17.12.1977
Neðri deild: 36. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1467 í B-deild Alþingistíðinda. (1119)

130. mál, skyldusparnaður og ráðstafanir í ríkisfjármálum

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Virðulegi forseti. Í sambandi við þá fyrirgreiðslu, sem ríkisstj. lét í té við kjarasamninga s.l. sumar, lagði ég mjög þunga áherslu á að felldur yrði niður söluskattur á kjötvörum og reyndar fleiri nauðsynjum. Það náði ekki fram að ganga, ég hygg m.a. vegna þess að launþegasamtökin lögðu áherslu á að bein skattalækkun kæmi til. Ég tel ákvörðun um niðurfellingu söluskatts á kjöti og kjötvörum alls ekki eiga heima í sambandi við þetta mál. Ég tel hins vegar að þau tilmæli, sem fram hafa komið um það efni, þurfi að athuga í sambandi við almenna athugun á vandamálum landbúnaðarins. Með tilvísun til þess, sem ég hef sagt, segi ég nei.