15.12.1976
Neðri deild: 23. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1268 í B-deild Alþingistíðinda. (883)

31. mál, dagvistarheimili fyrir börn

Svava Jakobsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég flyt á þskj. 180 brtt. við frv. það sem hér er til umr. Brtt. mínar hníga að því að færa dagvistunarmál aftur í sama horf og var í tíð vinstri stjórnar, þ.e.a.s. ég legg til að ríkið taki á ný þátt í rekstrarkostnaði dagvistunarheimila. Ég legg til að ríkið greiði allt að 30% rekstrarkostnaðar til dagheimila og skóladagheimila og allt að 20% til leikskóla.

Það var eitt af loforðum vinstri stjórnar, það var tekið fram í málefnasamningi vinstri stjórnar, að ríkið tæki að sér hlutdeild í byggingu og rekstri dagvistunarheimila, og það loforð efndi vinstri stjórnin dyggilega.

Með lögunum, sem sett voru 1973, voru íslendingar komnir í fremstu röð Norðurlandaþjóða bæði um fjármögnun þessara mála og ekki siður um viðhorf til þessa mikilvæga menningarþáttar.

Ég vil fara sérstökum orðum um viðhorf til þessa málaflokks, vegna þess að ég tel sannarlega ekki vanþörf á því eins og málum er nú komið í tíð hæstv. ríkisstj. Ég vænti þess að hv. þm. Framsfl., sem hafa verið fylgjandi bæði skoðunum Alþb. og nú á síðustu tveim árum íhaldsins, vegi og meti og reyni að íhuga hvorum megin þeir vilji nú endanlega standa þegar þeir fá tækifæri til að greiða atkv. um mína till.

Um viðhorf til þessara mála segir svo í grg. frá 1973, þegar þessi lög voru sett, með leyfi hæstv. forseta:

„Áhersla er lögð á uppeldisskyldu dagvistunarheimila, en það sjónarmið, að dagvistunarheimili séu neyðarúrræði vegna barna sem búa við óheppilegar félagslegar aðstæður er nú úrelt orðið. Í samræmi við það sjónarmið telur n. rétt að mótuð verði sú framtíðarstefna að öll börn innan skólaaldurs eigi kost á að njóta dvalar hluta úr degi eða daglangt á dagvistunarheimilum um eitthvert skeið sé þess óskað. Þetta skal vera óháð því hvort báðir foreldrar vinna utan heimills eða aðeins annað þeirra. Þetta sjónarmið er í fullu samræmi við þá stefnu sem nágrannaþjóðir okkar hafa mótað. Í þessari afstöðu felst engan veginn sú skoðun að dagvistunarheimili skuli koma í stað uppeldis á heimilum, öllu fremur hið gagnstæða. Vel búin og vel rekin dagvistunarheimili, þar sem börnin njóta handleiðslu sérmenntaðs fólks í uppeldismálum, veita foreldrum ómetanlega aðstoð við uppeldi barna sinna í nútímaþjóðfélagi. Eigi öll börn kost á því að dveljast á dagvistunarheimilum skapast meira jafnræði með þeim innbyrðis og þau standa jafnari að vígi en ella er að því kemur að þau standa andspænis kröfum skólaskyldunáms.“

Þannig var stefnan mótuð árið 1973. Í samræmi við það horfðist vinstri stjórninni augu við að nauðsynlegt var að veita stórauknu fjármagni til þessara mála, miklu meira en gert hafði verið. Fram til ársins 1973 voru málefni dagvistunarheimila í höndum sveitarfélaga eða áhugafélaga og sveitarfélaga í sameiningu, og yfirleitt hafði þróunin í gegnum árin verið sú, að sveitarfélögin höfðu tekið að sér þennan málaflokk í æ ríkara mæli vegna þess að áhugafélög réðu ekki við þau. Þannig var málum komið 1973. Þá voru langir biðlistar og til vandræða horfði fyrir fjölda barna. Afleiðingarnar voru þær að litið var á dagvistarheimili sem neyðarúrræði vegna barna er byggju við óheppilegar félagslegar aðstæður.

Ég vil geta þess hér, að þetta viðhorf var alls ekki ríkjandi hér í Reykjavíkurborg þegar Sumargjöf hóf starfsemi sína fyrst fyrir mörgum áratugum. Þá leitaðist Sumargjöf við að fá á barnaheimilin, eins og þau voru kölluð þá, börn vel bjargálna eða efnaðra foreldra til þess einmitt að koma í veg fyrir að litið yrði á barnaheimilin sem neyðarúrræði eða ölmusu fyrir þá sem verr voru settir í þjóðfélaginu. Síðan tók, eins og við vitum, að síga á ógæfuhlið. Eftir því sem þjóðin varð efnaðri, því minna taldi hún sig geta varið til uppeldismála. Og þá var svo komið í Reykjavík og er raunar enn að þeir einir fá inni á dagvistunarheimilum sem eru á framfæri námsmanna eða ef það er einstætt foreldri sem stendur að uppeldi barnsins og svo ef sérstaklega bágbornar ástæður eru fyrir hendi.

Fram til ársins 1974 eða þar til lögin komust í framkvæmd, lög vinstri stjórnarinnar, voru framlög ákveðin hverju sinni á fjárlögum eftir umsóknum. Þetta voru smáupphæðir sem var deilt milli aðila. En þegar lögin 1973 komu til framkvæmda var sem losnaði stífla. Sveitarfélögin sáu þarna leið fram úr sínum vanda og umsóknir tóku að streyma inn til menntmrn. um styrk til byggingar og rekstrar. Þegar verið var að undirbúa lögin frá 1973 var engin heildarskráning til á vegum opinberra aðila um þessi mál. En það má fullyrða að í a.m.k. 10 kaupstöðum hafi verið dagheimili sem störfuðu sum allt árið og önnur part af ári, og þeim hefur farið ört fjölgandi á þessum fáu árum, svo sem hv. þm. vita eftir fjárlagaafgreiðsluna. Sveitarfélög viða um land hafa keppst við að koma upp þessum heimilum til þess að verða við kröfum foreldra um að vel sé séð fyrir börnum þeirra meðan þau eru við framleiðslustörf.

Þegar dagheimilin voru svipt rekstrarkostnaði með lögum í fyrra kom óhugur í marga. Eins og hv. þm. muna hafði stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga alls ekki samþykkt þá breytingu og var ekki ánægð með hana, og það var vitað mál að þessi breyting mundi hafa í för með sér mikinn afturkipp. Það er mjög hætt við því að sveitarfélög muni freistast til að draga úr framkvæmdum og telji sig ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til þess að sinna þessum málaflokki sem skyldi. Ber sérstaklega að harma að slík afturhaldsstefna skyldi vera tekin upp einmitt á sama tíma og allir vita að þjóðfélagshættir eru svo breyttir að nú er svo komið að um 60% giftra kvenna vinnur utan heimilis. Við vitum að biðraðir lengjast. Við vitum að einkagæsla barna verður æ tíðari. Við vitum að hún er mjög dýr og erfitt við að eiga nema fyrir hátekjufólk. Þó skal þess getið hér, að borgarfulltrúi Alþb. fékk samþ. till. í borgarstjórn þess efnis að einkagæsla skyldi greidd niður hjá Reykjavíkurborg að nokkru, og ber vissulega að fagna því. En það er ekki nema lítill hluti fólks sem á gæslu þarf að halda sem nýtur þessara hlunninda.

Hv. síðasti ræðumaður vék að skýrslu Sumargjafar. Þar er, eins og hann tók fram, margar merkilegar upplýsingar að finna. Þar er m.a. tafla þar sem aðstandendur barna eru greindir eftir starfsheiti. Þar kemur fram að langflestir þeirra, sem eiga börn á dagheimilum, ern skrifstofufólk og verkafólk. Hvor hópurinn um sig er 15.23% af heildarfjölda. Þar næst kemur afgreiðslufólk með 9.21% af heildarfjöldanum, því næst kennarar með 6.51%. Ég legg áherslu á að hér er eingöngu um forgangshópa Reykjavíkurborgar að ræða og þar af leiðandi sýnir þetta ekki hversu mikil þörfin er, og það er vitað að biðlistarnir sýna það ekki heldur, vegna þess að þeir, sem vita að þeir muni hvort eð er ekki koma til greina, láta ekki setja börn sín á biðlista. Þetta sýnir að það er lágtekjufólk og millitekjufólk sem á þarna aðgang, og því ber í sjálfu sér að fagna. En spurningin er hversu mörgum í sams konar sporum er þarna bægt frá. Mér virðist þessi tafla sýna að sá hópur muni vera stór, auk þess sem þetta sýnir að það koma ekki aðrir til greina.

Stefna vinstri stjórnar í þessum málum nær ekki fram að ganga einfaldlega sakir þess að málinu hefur verið haldið í fjárhagslegu svelti í tíð þessarar ríkisstj., í fjárhagslegu svelti varðandi stofnkostnað og ríkisþátttöku í rekstrarkostnaði algjörlega hafnað. Hins vegar má greina nokkuð hvaða fólk það er sem er á biðlistum við leikskólana, því þar er ekki um forgangshóp að ræða. Og það er nokkuð fróðlegt að sjá hvaða starfsstéttir það eru sem þar biða. Ef ég tek mæður, þá eru húsmæður þar í langmestum meiri hl. eða 46.02%. Þar næst kemur hópur sem er skilgreindur sem svo hjá Sumargjöf, með leyfi hæstv. forseta: „Iðnaðar- og sérhæfð þjónustustörf, störf sem krefjast skammmenntunar.“ Það eru 27.13%. Feður eru líka flestir úr þeim hópi sem ég las upp áðan. Það er þetta fólk sem er langfjölmennast á biðlistum hjá leikskólanum, og það hefði sannarlega verið fróðlegt að fá fleiri kannanir sem sýndu hvaða starfsstéttir óskuðu eftir dagvistunarheimilum.

Ég held að þetta sýni, svo ekki verði um villst, að við erum komin enn fjær því nú en árið 1973 að dagvistarheimili standi opin öllum börnum er þess óska, sem var þó skýrt mörkuð stefna og sú eina stefna sem sæmir menningarþjóð sem vill láta sig uppeldismál einhverju varða. Það er skoðun mín að eina leiðin til þess að bjarga þessum málum við sé að fara aftur til þess fyrirkomulags er vinstri stjórnin tók upp. Það sýndi sig þann skamma tíma er þau lög voru í gildi að þau voru til mikils bóta. Þau voru mikill aflgjafi fyrir sveitarfélög til þess að sinna þessum málaflokki og þar með til mikilla hagsbóta fyrir allan almenning. Ég vil sérstaklega skora á þingmenn Framsfl., sem stóðu að þessu á sínum tíma, að fylgja mér í þessu máli.

Þetta, að dagheimilin yrðu opin öllum börnum, hefur lengi verið stefna Alþb. Það má segja að áratugum saman hafi flokkurinn flutt till. í borgarstjórn og hér á þingi um að ríkið tæki þessi mál að sér, og ég hygg að þann tíma, er vinstri stjórn var við völd, hafi sannast að stefna Alþb. var rétt.

Ég vil minna á að meðal mýmargra samþykkta, sem ganga í þá átt að aftur verði horfið til þess að ríkið taki þátt í rekstrarkostnaði, er samþykkt sem gerð var á ráðstefnu um kjör láglaunakvenna 16. maí 1976. Að þeirri ráðstefnu stóðu mýmörg verkakvennafélög, og í ályktun frá þessari ráðstefnu stendur svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ráðstefnan fordæmir þá breytingu sem gerð var á lögunum um þátttöku ríkisins í stofnun og rekstri dagvistunarstofnana, að fella niður hlutdeild ríkissjóðs í rekstrarkostnaði stofnannanna, og telur það stórt skref aftur á bak. Ráðstefnan telur að varanleg lausn á uppbyggingu nægilega margra dagvistunarstofnana fáist ekki nema ríki og sveitarfélög stofni þau og reki eins og aðrar uppeldisstofnanir, eins og skóla þjóðfélagsins, og öll börn geti átt aðgang að þeim. Enn fremur telur ráðstefnan æskilegt að stéttarfélögin beiti sér fyrir því að tekið verði inn í kjarasamninga þeirra að atvinnurekendur greiði ákveðið gjald í byggingarsjóð dagvistunarstofnana til að flýta fyrir framkvæmdum.“ Þetta síðasta í ályktuninni les ég hér til þess að undirstrika að hér er tekið undir frv. það sem ég flutti í fyrra um lánasjóð dagvistarstofnana, þar sem gert var ráð fyrir að atvinnurekendum væri gert skylt að greiða smávegis gjald til þessara mála, eins og raunar þeir gera sumir hverjir nú þegar vegna þess að ella fengju þeir ekki vinnuafl. Þessari leið, sem ég benti á í fyrra, var hafnað hér af meiri hl. Nd. og vísað til ríkisstj., sem var náttúrlega það sama og að fella frv.

Hv. þm. Ellert B. Schram talaði hér um reglugerðarákvæði sem hefði haft í för með sér fækkun á rýmum. Ég vil geta þess að hér er um að ræða fækkun á einstökum heimilum. Það er alveg rétt að það var sett reglugerð, en sú reglugerð var sett í beinum tengslum við lögin frá 1973 sem gerðu ráð fyrir því að dagheimilin yrðu ekki geymslustaðir, heldur hollar uppeldisstofnanir, en vegna vanrækslu m.a. viðreisnarstjórnar hafði verið hlaðið of mörgum börnum á heimilin til stórskaða fyrir börnin og fóstrurnar. Og ég fæ ekki betur skilið en hv. þm. Ellert B. Schram sé að óska eftir því ástandi aftur. (Gripið fram í: Já.) Hann svarar já. Hann er að óska eftir því að barnaheimilin verði geymslustaðir fyrir börn þar sem á að hrúga þeim saman. Reglugerðin, sem sett var, var í fullu samræmi við lögin sem gerðu ráð fyrir miklu fjármagni. Og vinstri stjórnin stóð við það loforð. Ef núv. ríkisstj. hefði ekki svo að segja um leið og hún tók við tekið fyrir allt fjármagn til þessara heimila, þá hefði Reykjavíkurborg getað haft við og þá hefði ekki komið að sök þó að þurft hefði að fækka um nokkur rými. Fækkunin var eingöngu gerð af mannúðarástæðum. Hún var gerð með velgengni barnanna og fóstranna í huga, og hún var byggð á reynslu starfsfólksins á dagheimilunum. Reglugerðarákvæðin komu alls ekki til framkvæmda strax. Þau komu til framkvæmda í áföngum með það í huga að fjármagn yrði veitt til þessara mála, en það var ekki gert. Það þýðir því alls ekki fyrir stuðningsmenn þessarar ríkisstj. að koma hér nú og harma að börnum skyldi vera fækkað á heimilunum.