14.12.1976
Sameinað þing: 31. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1172 í B-deild Alþingistíðinda. (824)

1. mál, fjárlög 1977

Frsm. minni hl. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Að jafnaði hafa fulltrúar minni hl. fjvn. talið ástæðu til að fara nokkrum orðum um störf n. að afgreiðslu fjárlagafrv. Vegna þess með hve miklum endemum var staðið að afgreiðslu mála í fyrra urðu um hana meiri. umr. en endranær. Af ýmsum orsökum væri e.t.v. ástæða til að taka upp þráðinn nú vegna þess að enn er margt að athuga við störf n. Tíminn vill nýtast illa. Of langur tími fer til að hlusta á aðila sem koma á fundi n. ár eftir ár, t.d. til að biðja um hærri styrk til félagssamtaka, en of lítill tími gefst síðan til raunhæfra umr. innan n. um einstök erindi og málefni og jafnvel hin veigamestu. Ég vil þó ekki kenna núv. meiri hl. n. um þessi atriði. Þetta er sama vandamálið, hverjir sem fara með stjórnina, þótt misjafnlega takist til einstök ár.

Við í minni hl. fjvn. höfum ekki nema allt hið besta að segja um samskiptin við þá sem skipa meiri hl. n., og ég vil fyrir hönd okkar stjórnarandstæðinga í fjvn. flytja samstarfsnefndarmönnum okkar þakkir fyrir samstarfið og þá sérstaklega formanni n., Jóni Árnasyni, fyrir sanngirni og réttsýni í okkar garð í öllum hans störfum.

Reynslan hin síðari ár sýnir að þótt allir nm. leggi sig fram til að greiða fyrir störfum í n., þá endist tíminn frá þingsetningu illa og of lengi dregst að unnt sé að hefja afgreiðslu erinda og of litlum tíma er unnt að verja til að kryfja mál til mergjar eða yfirleitt ræða einstök erindi. Áður gafst þó tími til þess að lesa öll erindi frá orði til orðs. Nú í haust hefur verið látið nægja í nær öllum tilvikum að geta einungis um efni þeirra í örfáum orðum, en erindin hafa að sjálfsögðu verið nm. tiltæk og í því sambandi vil ég lýsa ánægju minni yfir því að fjvn. hefur fengíð mjög hæfan starfsmann sem ætlast er til að verði fastur starfsmaður n. og fjárlaga- og hagsýslustofnunar allt árið. Störf hans í haust lofa mjög góðu.

Þegar haft er í huga í hvert horf hefur sótt um afgreiðslu mála í fjvn. og hvernig að er kreppt varðandi afgreiðsluna, þá verður sannleikurinn réttast orðaður með því að segja að n. hefur upp á siðkastið í raun engan veginn verið tilbúin til að leggja fjárlagafrv. fyrir til 2. umr. þegar hún neyðist hreinlega til þess vegna þess að komið er fast að jólum. Ég árétta enn þá skoðun, sem ég hef áður látið í ljós, að úr þessu verði naumast bætt með öðrum hætti en þeim, að verulegur hluti viðtala, a.m.k. við embættismenn í ríkiskerfinu, fari fram áður en þing kemur saman, á hálfum mánuði til þremur vikum áður en þing hefst. Þetta á að vera unnt enda þótt fjárlagafrv. hafi þá ekki verið lagt fram og var reynt í nokkrum mæli 1974 vegna þess að þing hófst þá ekki fyrr en 29. okt. Þetta gafst vel og bjargaði því að mínu mati að þá var unnt að afgr. fjárl. fyrir jól.

Enn hefur ekki verið lögð fram endurskoðuð tekjuáætlun sem byggð væri á nýrri upplýsingum um þjóðhagshorfur en fyrir lágu þegar fjárlagafrv. var samið. Fulltrúar Þjóðhagsstofnunar lögðu s.l. laugardag fram gögn um horfur 1977 og framvindu 1976, en að sjálfsögðu hefur nm. ekki gefist tími til að kanna þessi gögn sem skyldi, og þar sem ekki er ljóst á þessu stigi hver er skv. nýrri þjóðhagsspá áætluð staða ríkissjóðs á næsta ári mun minni hl. fjvn. ekki á þessu stigi málsins flytja brtt. við frv.

Milli 2. og 3. umr, verður nú mjög skammur tími til afgreiðslu þeirra mörgu mikilvægu mála og málafokka sem óafgreidd eru, enda þótt ekki fari jafnhrapalega og í fyrra þegar einungis tveir starfsdagar voru milli umr. Þeir gætu orðið þrír nú ef 3. umr. fer fram fyrir helgi, en ella fjórir til fimm. En mörg mjög veigamikil mál biða ákvörðunar n. milli 2. og 3. umr. Fyrir fáum árum hefðu þetta verið talin óhugsandi vinnubrögð og óhæf aðstaða fyrir nm.

Annar þáttur þessa máls, hvernig staðið er að afgreiðslu fjárlaga nú, er sá, að varðandi veigamikla þætti fjárlagafrv. hefur fjvn. við störf sín fyrir afgreiðslu málsins til 2. umr, engin þau gögn séð sem boðað var í grg, frv, að yrðu lögð fyrir Alþ. í haust.

Í grg. með fjárlagafrv. segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Lánsfjáráætlun 1977 verður lögð fram á Alþ. fyrir eða um miðjan nóv.“ — og hæstv. forsrh. áréttaði þetta í stefnuræðu. Þarna er ekki verið að slá neina varnagla: Lánsfjáráætlunin verður lögð fyrir Alþ. fyrir eða um miðjan nóv. Þegar fjvn. var að ljúka störfum fyrir 2. umr. vegna þess að sá tími, sem hún hafði til starfa, var liðinn, bólaði enn ekkert á lánsfjáráætluninni og hún hefur ekki enn séð dagsins ljós.

Starfsmannaskrá á skv. lögum að fylgja fjárlagafrv. Það var látið undir höfuð leggjast, en hæstv. fjmrh, hét því í fjárlagaræðu sinni að hún yrði afhent þm. eftir u.þ.b. vikutíma þar frá. Það hafa reynst æðimargir dagar í vikunni hjá hæstv. ráðh., því að efndirnar eru þær að starfsmannaskráin er enn ekki komin fram.

Eins og okkur er í fersku minni gafst hæstv. ríkisstj. upp á því í vor að afgr. vegáætlun til 4 ára eins og lög gera ráð fyrir. Hagur Vegasjóðs var í slíku óefni að einungis tókst að berja saman bráðabirgðaáætlun fyrir árið í ár og þá með þeim hætti að taka fé af sérstöku skuldabréfaláni til Norður- og Austurvegar og lána það til almennrar vegagerðar. Slæmt er að hafa ekki áætlun til 4 ára, en verra er að byrja nýtt ár án þess að hafa nokkra vegáætlun fyrir það ár. Þess vegna voru settar fram heitstrengingar í grg. fjárlagafrv. varðandi þetta mál. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Gert er ráð fyrir afgreiðslu vegaáætlunar samtímis afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1977, og mun samgrh. leggja hana fram í nóv. n.k.“

Þarna er kveðið skýrt að orði eins og um lánsfjáráætlunina: Vegaáætlunin lögð fram í nóv. og afgr. með fjárl. En það er sama sagan um efndirnar. Vegáætlun var ekki lögð fram í nóv. og hún hefur ekki verið lögð fram enn.

Í grg. með fjárlagafrv. segir að frv. að nýjum tollskrárlögum í samræmi við áætlanir um tolltekjur í fjárlagafrv, verði lagt fram fljótlega eftir þingbyrjun. Það frv. var lagt fram fyrir nokkrum dögum, líklega um viku af desember. Fjvn: mönnum gefst tæpast nokkur tími til að fylgjast með eða hafa áhrif á afgreiðslu þess. En hvað um það, þetta frv. hefur þó verið lagt fram og verður afgr.

Í fjárlagafrv. er greint frá þeirri breytingu á uppsetningu væntanlegra fjárlaga, að áætlaður kostnaður af ríkisspítölum er færður í A-hluta fjárlagafrv, og reiknað með að ríkið kosti þessar stofnanir að öllu leyti. Þessu fylgir breyting á skiptingu kostnaðar af sjúkratryggingum, og jafnframt er óljóst hvað hæstv, ríkisstj. ætlar sér með innheimtu sjúkratryggingagjalds og hvernig ákvörðun um hlut sveitarfélaga í því efni fléttast inn í breytta skipan á greiðslu kostnaðar af sjúkratryggingum. Jafnframt er í grg. fjárlagafrv, boðað að endurskoðaðar verði reglur um þátttöku hins opinbera í kostnaði af hinum ýmsu þáttum heilbrigðisþjónustunnar, trúlega í þá átt að þeir, sem á slíkri þjónustu þurfa að halda, greiði hana sjálfir í ríkara mæli en nú. Engar nánari skýringar eru gefnar á þessum efnisatriðum. En enn eitt fyrirheitið er sett fram í grg, fjárlagafrv., svo hljóðandi með leyfi hæstv. forseta:

„Áður en endanleg afgreiðsla fjárlagafrv. fer fram mun heilbr.- og trmrn. leggja fram till. um nauðsynlegar breytingar á tryggingalöggjöf sem tryggi fyrirhugaða nýskipan.“

Þessar till. hafa enn ekki verið lagðar fram, og ég veit ekki hvort nokkrar viðræður hafa farið fram við forsvarsmenn sveitarfélaga í landinu um þessi mál, en þau varða sveitarfélögin miklu. Fjvn. hefur enn ekki fengið nokkrar minnstu upplýsingar um þessi efni. N. hefur því enga aðstöðu haft til þess að kanna kosti eða galla fyrirhugaðrar breytingar. Breytingar hafa verið gerðar í fjárlagafrv., og enginn, sem á að afgr. frv., virðist vita neitt meira. Þm. vita ekkert um þetta, forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins ekkert, tryggingaráð ekkert. Það hefur einungis verið ákveðið með uppsetningu fjárlagafrv. að breyt. skuli gerðar, og eftir fáa daga er ætlunin að slá föstum þeim breyt. sem enginn virðist vita hverjar í rauninni verða eða hvernig þær t.d. samrýmast hagsmunum hinna ýmsu sveitarfélaga í landinu. Það kemur t.d. fram í grg. fjárlagafrv., að miðað við fyrirhugaðar breytingar muni sveitarfélög eftirleiðis bera um fjórðung sjúkrakostnaðar annars staðar en á ríkisspítölum. Enginn veit hvaða áhrif þetta hefur innbyrðis milli sveitarfélaga sem hafa mismunandi aðstöðu til að leggja sjúklinga inn á ríkisspítala, en samkv. þessum áætlunum mun það ekki kosta sveitarfélögin neitt að hafa sína sjúklinga á ríkisspítölum, en fjórðung daggjalds að vista þá á öðrum sjúkrastofnunum. Aðstaða sveitarfélaga til að koma sjúklingum inn á ríkisspítala er að sjálfsögðu mjög mismunandi, en ætlunin er að fella niður kostnað sveitarfélaganna, ef ríkisspítalar eiga í hlut, eins og ég áðan sagði, en hækka hlut sveitarfélaganna ef sjúklingar eru lagðir inn á aðrar sjúkrastofnanir.

Þetta eru að sjálfsögðu fráleit og fordæmanleg vinnubrögð, að ætla að afgr, mikilsverð mál með því að byrja á því að slá niðurstöðunni fastri og kanna síðan rök og forsendur þegar ákvörðunin er þegar tekin með afgreiðslu fjárlaga á þann veg sem hér er lagt til.

Á sama hátt á, eins og ég áðan nefndi, að afgr. málefni vegasjóðs án þess að vegáætlun fyrir næsta ár hafi verið sýnd, rædd eða afgr. á Alþ. Það er auðvitað hlutverk ríkisstj. að standa þannig að framlagningu mála með skipulögðum vinnubrögðum að viðunandi sé fyrir þm., hver svo sem afstaða þeirra er til till. ríkisstj. En þannig hefur verið staðið að undirbúningi varðandi hin veigamestu frv. og áætlanir sem tengjast afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár, að með öllu er óviðunandi. Allt sýnir þetta hver seinagangur og ráðleysi ríkir í starfsháttum hæstv. ríkisstjórnar. Yfirlýsingar eru gefnar í tíma og ótíma um hvernig að málum verði staðið, en ekkert stenst. Ákveðnir þættir fjárlagagerðar eru byggðir á ákvörðunum um breyt. á tilteknum lögum, en frv. um þær breyt. hafa ekki séð dagsins ljós þegar fjvn. er að ljúka störfum. Áætlanir, sem fjárlagagerð á að miðast við í tilteknum atriðum, fyrirfinnast ekki heldur. Yfirlýsingar í grg. reynast einskis virði, yfirlýsingar ráðh. markleysa.

Tökum t.d. yfirlýsingar hæstv. fjmrh. Hann lýsti því yfir við afgreiðslu fjárlaga 1974 að fyrir þá fjárlagaafgreiðslu yrði lokið setningu nýrra laga um námslán og námsstyrki. Þau lög voru ekki sett 1974, ekki 1975, heldur 26. febr. 1976.

Eins og ég áðan greindi lýsir hæstv. ráðh. yfir því í grg. fjárlagafrv. að lánsfjáráætlun verði lögð fram fyrir eða um miðjan nóv. Hún hefur enn ekki sést. Hann lýsti því einnig yfir í fjárlagaræðu að starfsmannaskrá, sem á lögum samkv. að fylgja fjárlagafrv., yrði afhent þm. eftir um það bil vikutíma. Hún hefur orðið löng vikan sú. Um ný skattalög sagði hæstv. fjmrh. við 3. umr. fjárlaga 1974 að starfshópar mundu skila ákveðnum niðurstöðum, till. eða valkostum á vorþingi 1975, þannig að unnt yrði að taka afstöðu til nýrra skattalaga í flestum eða öllum greinum á þinginu 1974–1975 eða á þinginu 1975–1976. Slíkar hugmyndir um breyt. á skattalögum voru loks sendar þingflokkunum sem trúnaðarmál s.l. vor, vorið 1976, og tekið fram að ætlunin væri að leggja þær fram á Alþ. fyrir þinglok í vor. Það var ekki gert. Nýjar og verulega breyttar till. voru sendar þingfl. nú í haust, en sagt er að þeim hafi nú verið umturnað í herbúðum stjórnarflokkanna.

Í grg. fjárlagafrv. segir hæstv. fjmrh., að fyrir afgreiðslu fjárlaga verði flutt frv. um breyt. á lögum um tekju- og eignarskatt, og í fjárlagaræðu sagði hæstv. ráðh. að að því væri stefnt, að nýtt frv. yrði lagt fyrir Alþ. á næstunni. Þetta var 28. okt. Hæstv. ráðh. greindi frá innihaldi frv. í einstökum atriðum. Hvað eftir stendur í þeim efnum eftir að stjórnarflokkarnir hafa velt málinu á milli sín í allt haust er ekki vitað, en frv. sést ekki og hæpið hvað ákvæði þess gætu gilt um skattlagningu á næsta ári. Það er því æði-óljóst við hvað á að miða í fjárlögum næsta árs varðandi heildarupphæð tekjuskatts og eignarskatts.

Í fjárlagaræðu í fyrra sagði hæstv. ráðh. að tekinn yrði upp sá háttur að láta stjórnarfrv. fylgja útreikninga og mat á þeim útgjöldum sem stjórnarfrv. hefðu í för með sér, bæði í bráð og lengd, eins og hæstv. fjmrh. orðaði það. Ekkert bólar á efndum á þessu sviði fremur en öðrum, og ég hef reynslu af því að ekki er einu sinni til neins að spyrja um þennan kostnað varðandi stjórnarfrv. sem lögð eru fram. Svörin fást ekki.

Allar þessar ónákvæmu og marklausu yfirlýsingar hæstv. ráðh. setja mark sitt á fjárlagaafgreiðsluna og hindra að hún geti farið fram með þeim hætti sem eðlilegt er.

Í sambandi við allar yfirlýsingar hæstv. ráðh., sem aldrei standast, vil ég ráðleggja honum og reyndar fleiri ráðh. að hafa í huga það sem haft er fyrir satt um varphænurnar. Þær, sem helst er eitthvert gagn í, gagga ekki fyrr en þær eru búnar að verpa.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um hver vinnubrögð eru viðhöfð við afgreiðslu fjárlaga nú. Það þyrfti vissulega að vera á ýmsan hátt betur staðið að málum og er þá ekki allt, sem svo háttar um, nýtilkomið eða bundið þeim meiri hl. sem nú ræður málum, heldur vandamál sem lengi hefur verið við að etja þar sem er tímaskortur við afgreiðslu svo fjölþætts verkefnis sem fjárlagagerð er. Það er áreiðanlega sameiginlegur áhugi allra nm. að finna ráð til þess að bæta þar úr með breyttum starfsháttum. En fráleit frammistaða hæstv. ríkisstj. varðandi lagasetningar og áætlanagerð, sem fjárlagafrv. á að byggjast á, setur sérstakt mark á afgreiðslu fjárlaga nú og er með þeim hætti að óviðunandi er. Þetta finna jafnt þeir meirihlutamenn sem við hinir.

Við 1. umr. um fjárlagafrv. ræddi ég allítarlega um frv. í heild og þróunina í ríkisfjármálum í tíð núv. ríkisstj. og ég mun því ekki eyða miklum tíma í að endurtaka það nú. Miðað við þær brtt. sem fjvn. hefur lagt fram fyrir 2. umr., hækka áætluð útgjöld ríkissjóðs frá núgildandi fjárlögum úr 58800 millj. kr. í ríflega 84 þús. millj. á næsta ári. Þess ber þá að geta að í áætluðum útgjöldum næsta árs er reiknað með umsömdum launahækkunum sem koma til framkvæmda á næsta ári, en sá útgjaldaþáttur nemur 1555 millj. kr. í A-hluta fjárlaga. Nú hefur á hinn bóginn orðið umfram grundvöll fjárlagafrv. hækkun launa á þessu ári vegna svokallaðs rauðs striks í kjarasamningum og má ætla að viðbótarútgjöld af þeim sökum á næsta ári nemi um 1300 millj. kr. Þessi líður er ekki í frv. eða í brtt., sem lagðar hafa verið fram svo að í samanburði milli ára vantar um 250 millj. kr. á að þessir tveir þættir jafnist út. Olíugjald var ekki í útgjaldahlið á þessu ári, en er áætlað 1600 millj. kr. á næsta ári. Að öllu þessu athuguðu má ætla, að eins og mál standa í dag, en margir mikilsverðir málaflokkar eru óafgreiddir í n., verði hækkun útgjalda ríkissjóðs á næsta ári miðað við núgildandi fjárlög nálega 40%. Þessi útgjaldahækkun verður að sjálfsögðu sótt í vasa skattþegna. En áætlað er á hinn bóginn að launahækkanir í ár verði 30%.

Almenn verðlagshækkun á þessu ári verður 30-32%. Hækkun launa nálega 30%, en útgjöld ríkissjóðs eiga að aukast um nálega 40%. Þetta segir sína sögu. Heildarmyndin er því þessi: Útgjöld ríkissjóðs aukast umfram verðlags- og launahækkanir, og það eru rekstrargjöldin sem hafa þanist út, en framkvæmdaliðirnir rýrnað að raungildi. Þetta hefur verið einkenni fjárlaga hægri stjórnarinnar og það fjárlagafrv., sem hér er til umr., er þar ekki undantekning þar sem liðurinn önnur rekstrargjöld hækkar í frv. um 58.2% þegar almennt verðlag hækkar um nálega 30%.

Útfærsla rekstrarliða í tíð núv. ríkisstj. hefur verið svo langt umfram almennar verðlagshækkanir á sama tíma að liðurinn önnur rekstrargjöld væri 4000 millj. kr. lægri í fjárlagafrv. n.d ef þessi liður hefði einungis hækkað til jafns við almennt verðlag í landinu síðan 1974 þegar hægristjórnin tók við völdum. Vaxtagjöld í A- og B-hluta fjárlaga hækka um 3809 millj. kr. á einu ári eða um 83.4%. Þegar stóraukin skattheimta ríkisins hverfur þannig í útþenslu rekstrargjaldanna er hlutur verklegra framkvæmda, einkum þeirra sem mestu skipta sveitarfélögin í landinu, að sama skapi rýrður. Þetta er sú heildarmynd sem við blasir þegar hæstv. ríkisstj. er að afgreiða þriðju fjárlög sín.

Ljóst er að það stórfellda stjórnunarslys, sem rekstur ríkissjóðs var á árinu 1975, markar afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1977. Sá skuldaslóði, sem ríkissjóður dregst með vegna þeirrar stórfelldu vanhæfni sem sýnd var við stjórn fjármála ríkisins á árinu 1975, hafði margþættar afleiðingar. Afleiðingarnar af rekstrarhalla sem nam 7500 millj. kr. á því ári, sem svarar til 10 þús. millj. kr. nú, urðu stórfelld skuldasöfnun, stóraukin vaxtagjöld og meiri verðbólga innanlands en ytri aðstæður gáfu tilefni til, þar sem verðhækkanir á innflutningsvörum námu á árinu 1975 einungis 5% í erlendri mynt og voru 7 sinnum minni en á árinu 1974. En vísitala framfærslukostnaðar hækkaði þrátt fyrir það um hvorki meira né minna en 43.5% frá nóv. 1974 til nóv. 1975 og vísitala vöru og þjónustu um 46.1%.

Stórfelld skuldasöfnun ríkissjóðs hjá Seðlahankanum á árinu 1975 og óhemjulegur viðskiptahalli hefur þær afleiðingar að með síauknum skattheimturáðstöfunum ríkissjóðs til að hafa upp í hallareksturinn frá árinu 1975 er haldið fyrir almenningi þeim kjarabótum sem batnandi ytri aðstæður gefa sérstakt tilefni til að komið verði í hlut launafólks eftir stöðuga kjaraskerðingu í tíð núv. ríkisstjórnar.

Það er aðeins í einu atriði sem nokkuð jákvætt hefur hlotist af því stórfellda slysi sem stjórnunin á ríkissjóði var á árinu 1975. Svo griðalegur yfirdráttur ríkissjóðs í Seðlabankanum sem þá átti sér stað er að sjálfsögðu óþekkt fyrirbæri hjá þjóðum sem teljast komnar til vits og ára í stjórnun efnahagsmála. Þessi frammistaða kallaði á það að jafnt Seðlabankinn sem erlendir lánardrottnar, sem borguðu brúsann, hlutu að krefjast þess að hæstv fjmrh. vissi a.m.k. hvað skuldasöfnun ríkissjóðs líði, en allt árið 1975 óð hann í villu og svima um stöðu ríkissjóðs, eins og áður hefur verið rakið hér á hv. Alþingi, þar sem beinlínis hefur verið vitnað til staðhæfinga hans sjálfs um áætlaða Stöðu ríkissjóðs, fyrst við setningu brbl. um vörugjald, síðan í grg. fyrir fjárlagafrv. fyrir árið 1976, þá í fjárlagaræðu, síðan við framlagningu frv, um vörugjald í des. í fyrra, þá í sérstakri fréttatilkynningu frá fjmrn. og siðast við framlagningu ríkisreiknings þegar raunveruleikinn blasti við. Allan þann tíma voru hugmyndir hæstv. ráðh. um stöðuna að breytast. Hann henti engar reiður á því hvað var að gerast. Hugmyndirnar breyttust frá hallalausum rekstri við setningu brbl. um vörugjald í júlí og í 7500 millj, kr. raunverulegan halla loks þegar reikningarnir lágu fyrir. Þessi ósköp hafa sem betur fer leitt til þess að eftir kröfu lánardrottna hafa nú verið gerðar ráðstafanir til að auðvelda hæstv. ráðh. að fylgjast með hvað ríkissjóði líður og að hafa einhverja stjórn á hlutunum. Það er þakkarvert. En þessi reynsla var æðidýru verði keypt. Það dýra verð er almenningur enn að greiða og er ætlað að greiða á næsta ári þegar hæstv. ríkisstjórn ætlar augsýnilega að haga svo málum að sá efnahagsbati, sem fellur þjóðinni í skaut vegna hækkandi afurðaverðs og batnandi víðskiptakjara, verði ekki til þess að bæta hinn stórskerta kaupmátt launa, heldur fari til greiðslu skakkafallanna af ríkisfjármálaslysinu mikla 1975.

Það ráðslag, sem þá var viðhaft, er sá myllusteinn sem ríkisstj. hefur hengt um háls launafólks í landinu og er snar þáttur í síauknum skattheimtukröfum ríkisstj., samtímis því að framlög til samfélagslegra framkvæmda og þjónustu dragast saman að raungildi og lífeyrir gamalmenna og öryrkja rýrnar að kaupmætti.

Þrátt fyrir að ytri aðstæður yrðu betri á þessu ári en gert var ráð fyrir við afgreiðslu núgildandi fjárlaga fór svo s.l. vor, að horfur voru á rekstrarhalla ríkissjóðs á þessu ári, og enn var gripið til þess að hækka neysluskatta. Vörugjald, sem var 10%, var í maí hækkað í 18% og skyldi sú hækkun gilda allt árið enda þótt í fjárlögum væri tekjuöflun miðuð við að gjaldið lækkaði í 6% hinn 1. sept. Þessi aukna skattheimta og þær auknu tekjur, sem ættu að fást vegna betri ytri aðstæðna en gert var ráð fyrir, duga væntanlega til þess að rekstur ríkissjóðs verði hallalaus á þessu ári. Vonandi verður meira að marka áætlanir í þessu efni nú en í fyrra þótt e.t.v. sé þess ekki að vænta að þessi tekjuauki dugi til þess að skila þeim rekstrarafgangi sem núgildandi fjárlög gera ráð fyrir og átti að verja til þess að grynna aðeins á skuldum ríkissjóðs við Seðlabankann.

Neysluskattar hafa hækkað svo í tíð núv. ríkisstj. að samkvæmt því fjárlagafrv. sem hér er til umr., er gert ráð fyrir því að skattar af innflutningi og af seldum vörum og þjónustu og vörugjaldi verði á næsta ári 45 000 millj. kr. hærri en í fjárlögum fyrir árið 1974. Þessi gjöld verða á næsta ári sem nemur 200 þús. kr. hærri á hvert mannsbarn í landinu en á fjárlögum 1974.

Þessi gífurlega skattheimta með neyslusköttum, sem bitnar þyngst á barnafjölskyldum og lífeyrisþegum, samtímis því sem gróðafyrirtækin sleppa við skatta, er ein höfuðástæðan fyrir sírýrnandi kaupmætti launatekna Á sama tíma eru nær 500 fyrirtæki í Reykjavík tekjuskattslaus með öllu þótt velta þeirra hafi á s.l. ári numið 40 000 millj. kr.

Það hefur komið fram að undanförnu að innkaupsverð innfluttrar vöru er í sumum tilvikum hærra en útsöluverð í smásölu þar sem varan er keypt. Ofan á slíkt verð koma neysluskattar ríkissjóðs, 18% vörugjald og síðan heildsöluálagning ofan á vörugjaldið, síðan smásöluálagning ofan á vörugjaldið og heildsöluálagninguna og að lokum 20% söluskattur ofan á allt saman. Það er því ekki að undra þótt kaupmáttur almennra launa sé ekki beysinn, enda er það svo að af þeim gögnum, sem fjvn. fékk hjá Þjóðhagsstofnun s.l. laugardag, sést að þrátt fyrir krónutöluhækkun kaups hefur kaupmáttur kauptaxta verkafólks og iðnaðarmanna lækkað um 14.4% á árinu 1975 og lækkað enn um 4.3% til viðbótar á árinu 1970.

Stjórnarflokkarnir hafa jafnan haldið þeirri skoðun á lofti að nota hafi þurft stjórnunartímabil þeirra til að leiðrétta einhverja ógnarkaupmáttaraukningu launa frá kjarasamningum vorið 1974. En staðreyndin er sú, og sú niðurstaða sést af gögnum Þjóðhagsstofnunar að þótt sleppt væri að miða við kauphækkunina vorið 1974 og borin saman þróun kaupmáttar kauptaxta verkafólks og iðnaðarmanna frá 1973 og þróun þjóðartekna á mann samtímis, þá vantar á árinn 1976 12% upp á að kaupmátturinn hafi fylgt breytingum á þjóðartekjum á mann frá árinu 1973. En einmitt þjóðartekjur á mann eru sá mælikvarði sem stjórnmálaflokkar, sem hallir eru undir atvinnurekendur, vilja helst nota þar sem þeir neita að viðurkenna möguleikana á því að breyta tekjuskiptingunni sjálfri launþegum í hag. Það eru hins vegar aðrir aðilar í þjóðfélaginu sem hafa ekki hlotið svo skertan hlut á síðustu árum. Í gögnum Þjóðhagsstofnunar kemur nefnilega fram að hagur heildverslunar er sagður svipaður í ár og á árunum 1973 og 1974 Ef kaupmáttur launataxta verkafólks og iðnaðarmanna ætti á sama hátt nú að vera svipaður og hann var að meðaltali 1973 og 1974 þyrfti hann að hækka um tæplega 20%. Svo mjög hefur dregið í sundur með heildsölum og verkafólki í tíð hægri stjórnarinnar, og er þess þó getið í grg. frá Þjóðhagsstofnun að hagur heildverslunarinnar hafi verið enn betri 1975, en á því ári lækkaði kaupmáttur launa verkafólks um 14.4%.

Aukning neysluskatta í tíð núv. ríkisstj. í þeim mæli að innflutningsgjöld, skattar af seldum vörum og þjónustu og vörugjald verða á næsta ári 45 þús. millj. kr. hærri en á þessu ári, er einn aðalgrundvöllur kaupmáttarskerðingarinnar. Þessari miklu aukningu neysluskatta hefur þó ekki verið varið til þess að auka samfélagslegar framkvæmdir eða bæta kjör lífeyrisþega. Hún hefur farið til að mæta stórauknum rekstrarkostnaði, en rekstrargjöldin hafa hækkað langt umfram almennar verðlagsbreytingar, eins og ég áður hef greint.

Það hefur áður verið tekist á um þá stefnu að sækja fé með sköttum, annars vegar til að bæta hag ellilífeyrisþega og öryrkja og hins vegar til að viðhalda byggð og framleiðslu á stöðum sem fá ekki rönd við reist ef gróðahvötin ein eru látin vera leiðarljósið í þjóðfélaginu. En sú stefna er ekki stefna núv. hæstv. ríkisstj. Fjárveitingar, sem mestu varða sveitarfélög úti á landi, fjárveitingarnar til að tryggja viðgang byggðarlaga og íbúum þeirra þjónustu á við aðra landsmenn, hafa markvisst verið skornar niður að raungildi síðan hægri stjórn tók við völdum. Raungildi tryggingabóta rýrnar þrátt fyrir stóraukna skattheimtu. Ellilífeyrisþegar fá fyrst og fremst kveðjur frá ríkisstj. í síhækkandi verði brýnustu matvæla. Þá síðustu er verið að senda þessu fólki nú síðustu dagana fyrir jól.

Niðurgreiðslur vöruverðs hækka í fjárlagafrv. aðeins um 2.7% þegar tekjur ríkissjóðs aukast á næstu fjárlögum líklega um ríflega 40%. Á sama tíma hækka útflutningsbætur um 102%. 1800 millj. kr. verður varið til að fá þegna ríkustu þjóða heims til að kaupa íslenskar landbúnaðarvörur sem ellilífeyrisþegar og barnafjölskyldur hafa ekki orðið efni á að kaupa. Niðurgreiðslur, sem lækka vöruverð í landinu og hamla þannig gegn verðbólgu og koma mest barnafjölskyldum og elli- og örorkulífeyrisþegum að notum, eiga aðeins að hækka um 134 millj. kr., en útflutningsbætur um 910 millj. kr. Skattheimta er aukin þrátt fyrir bættar ytri aðstæður. Skattstofnarnir eru sjálfir auknir með 18% vörugjaldi sem á að vera í gildi allt næsta ár, en var þó aðeins 10% fjórðung þess árs sem nú er að líða. Gengið er látið síga þótt verðlag útflutnings verði á þessu ári 17–18% hærra en í fyrra í erlendri mynt. Er að undra þótt ríkisstj. gangi illa að kveða niður verðbólguna? Hún er stöðugt að blása í hana lífi.

Og mitt í þessari aukningu skattheimtu hefur Framsfl. stutt hæstv. forsrh. í þeirri stefnu hans að draga úr samneyslu, að skera s.l. tvö ár verulega niður allar þær samfélagslegu framkvæmdir sem mestu varða byggðarlögin úti á landi. Og Framsfl. styður hæstv. forsrh. dyggilega við að viðhalda þeim niðurskurði við afgreiðslu fjárlaga nú, enda þótt á næsta ári dragi verulega úr fjárþörf vegna raforkuframkvæmda og allar ytri aðstæður og efnahagshorfur séu nú betri en að undanförnu. Tekjur í fjárlagafrv. munu að öllum líkindum hækka eins og ég áðan sagði, um tæp 40% Heildarhækkun fjárveitinga til verklegra framkvæmda í A- og B- hluta nemur 5%, hækkar úr um það bil 19 milljörðum kr. í um það bil 20 milljarða kr. Framkvæmdakostnaður við rafvirkjanir og veitur lækkar um 1700 millj. kr. En þrátt fyrir þetta gleypir rekstarútfærslan svo algjörlega tekjuaukann að fyrri niðurskurði er enn haldið. Kenning hæstv. forsrh. um minnkun samneyslunnar skal útfærð til hins ítrasta, og ekki stendur á Framsfl. að yfirgefa byggðastefnuna.

Á stjórnartíma hægri stjórnarinnar, þegar ríkt hefur stefna minnkandi samneyslu, niðurskurður verklegra framkvæmda og félagslegrar þjónustu, hefur hlaðist upp sívaxandi vandi fyrir aðila sem þurfa á að halda þjónustu og starfsemi sem byggist á fjárveitingum frá ríkinu. Þetta hefur verið að gerast hvarvetna í landinu, varðandi hafnarmál, skólamál, sjúkrahúsmál, flugvallarmál málefni íþróttasamtaka og dagvistunarheimila, og svo mætti lengi telja. Þó að ég minnist hér fáum orðum á nokkra þessara málaflokka á ég von á því að fulltrúar minni hl. fjvn., sem störfuðu að málum í undirnefndum, ræði þau mál frekar hér á eftir, og þeir sem flutt hafa brtt. til lausnar á vanda einstakra stofnana og byggðarlaga, munu fjalla um málefni þeirra.

S.l. tvö ár hefur verið þannig staðið að fjárveitingum til skólabygginga að á grunnskólastigi hefur ekki verið veitt fé til einnar einustu nýrrar byggingar þannig að framkvæmdir gætu hafist. Slíkri stefnu er útilokað að halda áfram lengur hversu mikið sem ráðandi ríkisstj. er á móti samneyslu. En afgreiðslan nú er þó ekki frábrugðin þeim fyrri að því leyti, að nú er þannig staðið að málum að þótt framlög til nýrra framkvæmda séu sett á pappírinn, þá eru upphæðirnar hafðar svo lágar að vonlaust er a.m.k. um margar þeirra að fjárveiting dugi til þess að unnt sé að gera verksamninga um framkvæmdir. Og til þess að ná þessum fjárhæðum, sem í ýmsum tilvikum eru sýndarfjárveitingar, eru fjárveitingar til framkvæmda, sem áður eru hafnar, skornar svo niður að þær eru leiknar á sama hátt og í óefni lendir um áframhald framkvæmda. Það er sama hvar lítið er í skólamálunum, niðurskurðarstefnan mun valda vaxandi vanda við fjárlagagerð og ýmis sveitarfélög lenda í algjörum ógöngum ef ekki verður hér á stefnubreyting.

Við afgreiðslu fjárlaga í fyrra var gert ráð fyrir að fellt yrði úr lögum ákvæði um að ríkissjóður styrkti byggingu dagvistunarheimila. Sú upphæð, sem veitt var, var ætluð til þess að greiða áfallnar skuldbindingar eða hluta þeirra, en ekkert ætlað til nýrra framkvæmda. Þessi tala, sem byggðist á því að engar nýjar skuldbindingar kæmu til, var lögð til grundvallar nú og hækkuð lítillega í meðferð fjvn., en eftir sem áður er hún alls ófullnægjandi til þess að mæta þeirri þörf sem þegar er fyrir hendi. Til þess að framlögin væru greidd samkvæmt lögum á 4 árum þyrfti fjárveitingin að vera um það bil tvöfalt hærri.

Það var samstaða í fjvn. á árunum 1973 og 1974 að gera sérstakt átak í fjárveitingum til Íþróttasjóðs til þess að koma málum íþróttamannvirkja í viðunandi horf, en þá hafði hlaðist upp skuldahali ríkissjóðs við Íþróttasjóð. Þá var fjárveitingum á þann veg hagað að skuldirnar voru greiddar sérstaklega og þá miðað við að þær yrðu greiddar á 4 árum og fjárveitingar til nýrra mannvirkja miðaðar við 4 ára greiðslutíma.

Eftir ríflega tveggja ára valdatíma hægri stjórnarinnar eru málefni Íþróttasjóðs verr komin en nokkru sinni fyrr. Eftir síðustu fjárlagaafgreiðslu var skuldahalinn kominn upp í ríflega 130 millj. kr., og miðað við þá fjárhæð, sem ætlunin mun að veita til Íþróttasjóðs á næsta ári, vex skuldasúpan upp í nær 200 millj. kr. Þessi niðurstaða þýðir að mannvirki, sem fyrst voru samþykkt í fjárlögum fyrir árið 1973, fá 60% fárþarfarinnar, þau, sem vorn samþ. 1974, 50%, þau, sem vorn samþ. í fjárlögum fyrir 1975, 40%, þau, sem voru samþ. 1976 20%, og þau mannvirki, sem kæmu í fjárlög í fyrsta sinn nú, fengju einungis 10% fjárþarfar. Þótt öllum nýjum mannvirkjum yrði sleppt, engin tekin 1 fárlög, þá dygði þessi upphæð, 130 millj. kr., einungis fyrir 43.5% af fjárþörf vegna þeirra íþróttamannvirkja sem þegar hafa fengið fjárveitingar á fjárlögum.

Hér eins og á fleiri sviðum þýða ákvarðanirnar um minnkaða samneyslu fyrst og fremst það, að vandanum er velt yfir á framtíðina.

Eins og ég minntist á áðan, fór svo um afgreiðslu vegáætlunar í vor að stjórnarflokkarnir treystu sér ekki til að fara að lögum og afgreiða vegáætlun til fjögurra ára. Þannig höfðu þeir komið hag Vegasjóðs á tveimur árum. Bráðabirgðavegáætlun hefur verið í gildi fyrir árið í ár, og þrátt fyrir fyrirheit í grg. fjárlagafrv. um að till. að nýrri vegáætlun yrði lögð fram í nóv. og afgreidd samtímis fjárlögum, þá er frammistaða stjórnarflokkanna slík að fjárlög verða afgreidd nú án vegáætlunar og engin vegáætlun verður í gildi einhvern hluta af næsta ári.

Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir því að gjaldfallinn stofnkostnaður vegagerðar hækki einungis um 586 millj. kr. frá árinu í ár og minnki þannig jafnvel að raungildi, en í vor þótti ekki vogandi að sýna slíka upphæð aftur á næsta ári. Á sama tíma og framlag til vegaframkvæmda minnkar að raungildi til viðbótar þeim stórfellda niðurskurði sem þegar hefur verið framkvæmdur í vegamálum í tíð núv. ríkisstj. eykur ríkissjóður sífellt tekjur sínar af söluskatti af bensíni og bifreiðum. Af hverri verðhækkun á bensíni fer fimmtungur beint í ríkissjóð sem söluskattur. Söluskattstekjur ríkissjóðs af bensíni og bifreiðum munu hækka um 400 millj. kr. á næsta ári og nema í heild nær 2800 millj. kr., en það er hærri upphæð en nemur föstum tekjustofnum Vegasjóðs í ár.

Þegar hinar sérstöku hafnarframkvæmdir í kjölfar eldgossins í Vestmannaeyjum fóru fram í Þorlákshöfn, Höfn í Hornafirði og Grindavík kom fram á hafnamálaráðstefnum og öðrum vettvangi að margir sveitarstjórnarmenn úti á landsbyggðinni töldu að verið væri að mismuna íbúum landsins verulega með þessum ráðstöfunum, aðrar hafnir hlytu að dragast stórlega aftur úr. Staðreyndin var reyndar sú, að almennar fjárveitingar til hafnarframkvæmda — fjárveitingar umfram þessar sérstöku framkvæmdir — héldust í fullu raungildi og ríflega það.

Fjárveitingar til almennra hafnarframkvæmda annarra námu t.d. 444 milli. kr. á fjárlögum 1974. Sú upphæð mundi jafngilda 1140 millj. kr. á fjárlögum næsta ár, miðað við kostnaðarbreytinguna frá okt. 1973 til okt. 1976. Samkvæmt framlögðum brtt. er fjárveitinn til allra fiskiskipahafna sveitarfélaga áætluð 930 millj. kr. á næsta ári, en 1974 var til almennra hafnarframkvæmda veitt upphæð sem jafngilti í dag 1140 millj. kr. Þessu til viðbótar voru veittar til hinna sérstöku hafnarframkvæmda vegna gossins í Vestmannaeyjum upphæðir sem svarar til nálega 1050 millj kr. á núgildandi verðlagi. eða samtals á árinu 1974 til fiskiskipahafna upphæð sem svarar til um 2190 millj. kr. við afgreiðslu fjárlaga nú.

Sveitarstjórnarmenn, sem töldu að þessar sérstöku hafnarframkvæmdir vegna gossins í Vestmannaeyjum yrðu til þess að mismuna sveitarfélögunum verulega um hafnaraðstöðu og yrðu til þess að draga úr framkvæmdum við aðrar fiskiskipahafnir, voru fullvissaðir um að ætlunin væri að fjárveitingar í svipuðum mæli og þeim, sem varið var til hinna sérstöku hafnarframkvæmda, mundu haldast áfram í fjárlögum og þá koma sérstaklega til góða þeim aðilum sem nytu ekki góðs af hafnarframkvæmdum á suðurströndinni.

Nú er þessum sérstöku hafnarframkvæmdum lokið, en efndirnar á fyrirheitunum eru þær, að ekki aðeins jafngildi þeirra fjárhæða, sem fóru til hinna sérstöku hafnarframkvæmda, eru teknar út úr fjárveitingum til fiskiskipahafna, heldur skortir verulega á að fjárveiting á næsta ári jafngildi þeirri fjárhæð sem árið 1974 var veitt til annarra hafna sveitarfélaga en þeirra sem unnið var við vegna gossins í Vestmannaeyjum. Þar vantar um 210 millj. kr. upp á. Talan þyrfti að hækka um 22.5% einungis til þess að jafngilda fjárveitingunni 1974 til almennra hafnarframkvæmda, að frátöldum hinum sérstöku .framkvæmdum í Grindavík, Höfn í Hornafirði og Þorlákshöfn. Til þess að jafngilda fjárveitingu til allra fiskiskipahafna 1974, að meðtöldum hinum sérstöku framkvæmdum, þyrfti fjárveitingin nú að hækka um 112% frá þeim till. sem nú liggja fyrir um fjárveitingar á fjárlögum næsta árs.

Þessi niðurstaða veldur sveitarstjórnarmönnum um land allt áreiðanlega miklum vonbrigðum. En hún er í samræmi við hina ríkjandi stjórnarstefnu: minni samfélagslegar framkvæmdir, en aukin skattheimta til að greiða 4000 millj. kr. í almenn rekstrarútgjöld umfram verðlagshækkanir frá 1974 og til að greiða ríflega 3000 millj. kr. vaxtahækkun á einu ári, milli áranna 1976 og 1977.

Hæstv. dómsmrh., formaður Framsfl., myndaði ríkisstjórn fyrir hæstv. forsrh., formann Sjálfstfl., og hæstv. forsrh. hefur sannarlega tekið að sér að ráða stefnunni og hún áréttuð við hverja fjárlagaafgreiðslu. Af hálfu áköfustu hægri manna í Sjálfstfl. hafa kröfurnar verið þær í ræðu og riti að það eigi að vera markmið stjórnarstefnunnar að skera niður þátt ríkisins í verklegum framkvæmdum og þjónustu til þess að draga úr þeirri hættu að gróðamyndunin í þjóðfélaginu sé í einhverjum mæli tekin til þess að jafna aðstöðu þegnanna hvarvetna.í landinn að því er varðar lífskjör, atvinnuöryggi og þjónustu.

Þetta er hin alkunna stefna hægri flokka. Fyrir gagnstæðri stefnu hafa vinstri flokkarnir barist. Þeir stefna að því að beitt sé samfélagslegum aðgerðum til þess að tryggja jöfnun á aðstöðu í landinu, tryggja að enginn troðist undir í samkeppninni innan þess þjóðfélags gróðahyggjunnar sem við búum í. Þeirra stefna er að tryggja að byggðarfélög fái reist rönd við þeim áhrifum gróðastefnunnar að fjármagnið sækir þangað sem það fær umráðamönnum þess mestan ágóðann, án tillits til þarfa þeirra sem skapa verðmætin með vinnu sinni.

Það þarf engan að undra að Sjálfstfl., sem þegið hefur stjórnarforustuna úr hendi Framsfl., skuli nú knýja á um framgang stefnu sinnar: stefnu minnkandi samneyslu og forgangs gróðans. Hitt kann að koma einhverjum, sem stutt hefur Framsfl. til þessa, á óvart, hversu liðtækur og þægur hann er Sjálfstfl. við að koma fram þeirri stefnubreytingu, sem orðið hefur í þessum efnum síðan hægri stjórnin tók við völdum. Nú er niðurskurður framkvæmda og þjónustu, minnkun samneyslu ekki afsökuð með árferði og ytri aðstæðum. Stefnan er óbreytt þrátt fyrir efnahagsbata. Það staðfestir rækilega það, sem minni hl. fjvn. sagði í nál. í fyrra, með leyfi hæstv. forseta:

„Það fer ekki á milli mála hverjir ráða ferðinni. Víst er að þeir aðilar í Sjálfstfl. og Framsfl., sem best ná saman um þá hægri stefnu sem nú er fylgt, miða engan veginn við það að hér verði einungis um tímabundin úrræði að ræða, heldur varanlegar aðgerðir meðan hægri stjórnin hefur völdin.“

Fjárlagaafgreiðslan nú er í fullu samræmi við þessa staðhæfingu. Enn árétta forustumenn Sjálfstfl., sem ráða stjórnarstefnunni, nauðsynina á því að ekki verði slakað á kröfunni um minnkandi samneyslu þótt betur ári nú en undanfarið skeið stjórnartímabilsins. Enn skal gróðinn verndaður. Enn skal almenningur sligaður með neyslusköttum og óbærilegu vöruverði miðað við launakjör. Enn skulu um 500 fyrirtæki í Reykjavík á sama tíma komast hjá því að greiða eina einustu krónu í tekjuskatt enda þótt þau velti 40000 millj. kr. á síðasta ári eða jafngildi árstekna ríflega 33 þús. einstaklinga með 100 þús. kr. mánaðatekjur. Friðhelgi gróðans skal sitja í fyrirrúmi, en tekjur til að standa undir stórfelldri útþenslu rekstrargjalda ríkissjóðs eru fengnar með sívaxandi neyslusköttum á almenning. Enn skulu samfélagslegar framkvæmdir vera í lágmarki til að tryggja forgang einkafjármagnsins.

Stefna ríkisstj. og vanhæfni í stjórnun ríkisfjármála hefur komið í veg fyrir að úr verðbólgu drægi í samræmi við breyttar ytri aðstæður. Stefna ríkisstj. hefur valdið verulegri rýrnun lífskjara almennings. Þótt miðað sé við kaupmátt launa árið 1973, áður en launahækkanirnar urðu vorið 1974, vantar um 12% upp á að kaupmáttur kauptaxta verkafólks og iðnaðarmanna hafi fylgt breytingum á þjóðartekjum á mann á sama tímabili. Það er stefna ráðamanna ríkisstj. að efnahagslegur ábati vegna breytinga á ytri aðstæðum á þessu ári og sem spáð er á hinu næsta skuli ekki eða í sem allra minnstum mæli koma fram í bættum kjörum launafólks. Hann skal þess í stað fara til þess að greiða þá skuldasöfnun ríkissjóðs, sem leitt hefur af misheppnaðri fjármálastjórn, og til þess að auka hlut hinna tekjuskattslausu fyrirtækja í landinu. Það er þó ljóst að launafólk, sem hefur orðið að sæta kjaraskerðingarstefnu ríkisstj. í ríflega tvö ár, mun ekki sætta sig við þau lífskjör sem skömmtuð eru. Hvarvetna í landinu ólgar nú og sýður í kjaramálum, og launafólk mun ekki lengur sætta sig við að bera áfram allar byrðarnar, en sú hagsbót, sem nú hlýst af bættum viðskiptakjörum, renni í útþenslu rekstrarútgjalda ríkissjóðs eða til hinnar skattlausu gróðastéttar í landinu. Það er því óraunhæft með öllu að miða afgreiðslu fjárlaga við það að áframhald geti orðið á kjaraskerðingarstefnu ríkisstj., eins og nú er verið að gera.