19.12.1977
Neðri deild: 41. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1546 í B-deild Alþingistíðinda. (1260)

132. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1978

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Á þskj. 242 skilum við tveir nm., ég og hv. 9. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, séráliti og gerum þar grein fyrir afstöðu okkar til málsins.

Eins og þegar hefur komið hér fram, má skipta efni þess frv., sem hér liggur fyrir, í rauninni í þrjá meginkafla.

Í fyrsta lagi er leitað eftir því, að ríkissjóður fái heimild til þess að taka erlend lán vegna ríkisframkvæmda á næsta ári sem nemur 4 milljörðum 866 millj. kr.

Í öðru lagi er leitað eftir því, að ríkissjóður megi ganga í ábyrgð vegna lántöku á vegum Landsvirkjunar sem nemur 1500 millj, kr. og á vegum Hitaveitu Suðurnesja sem nemur 1800 millj. kr., eða samanlagt sem nemur 3300 millj. kr. Einnig er leitað eftir heimild til að breyta lánstíma erlendra lána eða lengja nokkur lán sem kann að vera hægt að fá lengingu á.

Í þriðja lagi er svo um það að ræða, að frv. gerir ráð fyrir því, að lífeyrissjóðir, sem viðurkenndir hafa verið af fjmrn. skuli skyldaðir til að verja 40% af ráðstöfunarfé sínu á næsta ári til skuldabréfakaupa með fullri verðtryggingu þeirra bréfa. Í grg. frv. kemur síðan fram, að það er til þess ætlast eða við það miðað, að sem nemur 30% af ráðstöfunarfé sjóðanna gangi til verðbréfakaupa af Framkvæmdasjóði og Byggingarsjóði ríkisins.

Það er sérstaklega þetta ákvæði frv., sem er í 3. gr. þess, um skyldu sem lögð er á lífeyrissjóðina, sem hefur valdið ágreiningi. Þó að ekki sé fullt samkomulag um heimildir handa ríkisstj. til lántöku í samræmi við lánsfjáráætlun er þó ekki hægt að tala þar um neinn meiri háttar ágreining, heldur ágreining um einstaka liði eða einstakar framkvæmdir. En það er ákvæði 3. gr. sem sérstaklega hefur valdið og veldur hér ágreiningi.

Eins og fram kom hjá hv. frsm. meiri hl. hafa samtök lífeyrissjóðanna mótmælt harðlega þessum ákvæðum og vilja fella niður þessa skyldukvöð. Við í minni hl. tökum undir þessi mótmæli og flytjum því á sérstöku þskj. till. um að 3. gr. frv. verði felld niður. Verði það gert, þá stendur auðvitað eftir sem áður opið fyrir stjórnvöld að leita eftir samkomulagi við lífeyrissjóðina í landinu um það, að þeir kaupi verðtryggð bréf af þeim aðilum sem ríkisstj. leggur einkum áherslu á að geti selt sín bréf. M.ö.o.: þá væri opin leið til þess að fara eins í þessi mál og gert hefur verið að undanförnu. Enginn vafi er á því, að eins og nú er komið er miklu hæpnara en nokkru sinni fyrr að ætla sér að fara þá leið að skylda lífeyrissjóðina til að leggja fram jafnstóran hluta af ráðstöfunarfé sínu og þarna er lagt til.

Það er kunnugt, að lífeyrissjóðirnir, hinir óverðtryggðu lífeyrissjóðir, almennu lífeyrissjóðir, hafa verið að auka bótagreiðslur sínar til mikilla muna frá því sem gert var í byrjun. Það var fyrir stuttu gerð opinberlega grein fyrir því, hvernig þessum málum væri nú komið hjá lífeyrissjóðunum, og ég vil aðeins nefna dæmi um það.

Samkvæmt skýrslu lífeyrissjóðanna er t.d. tilgreint, að eftirlaun úr sjóðum hinna almennu lífeyrissjóða, þar sem gert er ráð fyrir lífeyrisgreiðslum í lægra lagi, hafi verið sem hér segir, miðað við 1. jan. 1975, — þá námu þær greiðslur í því tilfelli, sem rætt er um í þessu dæmi, 6501 kr. á mánuði. Bæturnar voru ekki hærri en þetta. Síðan kom til nýtt samkomulag sem gert var í sambandi við lausu kjarasamninga, og þá var svo komið að 1. jan. 1976 voru þessar greiðslur komnar upp í 75524 kr. á mánuði varðandi sama dæmi og í fyrra tilfellinu sem ég minntist á. 1 jan. 1977 voru þessar greiðslur samkvæmt samkomulaginu komnar upp í 20 163 kr. á mánuði. Og eins og samkomulag stendur um nú, þá er gert ráð fyrir því, miðað við 1. jan. n.k., 1978, að þessar greiðslur í þessum tiltölulega lága bótaflokki séu orðnar 33 515 kr. á mánuði.

Í skýrslunni er gerður samanburður á því, hvernig þessar bótagreiðslur standi í hlutfalli t.d. við eftirlaunagreiðslur hjá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Í ljós kemur að miðað við 1. jan. n.k. yrðu bótagreiðslur hinna almennu lífeyrissjóða komnar upp í það að nema 68.4% af því sem er í tiltölulega lágum bótaflokkum hjá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja.

Þessar tölur og aðrar, sem fram koma í grg. sjóðanna, sýna að mínum dómi mjög ljóslega hvað bótagreiðslur þessara sjóða fara nú ört hækkandi og kalla á það, að þessir sjóðir verði að verja miklum mun meiri hluta af ráðstöfunarfé sínu í bótagreiðslur en áður var. Nú er gert ráð fyrir því, að þær bætur og þau eftirlaun, sem um er að ræða og vissulega hafa verið lægri að grunni til en er hjá hinum verðtryggðu lífeyrissjóðum, — því miður eru greiðslurnar enn þá að grunni til lægri, — en nú er gert ráð fyrir því, að þessar bætur fylgi verðlagsvísitölu og breytist þannig á þriggja mánaða fresti. Það er því enginn vafi á því, að það verður að fara gætilega í það, eins og nú er komið, að ætla að skylda þessa sjóði sem verða fyrst og fremst að standa undir þessu verkefni sínu sem nú er verið að þyngja á sjóðunum svona stórlega, að ætta að binda þá með lagaákvæðum til að ráðstafa fé sínu til annars.

Þó er það svo, eins og fram hefur komið í umr. um þetta mál, að eftir sem áður hafa þessir sjóðir með frjálsu samkomulagi keypt talsvert mikið af verðtryggðum skuldabréfum af opinberum sjóðum og þá fyrst og fremst af Byggingarsjóði ríkisins, og það mun vera svo, að flestir sjóðanna hafi keypt slík verðtryggð bréf sem nemi í kringum 20–25% af ráðstöfunarfé þeirra. Ég tel að það megi telja býsna gott, ekki síst þegar haft er í huga hvað þeir, sem eiga þessa sjóði, hafa lagt mikið á sig á öðrum sviðum til þess að reyna að fjármagna hið almenna byggingarlánakerfi. En þá mega menn gjarnan hafa það í huga, að megintekjurnar hjá Byggingarsjóði ríkisins eru 2% launaskattur, sem launþegarnir í landinu gera sér auðvitað fyllilega grein fyrir að er framlag sem er tekið í rauninni beint af launum launafólksins. Þetta framlag er lagt í Byggingarsjóð ríkisins sem aðaltekjustofn hans á hverjum tíma og notað þar til almennra útlána í sambandi við húsbyggingarlán Byggingarsjóðs ríkisins. Einnig má á það minna, að þessir sömu aðilar, sem eiga þessa lífeyrissjóði, þessa óverðtryggðu lífeyrissjóði, hafa einnig fallist á að ráðstafa mjög verulegri fjárhæð á hverju ári af fjármagni Atvinnuleysistryggingasjóðs í sama skyni. Því fer þess vegna víðs fjarri, að þessir aðilar leggi ekki sinn myndarlega skammt fram til þess að reyna að halda uppi framkvæmdum á þessu sviði.

Það er enginn vafi á því, að þessir lífeyrissjóðir þurfa í sívaxandi mæli, miðað við núverandi kringumstæður, að lána út ráðstöfunarfé sitt með verðtryggingarákvæðum. En spurningin er bara sú, hvort þörf sé á því að skylda þessa sjóði til að lána út sem nemur 40% af ráðstöfunarfé þeirra á þennan hátt. Ég hygg að þeir muni gera það í stórum dráttum til þess m.a. að geta staðið við allar sínar skuldbindingar á komandi árum.

Nú er greiðslustaða þessara sjóða mjög mismunandi. Sumir eiga erfitt með að standa undir slíkum skuldabréfakaupum, aðrir geta það miklu betur. Það stafar m.a. af því, að bótagreiðslur eða eftirlaunagreiðslur liggja mjög misþungt á þessum sjóðum.

Meginkjarni þessa máls er auðvitað sá, að lánsfjáráætlun ríkisstj. er byggð upp þannig, að hún gerir ráð fyrir að 30% af ráðstöfunarfé sjóðanna gangi til kaupa á skuldabréfum Framkvæmdasjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs ríkisins. Við það er miðað, að lífeyrissjóðirnir leggi framkvæmdafé til þessara sjóða sem nemur rúmum 5 milljörðum kr. á næsta ári. Og það er ljóst, að fáist ekki þetta fjármagn frá lífeyrissjóðunum, en sé miðað við gerð lánsfjáráætlunarinnar, þá komast þessir sjóðir í greiðsluvandræði. En það verður líka að taka tillit til þess, hvernig þessi lánsfjáráætlun er byggð upp að öðru leyti. Ég hef tekið eftir því, að ákveðin skylda, sem hefur hvílt á bönkum landsins nú um margra ára skeið til að standa undir þeim lánum, sem gert er ráð fyrir í lánsfjáráætlun og hefur numið 10% af innlánaaukningu í bankakerfinu á hverjum tíma, nú er þessi skylda minnkuð, það er dregið úr henni og gert ráð fyrir að bankarnir þurfi ekki að leggja fram nema sem nemur 5% af innlánaaukningunni hjá sér í þessu skyni. Hins vegar er við það miðað, að lífeyrissjóðirnir taki á sig miklu meira framlag.

Það, sem ég vil leggja áherslu á í þessum efnum, er að það verður í þessu tilfelli að taka mið af því, hvernig nú er komið málefnum lífeyrissjóðanna. Sjóðirnir eru búnir að takast á hendur ákveðnar skuldbindingar varðandi eftirlauna og lífeyrisgreiðslna, sem voru ekki fyrir nokkrum árum, en nú eru komnar, þar sem miðað er við verðtryggingu í ríkum mæli. Og þegar svo er komið, þá er augljóst mál að sjóðirnir eiga erfiðara með en áður að kaupa verðtryggð bréf frá ýmsum framkvæmdasjóðum á vegum ríkisins.

Eins og 3. gr. frv. er orðuð, þá er skyldan sú, hún er fyrst og fremst miðuð við að lífeyrissjóðirnir kaupi verðtryggð bréf sem nema 413% af ráðstöfunarfé sjóðanna. Ég tel engan vafa leika á því, að þó að þetta ákvæði yrði samþ. eins og það er orðað í gr., þá væru sjóðirnir ekki þar með skyldaðir til að kaupa nein verðtryggð bréf af Framkvæmdasjóði ríkisins eða af Byggingarsjóði ríkisins. Hins vegar er gert ráð fyrir því í grg. sem fylgir með frv., að út frá því sé gengið að þessir sjóðir fái fjármagn sem nemur 5.1 milljarði kr. En samkv. 3. gr, frv. verða engir sjóðir að mínum dómi skyldaðir til að kaupa bréf af þessum sjóðum, nema þá þeir ákveði það sjálfir. Ég tel því að þetta mál snúi þannig við, að það, sem eðlilegast væri að gera af hálfu stjórnvalda, væri að fara sömu leið og áður og leita eftir samningum við lífeyrissjóðina á fullkomnum jafnréttisgrundvelli, eins og þeir óska eftir, af því að ríkisstj. verður, ef hún ætlar að ná árangri í þessum efnum, að byggja á samkomulagi.

Ég tel hins vegar mjög óhyggilegt að halda þannig á málinu af hálfu ríkisstj, að byrja fyrst að setja lög um málið, sem ganga mjög á móti vilja lífeyrissjóðanna, og ætla síðan að ná einhverjum árangri með samkomulagi. Ég held að slík vinnubrögð séu mjög óheppileg og muni ekki skila árangri. Af því er það, sem við í minni hl., ég og hv. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, leggjum til að 3. gr, frv. verði einfaldlega felld niður. Þá hefur ríkisstj. áfram sama möguleika og hún hefur haft, að leita eftir samkomulagi við lífeyrissjóðina um það, hvað þeir geti fallist á hver um sig að leggja fram mikið fjármagn í sambandi við þá fjárþörf sem hér um ræðir. Þá er líka auðvelt að taka tillit til þess, sem fram kemur í brtt. frá hæstv. forsrh., að miða samningana við hvern og einn lífeyrissjóð við það, hvað hann getur í raun og veru af hendi látið, hvernig staða hans er í sambandi við þær skuldbindingar sem sjóðurinn hefur þegar tekið á sig.

Um þetta atriði þarf ekki að mínum dómi að hafa lengra mál. Ég tel að hér sé ranglega að málum staðið, þessi grein sé óþörf og eigi ekki þarna að vera, það eigi að ganga út frá því að semja við þessa aðila um það fjármagn sem þeir geta látið af höndum. Það er greinilegt að greiðslustaða þeirra öll hefur gjörbreyst nú við síðustu samninga, sem fylgdu með samningum um launakjör, bæði á árinu 1976 og svo aftur nú á þessu ári. Greiðslustaða þeirra hefur breyst þannig, að það er í rauninni fráleitt að ætla sér að binda þá með slíkri skyldu eins og gert er ráð fyrir í 3. gr. frv.

Um þetta frv, að öðru leyti vil ég segja það, að ég hef líka fyrir mitt leyti fyrirvara um aðrar heimildir sem óskað er eftir í frv. Það er t.d. gert ráð fyrir því samkv. 1. gr., að ríkisstj, geti tekið erlend lán að upphæð 4 milljarðar 866 millj. kr., og það hefur verið gerð grein fyrir því í lánsfjáráætlun, hvernig þessi fjárhæð skiptist á framkvæmdir, Þar er gert ráð fyrir að skiptingin sé þessi: Það er í fyrsta í lagi til flugöryggistækja 30 millj, kr., við það hef ég ekkert að athuga. Í öðru lagi er gert ráð fyrir lántöku vegna hlutafjárframlaga til Járnblendifélagsins, 970 millj. kr., sem er innifalið í þessari upphæð. Ég er algjörlega andvígur þeirri lántöku og hef lýst þeirri afstöðu áður. Þá er gert ráð fyrir að tekin verði erlend lán vegna Rafmagnsveitna ríkisins sem nemur 732 millj. kr., og ég geri engar athugasemdir við það. Mér er ljóst að það verður ekki undan því vikist að taka þessi lán. Þá er gert ráð fyrir að tekin verði erlend lán vegna lagningar byggðalinu, þessarar miklu linu á vegum Rafmagnsveitna ríkisins, 2 miljarðar 714 millj. kr. Ég hef heldur ekkert að athuga við að lán séu tekin í þessu skyni. Síðast en ekki síst er ráðgert að taka lán vegna framkvæmda Pósts og síma vegna jarðstöðvar o.fl., 310 millj. kr. Um það verk vil ég ekkert segja nú, ég hef ekki sett mig nægilega inn í það, en vildi helst af öllu ekki bera mikla ábyrgð á lífá þessu stigi málsins, en geri ekki nú neinar stórar athugasemdir við það. En ég tel rétt að þetta komi hér fram, að sú heimild, sem leitað er eftir í 1. gr. frv. til erlendrar lántöku upp á rúmlega 4.8 milljarða kr., er ætluð til þessara framkvæmda. Þar að auki koma svo innlendar lántökur sem beinlínis falla undir ríkisframkvæmdir, en þær lántökur nema 5 milljörðum 586 millj. kr., þannig að lántökur til beinna ríkisframkvæmda yrðu rúmlega 10.4 miljarðar.

Það er rétt að menn átti síg á því, að þó að hér sé aðeins rætt um erlendar lántökur í þessu frv. sem nema 4.8 milljörðum kr., þá eru heildarlántökurnar miklum mun hærri, eins og fram kom í máli hv. frsm. meiri hl. Það er gert ráð fyrir því, að lántökur erlendis frá á árinu nemi 20 milljörðum kr. og þar af eru lántökur vegna opinberra framkvæmda áætlaðar rétt um 9.7 miljarða, en hins vegar lántökur vegna annarra en beint opinberra framkvæmda, — og eru þó ýmsir opinberir aðilar þar í, þó þeir séu ekki flokkaðir undir það, því ég flokka a.m.k. járnblendiframkvæmdirnar þar undir, — það er gert ráð fyrir að þessir aðrir aðilar taki erlend lán sem nema 10.3 milljörðum, þannig að heildarlántakan yrði þá upp á 20 milljarða miðað við áætlun. Rétt er svo að hafa það í huga, að á yfirstandandi ári fóru þessar erlendu lántökur fram úr því sem gert var ráð fyrir á fyrri lánsfjáráætlun, fram úr áætlun um rúmlega 7 milljarða kr., svo að það er veruleg hætta á því, að erlendu lánin hækki enn á næsta ári þrátt fyrir þær ráðagerðir sem hafðar eru uppi í sambandi við afgreiðslu þessara mála nú.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta. Ég þykist hafa lýst afstöðu okkar í minni hl. Við leggjum sameiginlega fram till. um að fella niður 3. gr. frv., af lifað við erum á móti þeirri lánaskyldu sem þar er um að ræða. Og ég hef fyrir mitt leyti fyrirvara á um heimildir til erlendrar lántöku í samræmi við það sem ég hef gert hér grein fyrir. Ég hef hins vegar ekkert að athuga við það, þó að fjmrh. fái heimild til að ganga í ábyrgð fyrir lántökum vegna Landsvirkjunar, sem hér eru greindar, og ekki heldur í sambandi við lántökur vegna Hitaveitu Suðurnesja. En afstaða mín til málsins miðast við það sem ég hef hér sagt.