07.12.1976
Sameinað þing: 29. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1000 í B-deild Alþingistíðinda. (697)

76. mál, greiðslufyrirkomulag úr Fiskveiðasjóði vegna smíða fiskiskipa

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Það er mikið hagsmunamál margra sveitarfélaga að eðlilegur rekstrargrundvöllur sé fundinn fyrir fræðsluskrifstofur og starfsemi fræðslustjóra. Þetta er vegna þess verkefnis, sem þeim skal falið samkv. lögum. Ég vil vekja athygli á því, að eins og nú er málum háttað verða sveitarfélögin bæði að leggja út fé og hafa allmikla skrifstofumennsku í sambandi við ýmsar aukagreiðslur til kennara og enn fremur greiðslu á launum stundakennara, Allt þetta veldur því, að á sveitarfélögin og þeirra skrifstofur hlaðast störf sem annars eru ætluð fræðsluskrifstofunum. Ég vil þess vegna leggja áherslu á það að það verður að finna varanlega lausn á þessu mikla vandamáli. Og enn fremur í sambandi við það, sem rætt var hér nú nýlega, þá má vekja athygli á því að fræðslustjórunum er ætlað að fylgjast með því hvaða nemendur það séu í þeirra umdæmi sem ekki geti haft fullt gagn af venjulegri grunnskólastarfsemi og þurfi þess vegna að veita þeim sérfyrirgreiðslu. Þetta á við t.d. um þá sem eru sjóndaprir, þá sem eiga erfitt með að læra og þroskahefta á ýmsan hátt, Við það að fræðsluskrifstofurnar fái eðlilegan rekstrargrundvöll og fræðslustjórarnir geti þess vegna sinnt öllum þeim störfum sem þeir eiga að gera, þá mun einnig verða betra lag á þeim málum sem hér hafa verið rædd mikið nýlega varðandi þroskaheft börn og þeirra menntunaraðstöðu. Því vil ég leggja mikla áherslu á að reynt verði að finna góða lausn á rekstrarvanda fræðsluskrifstofa.