19.12.1977
Efri deild: 41. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1489 í B-deild Alþingistíðinda. (1165)

98. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Aðeins örstutt athugasemd. Hún skal vera örstutt þessi aths. — Þm. var tíðrætt um það, að þessi lagasetning væri einsdæmi og þess vegna skuli lögin vera einsdæmi líka. Ég tel þetta ákaflega langsótt rök. Ég hafði þann starfa um 6 ára skeið að vera sjútvrh. og ég varð æ ofan í æ að taka ákvarðanir um það einn, sitjandi í mínum stól, hvort veita ætti erlendum skipum, sem þó höfðu enga íslenska áhöfn, löndunarleyfi hér og þar um landið. Venjulega voru þessi leyfi veitt með því að landa í næstu höfn. Þetta var talið um tíma vafasamt, en seinni lögskýringar sýndu, að þetta þótti fært og það voru fordæmi fyrir því, þetta hafði verið gert, að veita slík löndunarleyfi, enda voru þetta einstök tilfelli, en ekki um lengri tíma veiðar að ræða eins og hér er fyrirhugað. Ekki fór kjördæmi hv. 5. þm. Norðurl. e. varhluta af þeim löndunarleyfum mínum. En ég bara spyr sjálfan mig nú og ætla ekkert að spyrja hv. 1. landsk. þm. eða hv. 5. þm. Norðurl. e. hvort þeir vilji taka á sig þá ábyrgð, ef geymslurými hlutaðeigandi hafnar fyrir Norðurlandi hafa verið fyllt, að segja þessu eina skipi að halda sjó í hvaða veðri sem er til þess að bíða löndunar, af því að lagagr. segir að ekki megi landa nema í tilteknum landshluta. Ég held að enginn okkar vildi bera slíka ábyrgð, a.m.k. ekki ég — ég hygg að leitun muni að þeim manni.