07.12.1976
Sameinað þing: 29. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (664)

248. mál, geðdeild Landsspítalans

Magnús Kjartansson:

Hæstv, forseti. Við fengum hér áðan dæmi um skapsmuni hæstv. heilbrrh. og þeir hafa oft orðið honum til trafala í störfum hans. Hann á ákaflega auðvelt með að reiðast, þessi hæstv. ráðh., og gefur þá stundum yfirlýsingar sem eru ekki í samræmi við verksvið hans. Ég vona sannarlega að þessir skapsmunir ráðh. verði ekki til þess að hann dragi úr nauðsynlegum og brýnum og sjálfsögðum framkvæmdum á þessu sviði.

Í sambandi við geðdeildina, þá fékk hann í hendur alveg fullunna áætlun frá fyrrv. ríkisstj. — alveg fullunna, og það var aðeins um það að ræða að útvega nægilega fjármuni til þess að koma henni í gagnið. Og eins og ég sagði áðan, þá skiptir það meginmáli með allar slíkar stofnanir að framkvæmdum sé flýtt eins og unnt er til þess að þær geti farið að hafa þau áhrif sem til er ætlast. Það hefur enginn gagn af steinsteypu sem hlaðið er upp, ef það er ekki hægt að nota hana.

Þetta er því miður ekki eina málið á sviði heilbrigðísmála þar sem hæstv. núv. ráðh. hefur tafið þær áætlanir sem gerðar voru. Á sínum tíma voru gerðar fastar áætlanir um Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Ég sé ekki betur en að þannig hafi verið haldið á því máli að nú sé áætlað að því verði lokið einhvern tíma í blámóðu framtíðarinnar, ákaflega langt í burtu. Og hæstv. ráðh, hefur gjörsamlega vanrækt að gera þá áætlun um uppbyggingu heilbrigðismála, sem ákveðin var í lógum, en hún er forsenda þess að Alþ. geti unnið skipulega og skynsamlega að þessum framkvæmdum.

Það er ekki rétt sem hæstv, ráðh. sagði, að geðdeildin stangist á við það að þeir staðir á landinu, þar sem aðstæður eru erfiðastar, eigi að hata forgang, því að geðdeildin hér er fyrir landið allt, og fólk, sem þarf á þeirri þjónustu að halda sem þar er veitt, er um allt land. Þessi vinnubrögð hæstv, ráðh. og þeir skapsmunir, sem komu fram hjá honum í umr., eru honum því miður til vanvirðu.