (565)

96. mál, ættleiðingarlög

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv. til ættleiðingarlaga, sem hér liggur fyrir, var lagt fram á síðasta Alþ. til kynningar. Frv. er samið af n. sem kölluð hefur verið sifjalaganefnd. Í henni eiga sæti dr. Ármann Snævarr hæstaréttardómari, Baldur Möller ráðuneytisstjóri og frú Auður Auðuns fyrrv. alþm. Ritari n. hefur verið Guðrún Erlendsdóttir hrl„ sem er kennari í þessum fræðum við Háskólann.

Þessu frv., ef að lögum verður, er ætlað að leysa af hólmi eða koma í stað laga nr. 19 1953, um ættleiðingu, og tvennra laga um breyt. á þeim lögum sem síðan hafa verið gerð. Fyrstu heildarlögin um ættleiðingu, sem sett voru hér á landi, voru sem sagt lög nr. 19 1953. Lög um ættleiðingu voru að vísu ein þeirra laga sem fjallað var um í Norðurlandasamvinnu, og upp úr 1920 voru sett lög um það efni á hinum Norðurlöndunum. Hér á landi urðu lögin um ættleiðingu út undan og voru ekki sett heildarlög um það efni fyrr en árið 1953, en hins vegar farið eftir ýmsum dreifðum lagaákvæðum þangað til svo og nokkuð í framkvæmd eftir svipuðum ákvæðum eða svipuðum reglum og giltu eftir Norðurlandalögunum.

Það er ekki hægt að segja að í þessu frv., sem hér liggur fyrir, felist gagnger breyting frá núgildandi lögum. Það er ekki um að ræða neina afgerandi stefnubreytingu. En í þessu frv. eru fyllri ákvæði um ýmislegt en er í núgildandi löggjöf. Það eru skilmerkilegri ákvæði um sitt hvað, og það eru gerðar nokkrar breytingar á einstökum atriðum í núgildandi löggjöf, þó að þar sé yfirleitt ekki um stórvægilegar breytingar að tefla.

Frv. fylgir ítarleg grg. og fróðleg. Í Il. kafla grg. eða athugasemdanna er skrá yfir fjölda ættleiðinga hér á landi og gerður nokkur samanburður á tíðni þeirra hér og á Norðurlöndum.

Í III. kafla eru teknar saman á glöggan hátt þær helstu breytingar, smáar og stærri, sem um er að ræða í þessu frv. frá núgildandi lögum. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að endursegja þær hér þar sem það er aðgengilegt fyrir hv. dm.

Loks eru svo í IV. kafla athugasemdir við einstakar gr. frv.

Ég sé, herra forseti, ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta frv. í framsögu. Það verður að sjálfsögðu athugað rækilega af þeirri n. sem fær það til meðferðar og hún ber það saman við núgildandi löggjöf. Það má segja að í megindráttum sé þetta frv. sniðið eftir nýrri lögum sem sett hafa verið á Norðurlöndum um þetta efni. Enn fremur hefur verið tekið að sjálfsögðu tillit til framkvæmdarinnar í þessum efnum.

Þetta frv. var, eins og ég sagði áðan, lagt fram á hv. Alþ. í fyrra til kynningar, en þá var ekki ætlast til þess að það næði afgreiðslu. Nú væri hins vegar æskilegt að tími gæfist til þess að afgr. málið á þessu þingi, og vona ég að svo verði og n. taki frv. til meðferðar. En mér er ljóst að það mun fara nokkur tími í það að fara yfir jafnviðamikinn lagabálk sem þennan og þó sérstaklega þann lagabálk sem ég mæli fyrir hér á eftir, barnalögin svokölluðu. Ég sé að það þarf að breyta að sjálfsögðu t.d. gildistökuákvæðinu. Það er í frv. miðað við 1. jan. 1977. Það er auðsætt að slíkt getur ekki orðið, en n. mun athuga það.

Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.