13.12.1976
Neðri deild: 22. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1145 í B-deild Alþingistíðinda. (807)

94. mál, rannsóknarnefnd til að rannsaka innkaupsverð á vörum

Flm. (Eðvarð Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 105 flyt ég ásamt þremur öðrum þm. Alþb. till. til þál. um skipun rannsóknarnefndar samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar til að rannsaka innkaupsverð á vörum o.fl. Till. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv, forseta:

Nd. Alþ. ályktar að kjósa 5 manna rannsóknarnefnd samkv. ákvæðum í 39. gr. stjórnarskrárinnar.

Verkefnin. séu:

1. Að rannsaka hvort innkaup á vörum til landsins séu með eðlilegum hætti og í samræmi við þjóðarhagsmuni eða hvort brögð séu að því að vörur séu keyptar til landsins á óhagkvæmu verði sem leiði til hærra vöruverðs í landinu en ætti að vera.

2. Að rannsaka sérstaklega áhrif umboðslauna í vöruverði, gjaldeyrisskil á umboðslaunum og hversu öruggt eftirlit sé nú með gjaldeyrisnotkun til vörukaupa.

N. rannsaki aðra þætti þeirra mála, sem hér um ræðir, eftir því sem henni þykir ástæða til. Hún skal í störfum sínum hafa fullan rétt til allra upplýsinga frá opinberum aðilum, einstaklingum og fyrirtækjum, eftir því sem nauðsynlegt reynist.

N. skili skýrslu til Alþingis um rannsóknir sínar eigi síðar en 2 mánuðum eftir að ályktun þessi er gerð.

Kostnaður við störf n. greiðist úr ríkissjóði.“ Þetta er sú till. til þál. sem við flytjum hér, og sérstakt tilefni þessarar till. eru mjög athyglisverðar upplýsingar sem fram komu nýlega við samanburð á vöruverði hér og í London. Þessar upplýsingar komu fram í sjónvarpsbætti og voru byggðar á athugunum sem Verðlagsskrifstofan hafði gert.

Frumkvæði verðlagsstóra í þessum málum er að mínu viti mjög þakkarvert, einmitt til þess að upplýsa almenning um hvernig málum sem

þessum er raunverulega háttað. Og þetta mætti gjarnan vera til fyrirmyndar ýmsum öðrum embættismönnum.

Þessi athugun leiddi í ljós að gífurlegur verðmunur er á algengum neysluvörum hér á landi og í London, og kom fram að verð væri jafnvel þrisvar til fjórum sinnum hærra hér en er í London. Ég ætla að rifja upp þau dæmi sem tekin voru. Það er nokkuð umliðið síðan þessi þáttur var og rétt að minnast á höfuðatriðin og þá alveg sérstaklega hvernig verðmyndun er hér, samanborið við hvernig hún er á þessum stað sem tekinn er til samanburðar, þ.e.a.s. í London.

Það eru aðallega tvö dæmi sem um er að ræða. Í öðru tilvikinu er um að ræða innkaupsverð í Englandi, og ég vil leggja áherslu á að þetta innkaupsverð í Englandi er beint frá framleiðanda, en ekki frá heildsölu, þ.e.a.s. það er fullkominn samanburður og jafn samanburður af því að íslenskir heildsalar kaupa vöruna af nákvæmlega sama aðila og þeir bresku gera. Í dæminu, sem tekið var, var innkaupsverð heildsala hér í Reykjavík á tiltekinni vöru 45 kr., sem hann greiddi fyrir þessa vöru, en heildsalar í London greiddu 38 kr. fyrir sömu vöru. Mismunurinn á þessu er 7 kr. eða 18.4% sem íslenski heildsalinn kaupir vöruna hærra verði en sá breski frá sama framleiðanda. Síðan koma ýmsir liðir sem mynda útsöluverð í verslunum hér í Reykjavík og í London. Ég ætla ekki að fara nákvæmlega í þetta allt saman, en munurinn, sem verður þegar varan er komin í verslun annars vegar hér í Reykjavík og hins vegar í London, var í þessu tilvíki, að útsöluverð í London var 49 kr., svipað og innkaupsverð íslenska heildsalans á þessari vöru í London, en útsöluverðið í Reykjavík er hins vegar 207 kr. á þessari vöru. Útsöluverðið hér í Reykjavík borið saman við London er þá rúmlega fjórfalt hærra. Af eðlilegum ástæðum hlýtur það að vera eitthvað hærra, en þessi gífurlegi munur er auðvitað allrar athygli verður.

Í hinu dæminu, sem tekið var, var innkaupsverðið í London hjá íslenska heildsalanum 47 kr., en 39 kr. hjá þeim breska, og ég vil ítreka að hér er ekki um innkaup frá heildsölu að ræða, heldur beint frá framleiðanda, þannig að báðir standa jafnt að vígi. Þarna er munurinn á innkaupsverðinu á þessum hlut 8 kr. eða 20.5% hærra hjá hinum íslenska en þeim breska. Útsöluverð þessarar vöru var í London 50 kr. eða lítið eitt hærra en innkaupsverð íslenska heildsalans á vörunni og útsöluverðið hér 141 kr. eða tæplega þrefalt hærra en útsöluverðið í verslunum í London.

Ég held að það sé aðallega þrennt í þessari verðmyndun og þessum gífurlega verðmismun sem sérstaka athygli vekur. Það er þá í fyrsta lagi mismunur á innkaupsverðinn frá framleiðandanum, í öðru lagi álagning í heildsölu og smásölu hér annars vegar og hins vegar í London og svo í þriðja lagi þáttur ríkissjóðs í þessari verðmyndun.

Í fyrra dæminu, sem ég nefndi, er heildsöluálagningin á þessari vöru, sem íslenski heildsalinn kaupir á 45 kr. í Bretlandi, 14 kr., en 3 kr. í Bretlandi á sömu vöru. Þarna er um nærri fimmföldun að ræða. Smásöluálagningin hér er 48 kr., en aðeins 8 kr, í London, og þarna er um að ræða sexföldun á smásöluálagningunni í krónutölu. Það hlýtur að vera augljóst að hér er um ákaflega þýðingarmikið atriði að ræða. Í hinu dæminu er þetta ákaflega svipað. Ég ætla ekki út af fyrir sig að fara að sundurliða það, en dæmin eru mjög svipuð í báðum tilvikunum, nokkurn veginn þau sömu.

En síðan kemur þriðji þátturinn í þessu og það er þáttur ríkissjóðs, þ.e.a.s. aðflutningsgjöld, tollar, vörugjald og svo söluskatturinn. í fyrra tilvikinu, vörunni sem kostaði í innkaupsverði 45 kr. sem ísl. heildsalinn greiðir fyrir vöruna frá framleiðandanum í Bretlandi, þar er þessi þáttur ríkissjóðs í verðmynduninni 88 kr. Hann er enginn í breska dæminu, varan er algjörlega tollfrjáls. Þau gjöld, sem ríkissjóður tekur af þessari vöru, eru nærri tvöfalt útsöluverð sömu vöru úr verslun í London. Í hinu dæminu er þetta ákaflega svipað, mjög svipað, og þarf ekki að rekja það frekar.

Þessir þrír þættir, sem ég hef rakið, sýna mjög glögglega hvernig verðmyndun þessarar vöru er og að við búum hér, samanborið við neytendur í London, við ákaflega ójöfn kjör í þessu efni. Og ég vil undirstrika að hér er ekki um neinn lúxusvarning að ræða, heldur neysluvörur, matvörur. Að vísu má vera að í öðru dæminu sé um býsna háan tollflokk að ræða, en hvað um það, hér er sem sagt um matvörur að ræða.

Það hafa ýmsar skýringar verið gefnar á þessum mikla mismun. Sumar þeirra liggja í augum uppi, svo sem þáttur ríkissjóðs sem ég hef hér nefnt, þ.e.a.s. þetta sjálfvirka skattheimtukerfi ríkissjóðs af nauðsynjavörum almennings. Sú trygging, sem ríkissjóður hefur í þessum efnum, er svo vel niður njörvuð eða svo tryggð, að hér er ekki aðeins um það að ræða að þessir skattar fylgi verðlaginu, heldur er þessi aðferð skattheimtunnar af nauðsynjavörum stór þáttur í mögnun verðbólgunnar. Og þetta gerist á sama tíma og ríkisstj. telur sig vera í harðri baráttu gegn verðbólgunni. Máski er þetta ein aðferðin En það er athyglisvert að ríkissjóður tryggir sig á þennan hátt, á sama tíma og verðtrygging kaupgjalds hefur verið afnumin með lögum frá Alþ. Þó að tekist hafi í litlum mæli í síðustu samningum að endurheimta verðtryggingu á kaupi, þá er ákaflega fjarri því að um sama öryggi fyrir launafólk sé að ræða og ríkissjóð í þessu efni, enda er ekki nokkur vafi á að einmitt þetta tvennt, þessi geysilega skattheimta annars vegar og hins vegar aðlaununum er haldið niðri og það með lagaaðgerðum, á sinn stóra þátt í því að Ísland er nú orðið eitt mesta láglaunasvæði í Evrópu.

Aðrar skýringar á þessum geysilega verðmismun hér og í London, — ja. ég vil aðeins segja að þær eru misjafnlega haldlausar, og ég ætla ekki að fara nánar inn á bær brautir.

Í þeim umr., sem fram hafa farið og fram fóru í sambandi við þennan sjónvarpsþátt. kom berlega fram og meira að segja frá innflytjendum sjálfum hreinlega, að áhugi þeirra kynni að vera heldur lítill til að kaupa inn vörur á lágu verði því að álagning hér væri í prósentum og því hærra sem innflutningsverðið væri því meira fengju þeir í eigin vasa. Nákvæmlega hið sama blasir við hvað ríkissjóð snertir. Það skyldi þó ekki vera að áhuginn væri ekki heldur allt of mikill þar til þess að kaupa vörur inn á sem hagkvæmustu verði.

Ég tel að hér sé um mjög alvarlegt mál að ræða og þetta verði að rannsaka betur. Í sambandi við þetta er líka rétt að taka það fram, og þarf ekki að hafa mörg orð um það, að kaupmannastéttin telur að þær aðferðir, sem nú eru hafðar við verðlagsákvarðanir og verðlagsefrirlit, séu forkastanlegar og eigi ekki að vera og það eigi að afnema a.m.k. að miklu leyti verðlagsákvarðanir, þ.e.a.s. halda kannske einhverju verðlagseftirliti, en gefa álagninguna frjálsa. Það er fróðlegt að einmitt í þessum sama sjónvarpsþætti kom fram dæmi þar sem álagningin er frjáls. Það var tekið dæmi af leikföngum. Það má vera að álagning sé þar hærri en væri hægt að reikna með að hún yrði ef öll álagning væri frjáls. En í þessum vöruflokki kom í ljós að álagningin er ekki nálægt 30%, eins og hún er í þeim dæmum sem ég hér nefndi, heldur 130% — heildsölu- og smásöluálagning. Þannig er málum báttað þegar álagningin er frjáls. Nú mætti kannske í þessu efni, vegna þess að jól eru nú í nánd, láta sér detta í hug hvort þessi fæðingarhátíð frelsarans eða hátíð barnanna og hvaðeina sem hún er nú kölluð, hvort hún muni ekki fyrst og fremst vera orðin gróðahátíð kaupmannastéttarinnar.

Annar þáttur till. okkar er um að rannsaka sérstaklega áhrif umboðslauna í vöruverði, gjaldeyrisskil á umboðslaunum og hversu öruggt eftirlit sé nú með gjaldeyrisnotkun til vörukaupa. Um það vil ég aðeins segja að það hefur lengi legið hér í landi mjög magnaður orðrómur um að ekki væri allt með felldu varðandi umboðslaun af innflutningi og gjaldeyrisskil af umboðslaunum. Ég ætla út af fyrir sig ekki að fullyrða mikið um sannleiksgildi þessa orðróms, en minna mætti kannske á máltækið sem segir að sjaldan ljúgi almannarómur. En aðeins vildi ég leggja mjög ríka áherslu á að þessi þáttur verði ekki síður kannaður til hlítar heldur en þeir þættir sem ég hef hér áður minnst á.

Það mál, sem hér er hreyft, varðar allan almenning mjög mikið og þá ekki hvað síst í því gífurlega dýrtíðar- og verðbólguflóði sem í okkar landi er. Og almenningur á mjög ríka kröfu á að máli sem þessu verði fylgt eftir með ítrustu rannsókn. Því leggjum við fl.m. til að málið verði rannsakað af nefnd þm. sem hafi fullt vald til að taka skýrslur af opinberum aðilum og öðrum sem málið geta upplýst.

Ég legg svo til, herra forseti, að að loknum umr. núna verði umr. frestað og till. vísað til hv. fjh.- og viðskn.