07.12.1976
Sameinað þing: 29. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1008 í B-deild Alþingistíðinda. (707)

76. mál, greiðslufyrirkomulag úr Fiskveiðasjóði vegna smíða fiskiskipa

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég hugsa að þessa dags verði lengi minnst í sögu Alþingis vegna þeirra umr. sem hér hafa átt sér stað, bæði að því er varðar allan þann misskilning s2m átt hefur sér stað milli stjórnarliða, innbyrðis deilur hv. stjórnarþingmanna og hæstv. ráðh. samflokka og nú siðast yfirlýsingu eins af hv. stjórnarsinnum, 2. þm. Vestf., þess efnis, að það eina, sem skorti á að bót verði ráðin á þeim vanda sem hér er verið að ræða nú, sé að það vanti vilja hjá hæstv. menntmrh. og fjmrh. Það er það eina sem skortir, segir þessi hv. þm. — stjórnarsinni.

Nú vil ég a.m.k. taka hæstv. menntmrh. í forsvar fyrir það, að hann vantar ekki viljann til að kippa þessu í lag — ekki hans eigin vilja. Vel má vera að það sé hörð barátta hjá honum gagnvart hinum aðilanum sem ráða á með honum, en ég held að það verði á engan hátt sagt með réttu að hæstv. menntmrh. skorti vilja. Hann skortir kannske hörkuna til þess að halda þessu til streitu, og ég vona að sú brýning, sem hér hefur komið fram í dag til hæstv. ráðh., nægi til þess að hann sjái svo um að hér verði bót ráðin í þessu mikla vandamáli, sem verður til þess, ef áfram heldur sem horfir, að kippa gjörsamlega grundvellinum undan þessari starfsemi sem þegar er hafin úti á landsbyggðinni.

Ég vil aðeins til viðbótar þessu láta þá skoðun mína í ljós, að mér hefur alltaf fundist það undarleg tilfinning eða hugsun hjá ráðandi mönnum í þjóðfélaginu, að í hvert einasta skipti sem á að stofnsetja á vegum ríkisins, hvaða nafni sem það nefnist, stofnun úti á landi, utan Reykjavíkursvæðisins, þá verða alltaf heimaaðilar að borga svo og svo stóran hluta af því sjálfir. Allt, sem gert er hér á þessum hring, og heyrir undir það sama, er borgað beint úr ríkissjóði. En sveitarfélög í þessu tilfelli verða alltaf að borga svo og svo stóran hluta af kostnaði við stofnanir sem settar eru niður úti á landsbyggðinni. Þetta er að mínu viti óæskileg hugsun, óæskileg þróun, sem ætti að koma í veg fyrir hið allra fyrsta. Ég tek undir það með hæstv. menntmrh., sem hann sagði áðan: Auðvitað á ríkissjóður að borga allan þennan kostnað.