17.12.1976
Efri deild: 24. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1353 í B-deild Alþingistíðinda. (947)

132. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta lagafrv. er flutt að beiðni Félags ísl. fiskmjölsframleiðenda sem með bréfi til sjútvrn., dags. 10. des. s. l., benti á ýmsa fyrirsjáanlega erfiðleika sem mundu skapast á næstu loðnuvertíð ef ekki yrði reynt að ráða bót þar á í tæka tíð. Ljóst er að bræðsluskipið Norglobal fæst ekki leigt til landsins á næstu vertíð eins og tvö undanfarin ár. Skipið kom að mjög góðum notum á þessum tíma og mestur hluti þess afla, sem það vann, var umframafli fyrir loðnuflotann, auk þess sem það auðveldaði mjög alla skipulagningu á löndun á loðnu til bræðslu að áliti loðnunefndar.

Þátttaka í veiðunum mun trúlega aukast verulega, m. a. vegna miklu hærra verðs á loðnuafurðum en á s. l. vetrarvertíð loðnu. Það er því fyrirsjáanlegt að mikið misræmi verður á milli aflagetu þess flota, sem mun stunda loðnuveiðar, og vinnuskilyrða verksmiðjanna. Ef ekkert er að gert munu veiðiskipin að jafnaði halda með aflann til þeirra hafna sem næst liggja veiðisvæðunum, og skapast þá fljótlega löndunarbið hjá skipunum sem hefði í för með sér að aflinn skemmdist eða eyðilegðist með öllu.

Til að hindra þessa þróun er lagt til að loðnunefnd fái aukið vald frá því sem nú er:

Í fyrsta lagi að nefndin hafi skýlausa heimild til þess að loka um stundarsakir fyrir móttöku á loðnu til bræðslu í ákveðnum höfnum og þá væntanlega þeim sem næst liggja veiðisvæðunum hverju sinni og beina veiðiskipunum annað með aðstoð flutningastyrkja í því skyni að dreifa lönduninni, auka þar með nýtingu á verksmiðjunum, auk þess sem heildarafli mundi trúlega aukast nokkuð og betra og verðmeira hráefni fengist.

Í öðru lagi gerir frv. ráð fyrir að heimilt sé að miða lokun á móttöku loðnu til bræðslu í ákveðnum höfnum við stærð skipa, þannig að minni skipin þurfi ekki að sigla langar leiðir með aflaun, enda slíkt oft og tíðum hættulegt, auk þess sem þau mundu sjá þeim höfnum, sem lokaðar væru, fyrir nægu hráefni til frystingar meðan lokun stendur yfir. Stærri skipin fengju aftur á móti flutningastyrk þegar ákveðnum höfnum væri lokað, en um lokun hafna yrði aldrei að ræða nema samhliða yrði greitt fyrir siglingu til fjarlægra hafna.

Í þriðja lagi er lagt til að loðnunefnd fái heimild til að stöðva allar veiðar á loðnu til bræðslu um stundarsakir ef fyrirsjáanlegt er að siglingar til fjarlægra hafna eru ómögulegar vegna veðurs, þannig að löndunaröngþveiti yrði óumflýjanlegt í þeim höfnum sem næst eru miðunum. Til þessa ákvæðis verður trúlega sjaldan gripið, enda fremur sjaldgæft að ekkert sé hægt að sigla ef veiðiveður er, en þó hefur þetta komið fyrir á undanförnum loðnuvertíðum.

Að síðustu er lagt til að lagabreytingin taki gildi frá 1. jan. n. k.

Sjútvrn. sendi þetta mál til umsagnar samtaka útvegsmanna og sjómanna: Landssamband ísl. útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands hafa mælt með því að þetta frv. yrði flutt.

Herra forseti. Ég vil leggja til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. sjútvn.