17.12.1976
Efri deild: 24. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1357 í B-deild Alþingistíðinda. (950)

132. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð. Ég hnaut um það þegar síðasti hv. ræðumaður fór að tala um að þetta væru nú eiginlega einræðiskenndar aðferðir sem hér væru notaðar. En sannleikurinn er sá, að með því ástandi, sem nú er á ýmsum sviðum í okkar sjávarútvegi, verður ekki komist hjá því að takmarka nokkuð frelsi til aðgerða, ýmist til veiða eða vinnslu. Og ég verð að segja það, að ég held að eins og út lítur nú, þá sé ekki hægt fyrir okkur annað en að styðja þetta frv., efni þess, enda þótt sjálfsagt sé æskilegt að fá nokkurn tíma til þess að athuga það í einstökum atriðum.

Ég kom upp í ræðustólinn ekki síst til að minnast á það, að okkur er sannarlega alger nauðsyn að reyna að fá betri geymsluaðstöðu í landinu fyrir loðnuna ef við ætlum að stunda þennan atvinnuveg með góðum árangri áfram. Ég man eftir því, að fyrir nokkrum dögum var í blöðunum sagt frá því að norðmenn gætu geymt loðnuna miklu lengur en við gerum, og ég sé enga ástæðu til þess að við getum ekki endurbætt okkar geymsluaðferðir frá því sem nú er. Ég held að það sé hægt, ýmist með plasti eða öðrum efnum, að útbúa þannig hólf eða geymslur sem er tiltölulega fljótlegt að koma upp og gætu geymt loðnu yfir veturinn með betri árangri en við gerum í dag. Ég held að þetta gæti að einhverju leyti, ef nógu víða væri gert, komið að nokkru leyti í staðinn fyrir það bræðsluskip sem við nú munum ekki fá.

En ég vil leggja áherslu á það, að við höfum búið í nokkur ár við þær aðstæður að verða á ýmsum sviðum, t. d. varðandi rækjuveiðar, skelfiskveiðar og síldveiðar, þar sem takmörkun er meiri en nokkru sinni áður hefur verið hjá okkur á veiðum, og sama mun ske í loðnunni, — við verðum að beita þar ýmsum aðferðum, sem við teljum kannske ekki æskilegar, en eru nauðsynlegar til þess að halda góðu hráefni og líka til að geta komið í veg fyrir ýmsar alvarlegar tafir.