17.12.1977
Neðri deild: 37. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1471 í B-deild Alþingistíðinda. (1137)

98. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Frsm. minni hl, (Garðar Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Ég skal hafa þetta eins stutt og mögulegt er. Ég sá það í nál. hv. meiri hl. sjútvn., að þar var tilkynnt að ég mundi skila sérnál., vissi það hins vegar ekki fyrr en ég las það í nál. þeirra, en vildi ekki gera hv. formann n., þann ágæta hv. þm. Pétur Sigurðsson, ómerkan orða sinna. Ég settist niður og skrifaði nál. og vil leyfa mér að lesa það hér, með leyfi forseta. Það er hins vegar ekki búið að dreifa því nál. ennþá, það kemur innan tíðar. Nál. er svo hljóðandi:

„Undirritaður minni hl. sjútvn., einn nm., stendur ekki að flutningi þessa frv. Hinir, flm. frv., mæla með samþykkt þess, þrátt fyrir eindregin mótmæli samtaka sjómanna og útgerðarmanna.

Minni hl. n. sér hins vegar ekki ástæðu til að berjast gegn samþykkt þess, þar sem aðeins er um eitt skip að ræða, sem sérstaklega stendur á um, að talsverðum hluta í eigu Íslendinga og með allslenskri áhöfn; auk þess gilda aðrar og strangari reglur um löndun og afla skipsins, þar sem því á jafnan að vísa til fjarlægra hafna. Megingallinn er hins vegar sá, að skipið nýtur þess í fiskveiðilögsögu EBE að sigla undir dönskum fána, en nýtur þar á ofan sinna íslensku tengsla samkv. þessu frv. í íslenskri fiskveiðilögsögu.

Með tilliti til þess, að nú hefur verið samið við útlendinga um veiðar þó nokkurra loðnuskipa í íslenskri fiskveiðilögsögu um margfaldan afla á við þann sem þetta eina hálfíslenska skip mun taka, sér minni hl. sig ekki knúinn til þess að ganga á móti málinu.

Þrátt fyrir það eru gallarnir nægilegir til þess, að dómi minni hl., að hann getur ekki staðið að samþykkt þess.“