19.12.1977
Efri deild: 41. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1488 í B-deild Alþingistíðinda. (1164)

98. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Hv. þm. Eggert G. Þorsteinsson þarf ekki að „hyggja“ neitt um það í þessu sambandi. Hér er um að ræða einsdæmi, að erlendu skipi sé veitt veiðiheimild af þessu tagi hér við land, og einsdæminu fylgdi þá hitt, að kveðið væri á um það, að skipið landaði í höfnunum fyrir norðan. Honum er jafnvel kunnugt og mér, að vetrarloðnuveiðin er ekki fyrir Norðurlandi og er ekki sambærileg við sumarloðnuveiðina þegar skemmst er til hafnar við Norðurland. Þessu skipi er ætlað að veiða vetrarloðnuna hérna í vetur, þegar við vitum að skortur verður á loðnu í verksmiðjunum fyrir Norðurlandi. Það var algert einsdæmi, segir þm., að kveðið væri á um það, að skip, — hann tók sig nú á, sagði fyrst íslenskt skip, en segir síðan skip, — sem hafi heimild til veiða, fái ekki að landa nema fyrir Norðurlandinu. Hér er um að ræða — og því liggur þetta fyrir hér í lagafrv., — einstakt tilfelli, einsdæmi, að erlendu skipi sé heimiluð loðnuveiði hér við land núna í þessu tilfelli. Það er einsdæmið í þessu sambandi.

Okkur má vera það öllum í fersku minni, þegar fallist var á það af hálfu hv. Alþ. fyrir tveimur árum að Ísafold fengi veiðileyfi hér við land. Við munum hvernig við því var brugðist af hálfu íslenskra fiskimanna og íslenskra útvegsmanna. Viðbrögðin urðu þess þáttar, að skipstjórinn og einn af aðaleigendunum taldi óheppilegt að leggja út í veiðarnar hér við slíka andstöðu íslenskra útvegsmanna og íslenskra fiskimanna.

Ég er enn þeirrar skoðunar eins og ég var þá og ekkert síður, að það sé eftir nokkru að slægjast að fá Ísafold inn á miðin hérna til vetrarloðnuveiðanna með sína innlendu áhöfn. En ég fellst ekki undir neinum kringumstæðum á það, þrátt fyrir þetta, að við eigum að ætla Ísafold, þessu útlenda skipi, þrátt fyrir allt sama rétt og innlendu veiðiskipi og að kalla það einsdæmi þó að kveðið verði á um ákveðin skilyrði í þessu sambandi fyrir veiðiheimildinni til handa Ísafold hér. Það er einsdæmi að þessar veiðar skuli vera leyfðar.

Þau rök, að þetta skip muni ekki fljóta hvarvetna að bryggju á fjöru, eru gild. Þetta er alveg rétt. Þeir staðir finnast þar sem Ísafold mun ekki fljóta að löndunarbryggju á háfjöru. En það held ég að verði varla gagnrök í þessu tilfelli. Svo er um fleiri skip, að þau fljóta ekki að öllum löndunarbryggjum á háfjöru og okkar innlendi floti má sums staðar sæta sjávarföllum.

Ég óska þess, að hv. þm. Eggert G. Þorsteinsson geri sér grein fyrir því, þegar hann talar um að slíkt væri einsdæmi, að kveða á um það hvar þetta skip mætti landa, að málið, sem fyrir okkur liggur og við fjöllum um núna, er einsdæmi sem slíkt og það er alls ekki ætlunin að opna með þessum hætti gátt fyrir öðrum erlendum veiðiskipum til þess að koma á eftir. Við fjöllum um þetta sem sérstakt mál, sem einsdæmi í þessu tilfelli, og við ætlum að leyfa skipinu að veiða hérna með ákveðnum skilyrðum, þó ekki þannig að við leggjum beinlínis stein í götu eiganda eða skipstjóra, sem er allra góðra hluta verður.