10.12.1976
Efri deild: 20. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (767)

119. mál, tollskrá o.fl.

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur gert hér grein fyrir nýju frv. til l. um tollskrá o.fl. Tollamál eru ekki oft á ferðinni hér á Alþ. Nú munu vera bráðum 3 ár liðin síðan tollalög voru seinast afgreidd frá Alþ., og það er nú svo, að þegar tollalög eru á annað borð opnuð, þá er í mörg horn að líta og margs að gæta, eins og sjá má á þessu frv Það er mjög umfangsmikið og marghætt og smáatriðakennt og er að sjálfsögðu fráleitt að Alþ. gefi sér ekki góðan tíma til þess að yfirfara svo stórt og mikið mál og gera það eins vel úr garði og hægt er. Ég verð því að harma það hversu seint þetta frv. er á ferðinni og nú skuli vera ætlunin að afgreiða þetta mikla má á aðeins rúmri viku í gegnum 6. umr. í báðum d. þingsins, þegar aðeins eru eftir 9. þingdagar eða þar um bil — 8—9 þingdagar.

Þetta er ekkert smámál, sem hér er á ferðinni Frv. ásamt grg. eru 253 síður og ekkert einfalt má að brjótast í gegnum þennan doðrant allan á skömmum tíma. En ég heyri það að hæstv. fjmrh. að hann telur óhjákvæmilegt að þetta mál fái afgreiðslu fyrir jól, og sé ég í sjálfu sér ekki ástæðu til að standa gegn því. Við munum að sjálfsögðu reyna að greiða fyrir því að þetta mál hljóti afgreiðslu fyrir jól ef það er talin brýn nauðsyn, en ég verð hins vegar að átelja það mjög að frv. skuli hafa komið svo seint fram.

Þetta frv. skiptist í allmarga þætti. Hér er um að ræða að verið er að lækka tolla á innflutningi frá aðildarlöndum EFTA og Efnahagsbandalagsins í samræmi við samninga sem við höfum gert við þessi bandalög. Í öðru lagi er um að ræða lækkun á tollum á hráefni, vélum, rekstrarvörum og ýmsum fjárfestingarvörum til iðnaðarins. Þessar lækkanir eiga sér ýmsar skýringar, sumar vel grundaðar, aðrar hæpnar.

Ég tel að það sé sjálfsagt nauðsynjamál að lækkaðir séu tollar á hráefni og rekstrarvörum til iðnaðarins, og ég tel að við hefðum fyrir löngu átt að fara í gegnum tollskrána og lagfæra hana til þess að íslenskur iðnaður byggi örugglega við laga tolla hvað snertir einmitt þær vörur sem hann notar í framleiðslu sinni. En ég tel hins vegar að ýmsar aðrar lækkanir á tollum, sem felast í þessu frv., séu ekki jafnréttlætanlegar. Enginn vafi er á því að íslenskur iðnaður á mjög undir högg að sækja og hann er vanbúinn að mæta stórfelldum tollalækkunum. Það er augljós staðreynd að allur iðnaður ris upphaflega sem heimaiðnaður og það er fyrst þegar iðnaðurinn hefur skotið einhverjum rótum að hann fer að víkka áhrifasvæði sitt og ná mörkuðum í öðrum löndum. Allur iðnaður í nálægum löndum hefur upphaflega risið upp í skjóli tollverndar og svo verður að sjálfsögðu einnig að vera hér á Íslandi. Við íslendingar erum tvímælalaust langt á eftir öðrum þjóðum í uppbyggingu iðnaðar. Því veldur að sjálfsögðu fámennið og það hvað heimamarkaðurinn er lítill. Af þessari ástæðu vorum við Alþb.-menn andvígir aðild Íslands að EFTA. Við viðurkenndum þörf íslensks iðnaðar fyrir greiðari aðgang að stórum markaði, en við bentum á það, að þegar opnaðar væru dyr milli íslensks markaðar og evrópsks markaðar með lækkun tollanna, þá yrði þar að sjálfsögðu um flóð að ræða í tvær áttir, og þótt ljóst væri að íslenskar vörur ættu í kjölfar EFTA-aðildar greiðari aðgang að erlendum mörkuðum, þá mundi hið sama gilda um erlendar vörur. Hætta væri fyrir hendi að innlendum iðnaði yrði drekkt með innflutningi erlends varnings sem framleiddur væri með meiri tækni og minni tilkostnaði.

Því miður voru íslenskir iðnrekendur á sínum tíma furðulega glámskyggnir í þessum efnum og trúðu því að þeir mundu auðveldlega ráða við hina stórauknu samkeppni sem fylgja mundi í kjölfar aðildar okkar að EFTA. En nú í seinni tíð eru þeir farnir að átta sig á því að þeir voru vanbúnir að mæta hinni stórauknu samkeppni og hafa því mjög óskað eftir því að aðlögunartími þeirra að tollfrjálsum markaði yrði lengdur. Ég er þeirrar skoðunar að þessar tollalækkanir, sem fylgja í kjölfar aðildar okkar að EFTA og Efnahagsbandalaginu, séu alls ekki tímabærar. Ég tel að innlendur iðnaður þurfi lengri aðlögunartíma, og ég tel að það hefði verið full ástæða til þess að krefjast þess að sá aðlögunartími, sem tilgreindur er í samningi okkar við EFTA annars vegar og Efnahagsbandalagið hins vegar, yrði endurskoðaður. Og ég vil spyrja hæstv. fjmrh. að því, hvort virkilega hafi ekki verið eftir því leitað að aðlögunartíminn yrði lengdur.

Ég vil benda á það, að við gerðum breytingar á tollskrárlögum árið 1974 seinast og lækkunum þá tolla á vörum frá Efnahagsbandalagi Evrópu, en Efnahagsbandalagið frestaði hins vegar gildistöku þeirra tollalækkana fyrir sitt leyti í tæp tvö ár. Mér hefði fundist fullkomlega eðlilegt að tekið væri tillit til þess að svo dróst að tollalækkanir ættu sér stað af hálfu Efnahagsbandalagsins á tímabilinu frá 1914–1976. Ég bendi einnig á það, að í grg. þessa frv. kemur fram að í fjárlagafrv. er ekki gert ráð fyrir tekjuöflun vegna þess tekjumissis, sem ríkissjóður verður fyrir, nema að takmörkuðu leyti. Þar vantar 450 millj. upp á. Og þar sem hér er um að ræða nokkurn veginn sömu upphæð og nemur lækkun tollanna á vörum frá EFTA og Efnahagsbandalaginu, þá finnst mér að mörgu leyti liggja beinast við að sú tollalækkun, sem af samningum okkar við Efnahagsbandalagið og EFTA leiðir, kæmi ekki nú til framkvæmda, enda hefur bersýnilega ekki verið séð fyrir tekjuöflun til að fylla það skarð. Í grg. frv. er gefið í skyn, að nýir skattar verði á lagðir til þess að fylla þetta skarð, og tekið er svo til orða að um sé að ræða almenna skoðun á tekjuöflun ríkisins sem nú fari fram og eigi að leysa þetta vandamál þegar þar að kemur. Þetta er að vísu nokkuð loðið orðalag, en verður ekki skilið á annan veg en þann, að um verði að ræða aukna skattheimtu væntanlega í formi óbeinna skatta, vegna þessara tollalækkana.

Ég vil leyfa mér í öðru lagi að spyrja hæstv. fjmrh. hreint út hvað fyrirhugað sé í þeim efnum. Hvernig hyggst hann afla ríkissjóði þeirra tekna sem þarna vantar til þess að endar nái saman? Er með þessum orðum verið að gefa í skyn að eftir áramótin fái þjóðin að horfa upp á nýja skattheimtu í einhverju nýju formi, t.d. hækkuðum sköttum — eða hvað er hann með í huga?

Ég vil að lokum segja það eitt, að ég er ekki reiðubúinn til þess að fylgja þessu frv. óbreyttu. Ég tel að verulegur hluti af þeim tollalækkunum, sem þar er gerð grein fyrir og tillaga er gerð um, eigi fyllsta rétt á sér og þá fyrst og fremst tollalækkanir sem byggjast á lækkun tolla á hráefni, vélum og fjárfestingarvörum til iðnaðarins. Það er um helmingur af tollalækkununum á árinu 1977. En ég dreg það mjög í efa að tollalækkanir, sem stafa af samningum okkar við EFTA og Efnahagsbandalagið, séu tímabærar og tel því eðlilegast að þeim verði frestað um sinn.