18.10.1976
Neðri deild: 4. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í B-deild Alþingistíðinda. (59)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Ellert B, Schram:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. — Ég vil aðeins segja það, að mér finnst vera margar mjög athyglisverðar hugmyndir í þessu frv. Aðalefni þess er að sameina þingið í eina málstofu og breyta nefndaskipan í þinginu í samræmi við þá meginbreytingu. Þessar hugmyndir hafa áður verið ræddar, bæði í tengslum við till. sem fram hafa komið hér á hinu háa Alþ. frá þeim alþfl.-mönnum og eins hafa fulltrúar annarra stjórnmálaflokka og ýmsir einstaklingar utan þings látið í sér heyra um þetta efni. Í sjálfu sér eru þessar hugmyndir ekki nýjar af nálinni, en eru væntanlega núna fluttar hér inn í þingið vegna þess að mönnum finnst allmikill seinagangur vera á störfum stjórnarskrárnefndar sem hefur starfað a.m.k. 4–5 ár.

Mér er kunnugt um það, að að svo miklu leyti sem stjórnarskrárnefndin hefur fjallað um þetta mál og haft einhverjar skoðanir um það, mun hún gera þær till. sem þetta frv. hnígur að. Hins vegar eru menn orðnir mjög óþolinmóðir að bíða eftir að sjá till. frá stjskrn. um þetta efni og ýmis önnur, og sjálfsagt er það ástæðan fyrir því að málið er nú sérstaklega flutt inn í þingið, enda þótt flm. sé væntanlega kunnugt um þessar hugmyndir í stjskrn. sjálfri.

Ég er þeirrar skoðunar að þingsköp Alþingis eigi að breytast að einhverju leyti í þessa átt og að þingsköp Alþ. eigi að endurskoða um leið að ýmsu öðru leyti. Ég fer ekki út í þá sálma að sinni, en vil aðeins segja að þessar breytingar og þær hugmyndir, sem ég hef og fram hafa komið, stafa að sjálfsögðu af því að þm. og þjóðinni finnst að þingið eigi að geta starfað í samræmi við nútímalegar kröfur um vinnubrögð og vera í takt við þær lýðræðishugmyndir sem uppi eru og við störfum eftir. En það er jafnljóst að það er þýðingarlaust fyrir okkur að breyta lögum um þingsköp, stjórnarskránni þar að lútandi, ef kjördæmaskipan og kosningar til Alþ. eru ekki í samræmi við þessar sömu lýðræðishugmyndir.

Frsm. þessa frv., hv. þm. Benedikt Gröndal, vék örlítið að einum þætti þessa máls og jafnframt þeim veigamesta, þ.e.a.s. kjördæmaskipuninni. Það kom fram í hans máli, að hann taldi og hans samflokksmenn að núv. kjördæmaskipan væri ekki í anda lýðræðisins vegna þess hversu kosningarrétturinn er orðinn ójafn. Undir þessar skoðanir vil ég taka, og reyndar komu þær fram í frv. eða þáltill. sem ég ásamt tveim öðrum þm. flutti hér á síðasta þingi, en það var till. sem fól í sér að stjskrn. gerði till. um breytingar í kjördæmaskipuninni til þess að jafna kosningarréttinn. Ég þarf ekki að lýsa þeim rökum sem lúta að þessu frv., þessum skoðunum. Ég held að það sé öllum þm. nokkuð ljóst að mikið ójafnræði hefur skapast á milli einstakra kjördæma frá því að núv. kjördæmaskipun var samþ. árið 1959. Tilgangur hennar var þá að jafna kosningarrétt einstaklinga, kjósenda í þessu landi, og þáv. breytingar og núv. skipan nálgaðist mjög þetta meginmarkmið, að jafna kosningarréttinn, en það hefur farið mjög úr böndum á seinni árum og er orðið svo að nú er algerlega óviðunandi ástand.

Till., sem flutt var hér í fyrra af mér og öðrum tveim hv. þm., náði ekki fram að ganga og var það mjög miður, vegna þess að meirihlutaálit hv. allshn. í Sþ. mælti með samþykkt þeirrar till. Ég heyrði þá þeim skoðunum hreyft að hér væri um mál að ræða sem stjórnmálaflokkarnir eða þingflokkarnir sjálfir yrðu að koma sér saman um og það gæti ekki orðið verkefni stjskrn. að gera slíkar tillögur, hér væri um samkomulagsatriði að ræða milli einstakra stjórnmálaflokka. Nú er út af fyrir sig hægt að taka því með fyrirvara, og ég fyrir mitt leyti tek ekki undir það að kjördæmaskipun eigi að vera eitthvað sem stjórnmálaflokkarnir hafi hrossakaup um. Engu að síður er það staðreynd að málið náði ekki fram að ganga, m.a. vegna þessara sjónarmiða. Ég tel að það sé að einhverju leyti álit stjskrn. líka að það sé erfitt fyrir hana að taka á þessu máli án þess að vita hver hugur stjórnmálaflokkanna er, og því er spurningin núna: Hvernig á að bregðast við? Það er útilokað fyrir Alþ., sem nú situr, að samþykkja breytingar á stjórnskipun öðruvísi en takast einhvern veginn á við þetta mikla vandamál sem kjördæmaskipunin er. Mér er í sjálfu sér sama hvort það er stjórnarskrárnefnd eða sérstök n. á vegum stjórnmálaflokkanna sem fjallar um það, svo framarlega sem sú breyting næst fram að kjördæmaskipuninni sé breytt þannig að meira jafnræði ríki meðal kjósenda.

Þessu vildi ég koma hér á framfæri þegar rætt er um þingsköp Alþingis, störf þess, og minnst er á kjördæmaskipun í því sambandi. Ég hyggst taka þetta mál aftur upp á þessu þingi í einu eða öðru formi og vil eindregið hvetja hv. þm. til þess að skilja, að það er útilokað fyrir okkur, sem nú sitjum á Alþ., að láta þetta kyrrt liggja og gera ekki a.m.k. alvarlega tilraun til þess að breyta í það horf sem ég er að tala um.