14.12.1976
Sameinað þing: 31. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í B-deild Alþingistíðinda. (836)

1. mál, fjárlög 1977

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja við þessa umr. þrjár smávægilegar brtt., — brtt. þar sem er a.m.k. í tveim tilvikum nánast um bráðnauðsynlegar leiðréttingar að ræða, viðbót við framlög sem fyrir eru í öllum tilfellum og upphæðir smáar.

Á þskj. 176, merkt III, er till. varðandi Sjúkrahús Vestmannaeyja. Í brtt. frá fjvn. er lagt til að til þessa verkefnis verði varið 20 millj. kr. í skuldagreiðslu. Það er nefnt skuldagreiðsla vegna þess að ríkið skuldar Vestmannaeyjakaupstað allmiklar upphæðir. Samkv. nákvæmum upplýsingum, sem ég hef nú í dag fengið frá bæjarstjóranum í Vestmannaeyjum, Páli Zóphóníassyni, mun ríkissjóður skulda Vestmannaeyjakaupstað 114 millj. kr. til sjúkrahússins sem er stærsta sjúkrahús á Suðurlandi, rekið með miklum myndarskap, enda búið ágætum tækjum, en fyrst og fremst hefur framúrskarandi starfsliði á að skipa þar sem valinn maður er í hverju rúmi. Til þessa sjúkrahúss er aðeins varið 20 millj. kr. í þessari till. fjvn. Ef við ættum að bera þetta saman við fjárveitingar til sjúkrahúsa á sambærilegum og minni stöðum í landinu, þá er um allt aðrar tölur að ræða heldur en varðandi Vestmannaeyjar og er óþarfi að fara yfir þann lista hér úr ræðustóll vegna þess að hv. þm. hafa hann allir á sínum borðum. Og mér er nánast óskiljanlegt hvernig á því getur staðið að hv. fjvn. getur leyft sér að koma með slíka upphæð þegar aðrir fá margfalt meira. T.d. er Akranes með 41 millj., Búðardalur með 25, Patreksfjörður með 30, Ísafjörður með 100, Sauðárkrókur með 28, Dalvík með 30, Akureyri með 130, og svo mætti lengur telja, Neskaupstaður 52, og er það síst of mikið, Keflavík með 37 o.s.frv., o.s.frv., en 20 millj. til þessa sjúkrahúss, sem er eitt myndarlegasta sjúkrahús landsins, deildaskipt og skipað sérfræðingum í hverri grein.

Þessi skuld ríkisins við bæinn er þannig til komin að eftir gosið var álitið eitt mesta nauðsynjaverk, sem unnt var að vinna á staðnum, að flýta framkvæmdum við sjúkrahúsið þannig að bæjaryfirvöld gætu boðið vestmanneyingum mannsæmandi heilsugæslu- og sjúkraaðstöðu. Og ég er alveg sannfærður um það að ef þetta hefði ekki verið gert, þá hefðum við ekki fengið fólkið út til Vestmannaeyja jafnhratt og raun varð á, ósköp einfaldlega vegna þess að fólkið gerði kröfu til þess, þar sem það átti að koma til Eyja eins og ástandið var þá, að það hefði möguleika til sæmilegrar heilsugæslu. Þess vegna er það að til þessarar skuldar, 114 millj. kr., er aðallega stofnað á árinu 1974 og að nokkru árið 1975. Og hver maður getur séð hvert er verðgildi þessara króna, sem standa í skuldinni, og hvernig þær hverfa óðum í því verðbólgubáli sem nú geisar.

Ég get nefnt til skýringar að væri hér um skólabyggingu að ræða og þær reglur, sem þar gilda, notaðar, þá væri þessi upphæð núna orðin meira en 300 millj. En ef farið væri eftir því, sem hv. fjvn. leggur til. þá tæki það með þessu framlagi, 20 millj. framlagi á ári, 6 ár að greiða þessa skuld, og er þá hætt við að síðustu greiðslurnar yrðu nokkuð lítils virði.

Ég get ekki skilið hvernig stendur á því að svo hefur verið unnið að málunum og til þess ætlast að Vestmannaeyjakaupstaður, svo illa sem hann er kominn fjárhagslega af alkunnum ástæðum sem ekki þarf að endurtaka, geti haft efni á því að lána ríkissjóði þungar krónur og fá eftir langan tíma smáar og fáar krónur í staðinn.

Í þessari till. hef ég leyft mér að leggja til að í stað 20 millj. komi 60 millj., og sjá allir hv. þm. að þar er ekki farið fram á ósanngjarna upphæð, — sannarlega ekki. Ef tekið væri aftur mið af reglunni sem gildir um skóla, þá væri þarna um 1/5 hluta af raunverulegu verðgildi að ræða og tæplega það. Svo gamla skuld verður að greiða hraðar í verðbólguástandi heldur en ef verðbólgan væri minni en raun ber vitni, og ég tel að ekki verði undan því vikist að greiða þessa skuld á tveimur árum. Sé það gert á lengri tíma, þá er bókstaflega verið að hafa stórfé af Vestmannaeyjakaupstað, og er það illt verk ef miðað er við það hvílík nauðsyn var á því að flýta þessu verki, því að án þess hefði uppbygging kaupstaðarins dregist úr hömlu.

Herra forseti. Á þskj. 181, merkt II, hef ég leyft mér að leggja til að auka nokkuð það framlag, sem frá ríki hefur komið til Vatnsveitu Vestmannaeyja allmörg undanfarin ár, úr 7.5 mill;. í 15. Það kann að vera að þegar menn heyra talað um 100% hækkun á þessari tölu, þyki þeim að nokkuð sé of í lagt. En það er alls ekki, ósköp einfaldlega vegna þess að þessi upphæð, 7.5 millj., var ekki ákveðin á síðasta ári, heldur fyrir mörgum árum. Ef ætti að reikna það og bera saman hvers virði þessi upphæð, 7.5 millj., væri nú að raungildi, miðað við það ár sem hún kom fyrst, þá hefði hún a.m.k. sjö- eða áttfaldast.

Vatnsveita Vestmannaeyja er svo sannarlega öðruvísi vatnsveita heldur en gerist annars staðar hér á landi og þó víðar væri leitað og er líklega eitt allra stærsta verkefni sem eitt sveitarfélag hefur ráðist í miðað við fólksfjölda og væri nú, ef allt væri reiknað á núverandi krónum, svo léttar sem þær eru nú orðnar, talið í milljörðum, en ekki hundruðum millj. Það var hugsað í upphafi þannig að smátt og smátt gæti ríkið lagt þessu fyrirtæki til fé með árlegum fjárframlögum, þannig að þegar upp væri staðið hefði ríkið lagt fram allt að 54% af stofnkostnaði við höfuðleiðslur úr landi. En nú stendur þetta dæmi þannig að bærinn hefur lagt fram 206 millj. í þessu skyni, en ríkið aðeins 57, þannig að sýnilegt er að þar hefur ríkið dregist aftur úr, og er það eðlilegt vegna þess að upphæðin hefur verið óbreytt frá byrjun. Ég tel að þarna sé fyrst og fremst um leiðréttingu að ræða, kannske of seint fram komna, hefði átt að athugast miklu fyrr. En betra er seint en aldrei, og ég hygg að það verði ekki talin ósanngjörn krafa að fara fram á þessa hækkun nú, eins og verðbólgan er þessa stundina. Það er langt frá því að þessi till. beri nokkurn keim af óvæginni kröfugerð, heldur miklu fremur svip ábyrgrar fjárumsóknar þar sem er leitast við að leiðrétta og færa til núgildandi verðlags framlag sem ákveðið var fyrir mörgum árum, eins og ég sagði áður.

Ég held að það skaði ekki að geta þess, að það er mál manna, sem til þekkja, að hefði þessi framkvæmd, Vatnsveitan í Vestmannaeyjum, ekki verið komin til kaupstaðarins fyrir eldgos, þá sé mjög hæpið að um uppbyggingu Vestmannaeyja hefði getað orðið að ræða nema þá á miklu lengri tíma en raun varð á. Ég er sannfærður um að ef hv. alþm. hugsa um þessa till. rólega og af sanngirni og þótt kröfurnar séu margar og margvíslegar og fjárl. kannske nægilega há, þá sé þarna um slíkt nauðsynjamál að ræða að ég er víss um að þessi till. gæti fengið þann stuðning sem til þarf.

Þriðja till., sem ég hef leyft mér að leggja hér fram, varðar heilsugæslustöð á Hvolsvelli í Rangárvallasýslu. Þannig var að þegar núgildandi lög um heilsugæslustöðvar, sjúkrahúsbyggingar og annað voru sett, að mig minnir á árinu 1972, þá var í upphafi gert ráð fyrir því að heilsugæslustöð af þeirri gerð, sem kölluð hefur verið H-2, ætti að rísa á Hvolsvelli og þjóna í Rangárvallasýslu sem höfuðmiðstöð lækninga og heilsugæslu. En svo hefur nú farið að ekki hefur verið ráðist í þessar framkvæmdir, og nú síðustu árin vitum við hvernig þetta hefur verið, að það hafa fremur verið veittir fjármunir til verkefna sem þegar hafa verið komin eitthvað áleiðis, en þau fremur látin sitja á hakanum sem ekki hefur verið byrjað á. Þeir, sem hafa lent í þessu, hafa þess vegna orðið mörgum árum á eftir og raunar dregist úr hömlu að koma af stað nauðsynlegum framkvæmdum í svo sjálfsagðri þjónustu sem þarna er um að ræða. Þeir hafa sem sagt aldrei fengið að byrja. Fyrst er gert ráð fyrir byrjunarfjárframlagi sem er 2 millj., og heitir það hönnun sem á að framkvæma fyrir þessa peninga. Sannleikurinn er sá, að ekki þarf að vanda sig mjög við að hanna slíkt verkefni vegna þess að þarna er um staðlaða byggingu að ræða, — byggingu sem er eins á þessum stað og á mörgum öðrum. Sama teikningin er notuð og sama fyrirkomulag alls staðar, þannig að það þarf ekki að myndast við að setja hér 2 millj. í hönnun á því sem þegar er hannað og meira að segja þegar byggt á mörgum stöðum. En ég vil vekja athygli á því að nú er aðeins gert ráð fyrir því að á Hvolsvelli komi heilsugæslustöð af minni gerð.

Ástandið er nú þannig í þessu læknishéraði, Stórólfshvolslæknishéraði, að ekki er vansalaust að láta þetta dragast lengur. Aðstaða læknis og lækna á svæðinu er allsendis ófullnægjandi, þannig að hér er eins og raunar viðar um nauðsynjamál að ræða. Ég vil — og ekki að ástæðulausu má vera — enn minna á það, að þarna var gert ráð fyrir í upphafi að yrði heilsugæslustöð fyrir svæðið. Ég hef leyft mér þess vegna að leggja til að í stað 2 millj. kr. komi 12 millj. fjárveiting til þess að þeir á Hvolsvelli geti farið af stað og komið byggingunni vel áleiðis á næsta ári, þannig að síðla árs 1978 geti þessi læknamiðstöð og heilsugæslustöð tekið til starfa og það auðvitað mörgum árum seinna en upphaflega var ætlað og allt of seint, því miður. En ég treysti því, þegar þessi till. kemur til meðferðar hv. Alþ., að menn verði ekki of fast handjárnaðir og leyfi sér að greiða svo ágætri till. atkv. sitt.

Herra forseti. Ég hef nú í nokkrum orðum gert grein fyrir þeim þrem brtt., sem ég hef nú þegar komið fram með, og gert grein fyrir því að hér er ekki um háar tölur að ræða. Í sambandi við sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum er um réttlætismál að ræða. Þar er um það að ræða að létta svolítið af Vestmannaeyjakaupstað sem hefur lánað ríkissjóði sem ætti ekki að leyfa sér að skulda svo litlu sveitarfélagi svo háar upphæðir í svo langan tíma á meðan óðaverðbólgan geisar. Í öðru tilfellinu gerði ég grein fyrir fjárþörf Vatnsveitu Vestmannaeyja. Þar var að mínum dómi um leiðréttingu að ræða þar sem gert er ráð fyrir því að tala, sem ákveðin var fyrir næstum áratug, 7.5 millj., breytist nú í 15. Ekki er nú krafist stærri hluta. En samt sem áður geri ég ráð fyrir að hv. þm. stjórnarliðsins kunni að segja að við í minni hl. á hv. Alþ. komum nú sífellt með hækkunartill. á hækkunartill. ofan. Í því sambandi vil ég segja það, að standi það eitthvað í hv. alþm. að greiða vinsamlega atkv. þessum þremur smávægilegu brtt., en bráðnauðsynlegu samt, þá er ég tilbúinn að koma með lækkunartill. Ég er tilbúinn að koma með lækkunartill. sem nema hærri upphæð en allar þessar þrjár till. samanlagðar gera ráð fyrir.

Herra forseti. Um þessar till. sé ég ekki ástæðu til að orðlengja frekar að þessu sinni. En ég get ekki svo lokið máli mínu í kvöld að ég víki ekki örfáum orðum að því sem hér hefur verið sagt varðandi flugmálin í landinu. Mér er málið býsna skylt vegna þess að mér hefur verið nú um allmörg undanfarin ár falið það að ýmsu leyti óskemmtilega verkefni að skipta allt of litlum fjárveitingum til geysimikils verkefnis og margbreytilegra hluta í flugmálum um land allt. Ég er þeirrar skoðunar og hef veríð lengi og ekkert legið á henni, að þessi þáttur samgöngumála á Íslandi hefur verið vanmetinn, til flugmálanna hafi komið allt of lítill hluti af því fjármagni sem til samgöngumála hefur farið í heild. Ef menn kynna sér þetta mál, þá sjá þeir það sjálfir, þannig að það þarf ekki að hafa uppi um það langar tölur. Ég vil aðeins nefna það, að til framkvæmda í flugmálum á s.l. ári komu aðeins 250 millj. kr. — 252, svo að það sé nákvæmt, og hafði hækkað í krónutölu á hverju ári um dálitlar upphæðir sem aldrei náðu því þó að fylgja verðbólgunni, þannig að raungildi þeirra fjármuna, sem til þessara framkvæmda fóru, fór síminnkandi og svo er enn. En sannleikurinn er sá, að ástandið í þessum efnum er afar slæmt og ekki síst hvað þau málefni varðar er snerta öryggi flugsins, flugleiðsögukerfi, þau tæki sem þarf að nota til þess að koma flugvélunum að flugvöllunum við misjöfn veðurskilyrði sem vissulega eru hér norður við Dumbshaf. Núna hafði hæstv. ríkisstj. — fjármálavaldið — áætlað til þessara hluta 300 millj. kr., en starfsmenn flugmálastjórnar höfðu sett saman lista um fjárveitingar sem þeir álitu nauðsynlegar og það bráðnauðsynlegar langflestar, höfðu viða skorið af, víða fellt niður, og gátu eytt miklu meiri peningum, en þessi listi, sem sendur var fjármálayfirvöldum, var upp á 1136 millj, kr. Það var ekki rýrt um helming, það var skorið niður í 300, það var deilt með 4. Ég ætla ekki að fara að tala hérna um það, sem hv. þm. Karvel Pálmason nefndi í umr. í dag, að til kostnaðar við flug Landhelgisgæslu var varið gífurlega stórum upphæðum, — upphæðum sem samsvara, þegar allt kemur saman, fjögurra ára fjárveitingu til allra flugmála í landinu, allra flugvalla, allra öryggistækja, allra ljósa, allra vita, þannig að þarna er ákaflega misjafnlega með fé farið. Ég er ekki að segja að Landhelgisgæslan þurfi ekki að hafa þau tæki í höndunum sem duga til þess að fylgjast með erlendum veiðiþjófum og innlendum. En ég er ekki viss um að það þurfi að standa að því á þennan hátt. Ég er ekki viss um að það þurfi að kaupa sérsmíðaða vél úr kassanum í Hollandi fyrir margfalt meira verð en var hægt að fá fyrir sams konar flugvél. Ég er heldur ekkert viss um að það hafi þurft tvær svona stórar flugvélar.

Það var skipuð n. sérfróðra manna til þess að kanna hvers konar tæki væru heppilegust í þessu skyni. Það var ópólitísk n., spesíalistar í hverri grein. Þeir komust að allt öðrum niðurstöðum. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að það mátti kaupa miklu minni vél en gert var. Samt var sú vél með þeim alfullkomnustu af þeirri stærð sem til er, vél af gerðinni Beachcraft King Air, sem er sannarlega góð flugvél, og væsir ekki um nokkurn þann mann sem í henni þarf að dvelja þótt í nokkrar klukkustundir sé. En þeir hefðu alls ekki þurft að vera mjög lengi í þeirri vél í senn. Við höfum 200 mílna landhelgi, það er rétt. En ætli fiskimiðin okkar séu nú út að 200 mílum? Ætli megnið af þeim sé ekki miklu nær? En það hefði auðvitað verið hægt að hafa stóra flugvél til þess að gæta ytra svæðisins, og hún er til, hún flýgur enn, hafa síðan til þess að gæta innra svæðisins minni vél sem hefði getað lent með stuttum fyrirvara næstum hvar sem er á landinu. Þarna mátti spara fé, ég vil leyfa mér að segja það, hefði verið farið eftir því sem þessir sérfræðingar sögðu, og þó það hefði alls ekki verið talað við neina sérfræðinga, heldur bara þm. spurðir. En það kom fram í ræðu þess hæstv. ráðh., sem þessi mál hafði á sinni könnu, og hefur margsinnis komið fram í hans máli hér, að hann treystir þm. ekki til neins. Ég vissi þetta. Það vissu þetta fleiri. Þarna mátti spara.

Herra forseti. Ég kom í ræðustólinn auðvitað fyrst og fremst til þess að mæla fyrir mínum smávægilegu brtt., en eins og ég sagði áðan, mátti til með að víkja ofurlitið að þessum málaflokki. Um þau mál öll mætti tala miklu lengra mál og vafalaust betra. En ég vil bara vekja athygli á því og ekki síst þeirra, sem mikið þurfa að fljúga, og biðja þm. að athuga það alvarlega, að það getur verið hættulegt, stórhættulegt að vanrækja þennan málafokk úr hófi. Ég ætla ekki að nefna afleiðingar þess ef eitthvað kynni að fara úrskeiðis í þessum efnum. Það er eins gott að vera ekki með neinar hryllingssögur hér, menn geta bara hugsað það sjálfir ef vilji og geta er fyrir hendi. Ég vil samt ítreka það, að þeir hv. þm., sem kunna að hafa áhrif á fjárveitingar, t.d. á næsta ári, þeir íhugi þessa hluti, geri þennan hlut samgöngumálanna stærri en er, íhugi þá í alvöru. Og ég vonast til þess að gaumur verði gefinn þeirri áætlun, sem stjórnskipuð n. hefur nýlega lokið við og mun verða lögð fram nú allra næstu daga, — n. sem hafði fengið það verkefni að gera 5 ára áætlun — sem víða hefur reynst vel — um flugmál og útbúnað á flugvöllum á Íslandi, — n. undir forsæti ekki ómerkari manns en Guðmundar G. Þórarinssonar og í þeirri n. eru ekki aðeins pólitíkusar, heldur líka sérfræðingar, þeir sem best eru menntaðir í þessum efnum í landinu. Þessi n. kemst að þeirri niðurstöðu að á næstu 5 árum þurfi til þessa verkefnis 5 000 millj. kr., — það er kannske ekki stórt í augum sumra eða eyrum sumra kannske réttara sagt, — en það þurfi 5 þús. millj., sem sagt, að á hverju ári sé nauðsynlegt, ef vel skal vinna og rétt, að leggja sem svarar 1000 millj. kr í þennan málaflokk á ári hverju, ef miðað er við núgildandi verðlag. En núna höfum við getað með ýtni, vil ég leyfa mér að segja, og talsverðri vinnu getað pínt þessa upphæð upp í 376 millj., þ.e.a.s. aðeins þriðjunginn af því sem þessi stjórnskipaða n. hefur komist að raun um að sé nauðsynlegt.

Herra forseti. Ég vænti þess að brtt. mínar, hinar þrjár, ekki stórar í sniðum að vísu, en koma sér vel þar sem þær eiga heima, fái jákvæða afgreiðslu, og auk þess óska ég eftir því einu sinni enn að hv. alþm. íhugi flugmálin líka og í fullri alvöru.