19.12.1977
Neðri deild: 41. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1556 í B-deild Alþingistíðinda. (1263)

132. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1978

Eðvarð Sigurðsson:

Hæstv. forseti. Ég ætla sem fyrr aðeins að ræða 3. gr. þess frv. sem hér nú liggur fyrir. Ég gerði grein fyrir afstöðu minni við 1. umr. málsins og varaði mjög við því, að lögfesting á ráðstöfun fjár lífeyrissjóðanna yrði ákveðin eins og gert er ráð fyrir með þessari lagagrein.

Hv. frsm. meiri hl. n., hv. 4. þm. Austurl., og einnig hæstv. forsrh. lögðu báðir mikla áherslu á að tilgangur þessarar lagagreinar væri að gera lífeyrissjóðunum kleift að standa undir verðtryggðum lífeyri til sjóðfélaga sinna. Enn fremur lagði forsrh. á það áherslu, að lífeyrissjóðirnir ættu, þegar frá liði, að vera betur í stakk búnir en ella til að lána sjóðfélögunum fjármagn. Þetta eru út af fyrir sig ákaflega falleg orð. En ég get á nákvæmlega sama hátt fullyrt það, að höfuðtilgangurinn með þessari lagagrein er að fá fé lífeyrissjóðanna til ráðstöfunar að vild ríkisstj. Ég held að þetta geti nákvæmlega eins staðist, eins og það sem hér hefur verið sagt.

Þá vil ég mjög ákveðið andmæla því, sem hv. 4. þm. Austurl., Tómas Árnason, sagði hér áðan, þegar hann hafði lýst — að vísu ekki lesið, en aðeins lýst lítillega innihaldi þeirra mótmæla, sem komið hafa frá samböndum lífeyrissjóðanna. Ég vil undirstrika það, að þau mótmæli eru frá samböndum sem svo til allir lífeyrissjóðir landsins eru í, þannig að ég tel að það sé vel mark takandi á hvað þau segja. Þegar hv. frsm, meiri hl. hafði lýst þessu sagði hann, að í þessum mótmælum kæmi fram að sjóðirnir væru andstæðir því að verja allt að 40% ráðstöfunarfjár síns til verðbréfakaupa. Það er ákaflega fjarri því, að þetta sé innihaldið í mótmælunum sem komið hafa frá samböndum lífeyrissjóðanna, — mjög langt, frá því. Þetta er álíka og sumir eru taldir lesa biblíuna, að fá svona niðurstöðu út úr mótmælum samhanda lífeyrissjóðanna. Hið eina, sem sagt hefur verið, er að lífeyrissjóðirnir hafa dregið í efa, og það er áreiðanlega rétt niðurstaða, að margir sjóðanna gætu þetta. En grundvallaratriði málsins snúast ekki um þetta. lífeyrissjóðirnir munu áreiðanlega verja eins miklu af ráðstöfunarfé sínu til kaupa á fullverðtryggðum verðbréfum og þeir hafa fjármagn til.

Ég gat þess hér í ræðu minni við 1. umr. málsins, að þetta væri af þeim ástæðum fyrst og fremst, að lífeyrissjóðunum er nauðsyn að ávaxta fé sitt á sem allra bestan hátt og annar máti til þess að ávaxta fé sjóðanna en að kaupa þessi bréf er nú ekki fyrir hendi, og eins hitt í öðru lagi, að lífeyrissjóðirnir væru síður en svo andvígir því, að það fjármagn, sem streymir í gegn hjá þeim, fari til þess að styðja að atvinnuvegunum í landinu. Þetta tók ég fram í minni fyrstu ræðu, og þetta kemur raunar einnig fram í því sem sambönd lífeyrissjóðanna hafa sagt um málið.

Það, sem ágreiningur er fyrst og fremst um, er það grundvallaratriði, hvort með löggjöf, beinni löggjöf, skuli ráðstafa svo og svo miklu af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna. Þetta er grundvallaratriðið sem deilt er um. Þessu er ég algjörlega ósammála, algjörlega andvígur, og þessu eru sambönd lífeyrissjóðanna einnig andvíg. Og ég vil undirstrika það, að í stjórnum lífeyrissjóðanna, eins og mönnum er kunnugt um, og einnig í stjórn sambanda lífeyrissjóðanna sitja ekki einvörðungu fulltrúar launþeganna, heldur einnig atvinnurekendanna.

Þetta er grundvallaratriði sem málið snýst um. Þeir, sem eru á því að Alþ. eigi að setja lög um ráðstöfun fjár lífeyríssjóðanna, hljóta náttúrlega að hafa sínar skoðanir á því. Það skiptir ekki öllu máli, hvort hér er um 20, 30 eða 40% ráðstöfunarfé sjóðanna að ræða. Það er ekki höfuðatriðið, heldur sjálf lagasetningin. Og ég vil mjög undirstrika það, að hér er farið inn á nýja braut. Þetta hefur verið hingað til gert með frjálsu samkomulagi við sjóðina, en ekki með lögþvingun, þó að það hafi komið til álita áður, en aldrei orðið úr því.

Hæstv. forsrh. orðaði það svo, að ef sjóðirnir vildu ekki fara þessa leið, þá væru þeir að varpa áhyggjum sínum á ríkissjóð. Ég held að þetta séu ákaflega ómerkileg ummæli í garð lífeyrissjóðanna og sambanda þeirra. lífeyrissjóðirnir hafa gert samninga við ríkisvaldið, sem þeir hafa staðið við, um kaup á verðtryggðum bréfum fjárfestingarsjóðanna, og þeir hafa ekki sótt til ríkissjóðs um verðtryggingu á lífeyrisgreiðslum til sjóðfélaga sinna. Þeir hafa tekið þær verðtryggingar einvörðungu á eigin herðar.

Við þá samninga, sem við gerðum og ég minntist á síðast og ég vil aðeins endurtaka, að kaupa 20% af bréfum Byggingarsjóðs ríkisins, hefur verið staðið. Það hefur reyndar verið keypt meira en þessu nemur, og líka af Framkvæmdasjóði ríkisins. En það, sem við vorum einnig að gera þegar þessir samningar voru gerðir, var að tryggja að íbúðarbyggingar á félagslegum grundvelli yrðu stórauknar. Það hefur ekki orðið enn þá, því miður.

Hæstv. forsrh. sagði að það væri enn nauðsynlegra að tryggja atvinnuna í landinu en auka íbúðarbyggingar. Ég sé nú ekki neinar andstæður á milli þessa tvenns. Ég held að einmitt bygging íbúða og þá í fyrsta lagi og einvörðungu á félagslegum grundvelli, væri kannske það sem við gætum gert best til þess að tryggja atvinnu í landinu. Ég held að húsnæðismálin hafi verið og séu enn kannske sá þáttur í okkar atvinnu- og efnahagslífi sem hvað mest sé verðbólguaukandi. Ég þarf ekki að rekja það nánar, en ég er sannfærður um það, að ef ekki verður gert verulegt átak í byggingu félagslegs húsnæðis, þ.e.a.s. íbúða sem ekki fara á braskmarkaðinn, þá verður íbúðaverð hér eftir 1–2 ár orðið kannske tvöfalt á við það sem byggingarkostnaðurinn raunverulega er. Þeir, sem eitthvað vilja hugsa fram í tímann, eins og við vorum brýndir á áðan í ræðu hæstv. forsrh., ættu, held ég, einnig að hugleiða þetta og ekki síður.

Ég skal ekki lengja mikið mál mitt hér, en aðeins fara örfáum orðum um þá till. sem hæstv. forsrh. hefur flutt. Þó vil ég áður taka það fram, að í sjálfu sér get ég verið honum alveg sammála um það, að ríkisstj. á hverjum tíma eigi býsna miklu um það að ráða, hvernig því fé er varið sem verðbréf fjárfestingarsjóðanna eru keypt fyrir. Það er mál, sem við út af fyrir sig getum verið alveg sammála um. En ég vil hins vegar ekki að hæstv. forsrh. gleymi því, að verkalýðshreyfingin og lífeyrissjóðirnir hafa gert samkomulag við ríkisstj. um kaup á skuldabréfum Byggingarsjóðs í alveg ákveðnum tilgangi, og ef ekki verður staðið við þau fyrirheit, sem tvær ríkisstj. hafa gefið í þeim efnum, þá mun verkalýðshreyfingin náttúrlega skoða hug sinn og athuga þau mál öll.

En varðandi þessa till. vil ég aðeins segja það, að svona gerast málin ekki eins og hæstv. forsrh. leggur til í brtt. á þskj. 248. Í fyrsta lagi vil ég benda á að lífeyrissjóðirnir vita ekki fyrr en að loknu hverju ári hvert er þeirra ráðstöfunarfé. Þetta er ýmsu háð og ekki síst atvinnuástandi í landinu, þannig að það getur enginn lífeyrissjóður sagt neitt ákveðið um það fyrr en að loknu reikningsárinu, hvert er ráðstöfunarfé hans. En það er miðað við í þessari lagagr., að lífeyrissjóðunum sé skylt að verja á ári hverju a.m.k. 40% af ráðstöfunarfé sínu til kaupa o.s.frv., þ.e. yfirstandandi árs, það er ekki miðað við árið á undan eða neitt þess háttar. Þetta geta lífeyrissjóðirnir ekki sagt um með neinni vissu fyrr en að reikningsárinu loknu, misjafnlega þó, sumir geta kannske farið mjög nærri um það, en aðrir geta það engan veginn.

Verði 3. gr. í þessu frv. að lögum, þá er enginn efi á því, að lífeyrissjóðirnir munu hugsa sitt ráð. Ég ætla ekki að spá neinu um það, hvaða ráð það yrðu eða hvernig þeir tækju á málunum. Eins og málum er háttað, þá er rétt að menn geri sér ljóst að með samþykkt þessarar 3. gr. er um lögþvingun að ræða. Það er vitað mál að lífeyrissjóðirnir eru andvígir þessari lagasetningu, og það er enginn vafi á því, a.m.k. ósköp eðlilegt, að það muni nokkuð móta afstöðu þeirra til framhalds þessara mála. Það er allt annað að ganga til samninga á frjálsum jafnréttísgrundvelli heldur en hitt, að fá á sig þvingunarlög. Og svo mikið í sálarfræði veit ég að allir hæstv. ráðh. kunna, að mannleg viðbrögð fara að sjálfsögðu eftir því, hvernig fram er komið við menn.