10.12.1976
Neðri deild: 20. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1133 í B-deild Alþingistíðinda. (792)

Umræður utan dagskrár

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. að neinu marki. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þingstörf í vetur hafa tafist allóþyrmilega við málaþras utan dagskrár. Nú er ég ekki að gefa það í skyn að landhelgismálið sé ekki þannig vaxið að um það hljóti að verða umr. þegar það á annað borð ber á góma, svo mikið meginmál sem hér er annars vegar. Hins vegar er það áberandi í öllum þessum utandagskrárumr. hve sömu hlutirnir eru oft sagðir hvað eftir annað án þess að leggja nokkuð nýtt til mála, að ég ekki tali um til lausnar þessu stóra máli.

Mér fannst siðast þegar landhelgismálið var hér til umr. utan dagskrár, — það var daginn áður en bretar héldu burt af miðunum með sin fiskiskip, það var í sjálfu sér mikill fagnaðardagur, — ég gat varla orða bundist þá hversu fáir fundu hvöt hjá sér til þess að þakka og gleðjast yfir þeim árangri sem við vorum að ná einmitt þennan dag. Ég fór ekki fram á í huga mínum neinn þakkaróð til núv. ríkisstj. þó að hún óumdeilanlega hafi unnið lokasigurinn. En þarna vorum við að ná loksins árangri eftir ára- og aldabaráttu og þess vegna ærin ástæða til þess að láta nokkurn fögnuð í ljós.

Ég held líka að hv. stjórnarandstæðingar séu óþarflega hræddir og kvíðnir í dag, enda þótt hv. sendimaður EBE — Efnahagsbandalagsins — gefi út einkennilegar yfirlýsingar sem kunna að byggjast á því að hann hafi dreymt eitthvað sérlega vel nóttina áður, eða þá að hér sé annars vegar um heldur lítinn heiðarleika af manni í hans stöðu að ræða, nema hvort tveggja sé.

Ég held að málið liggi þannig nú, eins og bent hefur verið á, að við höfum öll trompin á hendinni. Við þurfum engu að kvíða. Okkar fulltrúar, íslenska ríkisstj. hefur gefið út yfirlýsingar sem eiga að nægja okkur. Hæstv. forsrh, lét svo um mælt nú á þessum fundi að við hefðum gefið Efnahagsbandalaginu kost á að gera tilboð án þess að í því fælist nokkurt vilyrði frá okkar hálfu um að samið yrði við þá um eitt eða neitt. Þetta eru ummæli sem ég vil taka mark á og treysta, og þetta er afstaða okkar æðsta forustumanns, í forsæti ríkisstj., sem á að tryggja okkur að við þurfum ekki að eyða tveimur tímum í þras um þetta mál. Báðir þeir þm., sem af hálfu stjórnarflokkanna hafa setið viðræðufundi með Efnahagsbandalaginu, gefa einnig ástæðu til bjartsýni.

Ummæli Gundelachs koma öllum á óvart, og ég vil taka undir það, sem hér hefur komið fram hjá fleiri en einum ræðumanni, að mér persónulega finnst full ástæða til þess að þessi ummæli Gundelachs séu borin til baka, að við krefjumst þess. Enda þótt þau séu reist á fölskum forsendum, þá geta þau gert okkur ógagn í fjölmiðlum úti um heim. Ég er einnig á því að við eigum ekkert að flýta okkur og því síður að láta pressa okkur til að flýta okkur til samninga um eitt eða neitt. Þetta eru það stór mál að við skulum láta bretann og Efnahagsbandalagið biða á meðan við hugsum okkar gang vel.

Því hefur einnig verið lýst yfir af okkar ráðamönnum að fiskveiðiréttindi á móti fiskvernd komi ekki til greina. Þetta er atriði sem mér fannst ekki óeðlilegt að skapaði nokkurn kviða og jafnvel tortryggni. Ég er ein í þeirra hópi sem telja að fiskveiðiréttindi séu eitt og fiskvernd annað. En þar fyrir vil ég ekki fallast með öllu á orð hv. þm. Benedikts Gröndals sem gerði, að mér fannst, heldur lítið úr fiskverndinni. Okkur liggur ekkert á, sagði hann, að tala um hana. Við skulum afgreiða fiskveiðiréttindin, síðan liggur okkur ekkert á að tala um fiskverndina. — Þarna held ég að sé mikill misskilningur á ferðinni. Fiskverndarmálin eru meginmál sem við þurfum að ganga eftir að séu leyst, svo að okkar fiskveiðimál í framtíðinni biði ekki skaða af.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar. En ég vil segja það sem mína persónulegu skoðun, að hversu vel sem við skiljum erfiðleika breta, sérstaklega bretanna, — ég tek breta sér á parti því að þeir eiga þarna stærstra hagsmuna að gæta og hjá þeim eru erfiðleikarnir mestir, — hversu gjarnan sem við vildum skilja þessa erfiðleika og veita þeim einhver réttindi til einhverra fiskveiða í okkar 200 mílna landhelgi, þá er mér ómögulegt að sjá að við getum það með nokkru móti, að okkur sé stætt á að láta nokkuð af okkar þorski, okkar fiski af hendi við aðrar þjóðir, eins og málum er komið nú. Við þurfum að gera átak ásamt öðrum fiskveiðiþjóðum til að draga úr ofveiði stofnanna og við þurfum að vinna að endurreisn þeirra. Ef svo vel færi að sú fiskvernd bæri þann árangur að aukin sókn í þorsk og aðra fiskstofna væri leyfileg, gott og vel. þá skal ekki standa á okkur að opna dyrnar aftur. En núna, á sama tíma og við næstum daglega neitum íslenskum byggðarlögum um kaup á nýjum fiskiskipum, þá er mér óskiljanlegt að við teljum okkur hafa nokkuð aflögu til annarra þjóða.

Það var sagt hér í upphafi þessarar utandagskrárumr. að mörg stór mál biðu úrlausnar. Það var deilt á seinagang ríkisstj. að leggja fram mikilvæg mál. Og vissulega er það slæmt í sjálfu sér að þurfa í pressu undir jólafrí að afgreiða þau mál sem hér var bent á: vegáætlun, skattamál o.fl. Ég ætla ekki að fara út í það frekar, en aðeins benda á, að þegar heill þingfundur er tekinn í utahdagskrármál, þá er það náttúrlega síst af öllu til þess fallið að eitthvað verði aflögu af tíma þm. til að snúa sér að stóru málunum sem úrlausnar þurfa með. (Gripið fram í: Það er ekkert af þeim á dagskrá.) Mér dettur í hug og það hefur raunar oft hvarflað að mér hér í þingsölum lítil vísa þegar málalengt hefur veríð mikið hér utan dagskrár:

Sumir mala og mala

minnst þó hafi að segja.

Menn, sem mikið tala,

mættu stundum þegja.