30.11.1976
Sameinað þing: 26. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í B-deild Alþingistíðinda. (615)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Mér er ljóst að það er orðið alláliðið á fundartímann, og því verð ég að stytta mál mitt þó að hér hafi ýmislegt komið fram sem ég hefði haft löngun til að fá tíma til að ræða um.

Það eru þá fyrst nokkur atriði af þeim sem komu hér síðast fram hjá hæstv. utanrrh., aðeins stuttar aths. við það.

Hæstv. ráðh. minntist á að með samningunum, sem gerðir voru í Osló um veiðiheimildir handa bretum í 6 mánuði, hafi staðan í landhelgismálinu gerbreyst og eftir þá væri það sem sagt upp komið að við réðum því einir hvað gerðist í málinu. Ég er á því að eins og staðan er nú, þá sé þetta orðið, að við ráðum hér einir og eigum að fylgja því eftir. En ég er honum ekki sammála um að það hafi verið samningagerðin í Osló sem réð þessu, heldur hitt, eins og ég hef sagt áður, að hér var orðið um breytta stöðu að ræða sem Efnahagsbandalagið og bretar viðurkenndu, þar sem þeir urðu að taka upp viðurkenningarstefnu á 200 mílunum og þurftu að fylgja henni eftir sjálfir. Það var það sem breytti stöðunni okkur í hag.

Það var athyglisvert að hæstv. utanrrh. sagði hér að sendimaður Efnahagsbandalagsins, Gundelach, hefði ekki ástæðu til þess að gefa út þá yfirlýsingu sem hann hefur gefið. En mér fyndist að það hefði verið þörf á því að hann og ríkisstj. hefðu sagt þetta á réttum stað og réttum tíma, að hann væri hér að gefa, þessi erlendi sendimaður, yfirlýsingar út í bláinn, sem ekki styddust við neinn veruleika. En það var ekki gert. Í þessum efnum vil ég minna á að það er þetta sífellda, sem hér kom fram hjá hæstv. utanrrh. enn og hefur komið fram hjá honum oft áður í sambandi við þessar viðræður, að hér hafi bara farið fram könnun — ekki samningaviðræður, bara könnun.

Þegar ég minntist á fjölmenni íslendinganna sem tóku þátt í þessum viðræðum, þá var það ekki gagnrýni mín að hér væri kostað of miklu til, — það væru of margir menn og þetta hefði orðið of dýrt. Það datt mér ekki í hug, enda held ég að það hafi ekki verið ástæða til að skilja mál mitt þannig, heldur fyrst og fremst að það, svona margir, bæði ráðh. og aðrir, tóku þátt í þessum viðræðum sýndi að hér voru að fara fram raunverulegar samningaviðræður, en ekki þær innihaldslausu könnunarviðræður og hlustun sem menn voru alltaf að leggja áherslu á, enda er það alveg ljóst að ætlunin er að halda áfram þessum samningaviðræðum. Ég hef sem sagt vanist því að kalla samningaviðræður annað en það sem beinlínis endar í formlegum samningi. Þetta hefur leitt til þess, að nú stefna menn sem sagt að því að gera samninginn. Allar þær upplýsingar, sem ég hef fengið um það hvað fór fram á þessum viðræðufundum, sýna að menn voru hér að ræða um grundvallarefnisatriði málsins, undirbúa samninga, og af því þurfti auðvitað allan þennan her af mönnum.

Hæstv. ráðh. las hér aðeins upp hvað ég hefði sagt hér við tilteknar umr, varðandi þetta mál áður, þar sem ég hefði lagt áherslu á að ég gæti vel samþykkt fyrir mitt leyti að það yrði rætt við fulltrúa bæði Efnahagsbandalagsins og breta. En hann dró það undan í þessum upplestri sem ég lagði auðvitað höfuð áherslu á, eins og ég hef margsinnis sagt áður: Ég hef út af fyrir sig ekkert við það athuga að rætt sé við þá sem biðja um viðtal. En það, sem öllu máli skiptir, er að menn viti fyrir fram um hvað ætlað er að tala, hver er skoðun manns og stefna. Ég var að ganga eftir því, þegar ég sagði þetta, að það, sem skipti öllu máli, væri að það lægi fyrir hver væri stefna okkar almennt í málinu, við gætum rætt við þá og sagt þeim hreint út hver væri grundvallarafstaða okkar í málinu. Það var þetta stefnuleysi sem ég var að finna að og ekkert fékkst upp um. Og það er nákvæmlega það sama sem gerist enn í dag Hér koma upp bæði hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. Hæstv. utanrrh. segir hér enn: Við höfum ekkert loforð gefið þeim, við höfum ekki lofað þeim veiðum. — En hann sagði ekkert um það hver væri stefnan, að þeir ætluðu ekki að semja. Um það kemur ekkert sem er kjarni málsins, hver er afstaðan þegar þeir eru spurðir um hana, þá segja þeir ekki neitt. Og sem sagt, í umr. eins og þessum er ekki hægt að toga það fram með neinu móti hver er afstaðan, um hvað þeir ætla að semja, hvað þeir telja að komi til mála og hver er þeirra afstaða — ekkert, ekki neitt. Það er þetta sem er það voðalega í málinu. Hitt er, eins og ég segi, það er útúrsnúningur að við, sem heimtum skýra stefnu í málinu, séum svo ókurteisir að við viljum ekki opna fyrir mönnum sem banka upp á eða eitthvað þess háttar, að við viljum ekki tala við menn sem ávarpa okkur, eða eins og hæstv. forsrh. sagði hér, hann teldi það óþarfa bráðlæti að vera enn að gera kröfu um það að við höfum stefnu í málinu, að hann gæti lýst hér einhverju yfir varðandi sina stefnu. Sér er nú hvað, búið að ákveða það eftir allar þessar umr. um efnisatriði málsins að nú skuli gengið til samningagerðar, og samt fæst ekkert upp um það hver er skoðun ríkisstj., að hverju hún stefnir. Svo eru hann og aðrir hissa á því og tala um að það sé minnimáttarkennd okkar, sem ekki viljum bara trúa þeim fyrir því að halda áfram umr. við útlendinga um þetta mál, á sama tíma sem þeir fást ekki til þess að segja neitt til um það hver sé skoðun þeirra í málinu og að hverju þeir stefni.

Þetta er auðvitað vandinn í málinu, að maður stendur enn frammi fyrir þessu, að þeir tala um hugsanlegar gagnkvæmar veiðiheimildir, gera lítið úr öllum viðræðum sem fram hafa farið. En ég skal ekki fara langt út í það því að það er ekki tími til þess að rekja það, enda þykir það víst ekki viðeigandi, því að allt er hér stimplað með trúnaðartákninu, öll blöð um þessi mál. En ég vil samt rifja hér upp örfáar setningar, sem ég vænti að þessir hæstv. ráðh. kannist við, og spyrja þá hvort þeir treysti sér til að segja það, að þar sem þessar setningar standa skrifaðar, þá hafi ekki verið gert neitt annað en mætt á fundum og hlustað, það hafi engin tilboð komið fram og það hafi ekki verið rætt neitt um efnisatriði málsins. Kannast hæstv. ráðh. t.d. við þessa setningu? „Að auki“ — og það var auðvitað sá erlendi sendimaður sem sagði þetta — „að auki væri EBE reiðubúið til að veita íslendingum fiskveiðiréttindi fyrir síld í Norðursjó, þótt erfitt væri, og fleiri fisktegundir, þ. á m. á miðunum við Austur-Grænland. Á móti vildi EBE gjarnan fá veiðiréttindi í framtíðinni fyrir nokkur fiskiskip innan íslenskrar lögsögu.“ Ætli menn hafi ekki verið að ræða um kjarna málsins? Ætli menn hafi ekki verið að ræða um það, sem við viljum fá ákveðið, hver stefnan væri? Menn sátu ekki þarna alveg daufdumbir og hlustuðu. Ætli þið kannist ekki við setningu af þessu tagi, að meiningin með því, sem um var rætt, hafi verið að gera rammasamning, með því ætti EBE við það að mörkuð væri viss umgjörð, en tölur mætti setja inn síðar eftir aðstæðum? Eða setningu af þessu tagi: „Ákveða verður tímasetningu samningaviðræðna um langtímalausn á gagnkvæmnisgrundvelli, jafnvel þó að ekki verði samið um mikið aflamagn sé nauðsynlegt að gera einhverja samninga, Ísland hafi nokkurra hagsmuna að gæta við Grænland og megi ekki útiloka sig frá samningum þar“ — þetta megi líta á sem tilboð?

„Setja verður ramma og gefa til kynna óskir og fyrirætlanir svo að ekki komi til upplausnar eftir 1. jan.“ Þetta eru aðeins nokkur smásýnishorn.

Auðvitað vitum við að menn hafa verið alla þessa daga að ræða um gagnkvæmar veiðiheimildir, ákveðin tilboð á báða bóga. En það er rétt, eins og ég hef sagt hér áður, menn hafa ekki treyst sér til þess að tilnefna nákvæmlega hvað mörg tonn þeir megi taka af okkar miðum eða hvað skipin eigi að vera mörg. Það er ekki búið að lofa alveg ákveðnu. Þetta er rétt. En umr. hafa auðvitað verið um þetta, því að mennirnir hafa ekki verið með öllu aðgerðalausir. Það er af þessum ástæðum sem menn segja auðvitað: Það er kominn tími til þess og meira en það að ríkisstj. fáist til þess að segja hver er skoðun hennar í málinu. Hver er hennar stefna? Að hverju stefnir hún? Ætlar hún að hleypa erlendum flota inn á okkar mið aftur eða ekki? Og auðvitað verður að vekja athygli á því að hér koma fram ráðh. sem fást ekki enn til þess að svara þessu.

Ég skil því mætavel að einstakir þm. úr stjórnarliðinu, eins og hv. þm. Guðlaugur Gíslason, hann kemur hér upp og er dauðhræddur og segist vilja taka það fram að hann hafi allan fyrirvara á um það hvort hann samþykki það, sem þeir gera, eða ekki. Ég skil þetta mætavel. Og ég er næstum viss um að það eru fleiri en þessi hv. þm., þeir eru miklu fleiri sem styðja ríkisstj. sem eru dauðhræddir vegna þess að þeir fá engar upplýsingar um það að hverju menn stefna.

En það var sérstaklega eitt atriði, því að það er í rauninni ekki tími til þess að halda hér uppi löngum efnisumr. um þetta mál, — en það var sérstaklega eitt atriði sem gerði það að verkum að ég vildi fá að segja örfá orð í lok þessa fundar, af því að mér fannst það býsna táknrænt um vinnubrögð hæstv. ríkisstj. Það var þegar hæstv. forsrh. sagði í sínu annars alveg innihaldslausa svari, — því að hann svaraði engu af því, sem hann var beðinn um að svara, og gaf enga stefnumarkandi yfirlýsingu á einn eða neinn hátt, — en hann hafði eitt að segja varðandi svona samninga, að hann ætti síst von á því að það væri ástæða til þess fyrir mig að tala um að ekki ætti að semja við Efnahagsbandalagið eða aðrar þjóðir, sem hefði nánast verið búinn að undirbúa samninga á svipaðan hátt við rússa á sínum tíma. Þetta minnir mig á það, að um það leyti sem þeir voru að smokra í gegn vandræðasamningnum við vestur-þjóðverja, þá var prentað með stærsta letri í Morgunblaðinu að ég hefði alltaf viljað semja við vestur-þjóðverja um miklu meira og þá mætti vel semja um aðeins minna núna. Auðvitað var því þá logið til. Á. sama hátt virðist vera tilgangurinn að reyna að búa til einhverja slíka sögu núna.

En hvað hefur gerst í þessu máli? Það er best að ég segi frá því. Það er rétt, rússar höfðu hvað eftir annað og Austur-Evrópuþjóðirnar óskað eftir því að fá samninga um landhelgismál eins og aðrir gerðu á þessum tíma. Og þeir höfðu óskað eftir því að gera við okkur almennan samning um fiskveiðimálefni, eins og þeir höfðu gert við Noreg, Kanada og ýmsa fleiri. Ég átti auðvitað aldrei viðræður við neinn rússa um þessi mál, — aldrei. Hins vegar var það að í eitt skipti þegar tveir af sendimönnum, annar frá Hafrannsóknastofnuninni og hinn frá sjútvrn., fóru á ákveðinn fund til Rómar og þar voru fulltrúar frá Sovétríkjunum, þá var í fullu samráði við mig og utanrrh. þeim heimilað að ræða við fulltrúa rússa sem óskuðu eftir að fá að setja fram sín sjónarmið um þessi mál. Þeir komu heim með blað sem aldrei var neitt gert meira með, þessar hugmyndir, og þær liggja í rn. Og af því að þær liggja í rn. og ég tók þær aldrei upp og enginn annar, þá er auðvitað ágætt að segja: Ja, sjáið þið til, hann ætlaði að semja við rússa. — Þetta heitir nú að spila nokkuð frílega með sannleikann. En ég legg áherslu á það að ég átti aldrei tal við einn einasta rússa um þessi mál, — aldrei. Þessi drög, sem þessir menn komu með heim af þessum fundi sem hugmyndir rússanna, sem ég man vel eftir að voru afskaplega almenns efnis og sögðu hvorki eitt eða neitt, með þau var aldrei gert neitt og aldrei tekið upp af minni hálfu á einn eða neinn hátt, svo að þetta er slúður af lakasta tagi. Hæstv. forsrh. ætti ekki að gera sig sekan um það að koma með fleipur af þessu tagi. Það er honum ekki sæmandi.

Ég skal svo ekki halda þessum umr. frekar áfram úr því sem komið er. Við stöndum frammi fyrir því varðandi það mál sem hér hefur verið til umr.ríkisstj. fæst ekki til þess að segja neitt um það, hvað fyrir henni vakir. Hún talar bara almennt um að auðvitað hljóti það að vera okkar hagur að geta fengið þá í Efnahagsbandalaginu til þess að taka upp jafnmikla fiskfriðunarstefnu og við íslendingar rekum. Það var ekki að heyra á hæstv. forsrh. að neitt annað stæði til varðandi samning um fiskfriðunarmálin en bara einhliða að við ættum að fá þá inn á okkar stefnu og búið, þó að það sé talað um stjórnun á fiskveiðum beggja aðila og fiskfriðunarreglur af beggja hálfu.

Við stöndum þannig frammi fyrir því, að við fáum engar frambærilegar skýringar hvað þeir meina með slíkri samningagerð sem þessari, — engar, því að þetta eru ekki frambærilegar skýringar. Og við stöndum líka frammí fyrir því, að við fáum ekkert að vita hvað ríkisstj. hefur í huga varðandi gagnkvæmar veiðiheimildir sem útlendingarnir eru þegar farnir að tala um að þeir treysti á að þeir muni fá. Við fáum ekkert svar. Ég hygg því að einlægast væri í þessum efnum að flytja hér till. á Alþ. og knýja fram fljóta afgreiðslu á henni, m.a. með útvarpsumr., þar sem Alþ. fái að greiða atkv. beint um það, hvort við viljum veita útlendingum veiðiréttindi innan okkar fiskveiðilandhelgi eða ekki. Það er tiltölulega auðvelt að búa út svona till. og knýja það fram að hér verði að fara fram atkvgr. nm þetta umbúða- og vafningalaust. Það er býsna fróðlegt fyrir þjóðina a.m.k. að sjá það, áður en gengið verður til næstu viðræðna við útlendingana, hvort hætta vofir yfir í þessum efnum eða hvort hér er hægt að pína fram skýr svör um það að menn séu ekki til viðtals um slíka undansláttarsamninga eins og málin standa nú. Ég mun taka þetta til athugunar í sambandi við framhald þessa máls.