19.12.1977
Neðri deild: 41. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1580 í B-deild Alþingistíðinda. (1269)

132. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1978

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Það var ekki hv. 4. þm. Austurl. sem gaf mér sérstaka ástæðu til að standa upp aftur. Það var hins vegar hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, en hann er nú ekki viðstaddur og verður að hafa það. Hann hefur látið sín orð falla og ég sé ástæðu til þess að svara nokkru sem fram kom í ræðu hans.

Nú vil ég fyrst taka það fram, að við Guðmundur H. Garðarsson, hv. þm., höfum átt mikið og langt samstarf í lífeyrissjóðamálum. Ég er sammála ýmsu því sem hann sagði varðandi það kerfi til frambúðar sem þyrfti að koma á í lífeyrismálunum, enda höfum við sameiginlega staðið að þeim samningamálum sem hér hafa veríð gerð að umtalsefni, samningunum 1976 og aftur í sumar sem leið. Við höfum einnig oftar en einu sinni staðið saman gegn afskiptum löggjafarvaldsins af málefnum lífeyrissjóðanna. Við gerðum það t.d. 1974, þegar svokallað frv. um viðnám gegn verðbólgu var á ferðinni. Við stóðum báðir gegn þeim lagaákvæðum sem þar komu fram varðandi málefni lífeyrissjóðanna.

Hv. þm. sagði að hvorugt lífeyrissjóðasambandið, hvorki Samband almennra lífeyrissjóða né samband lífeyrissjóða, eins og þau heita, hefði rétt til samninga fyrir lífeyrissjóðina. Þetta er út af fyrir sig alveg rétt, og hefur, held ég, enginn haldið því fram að svo væri. En ég vil minna á það engu að síður, að hæði þessi sambönd eru hagsmunasamtök lífeyrissjóðanna. Samband lífeyrissjóða er hagsmunasamtök þeirra lífeyrissjóða að flestu leyti, sem stofnaðir voru fyrir 1970 þegar samningarnir um almennu lífeyrissjóðina voru gerðir. Það vill nú svo til, ef ég man rétt, að þetta samband er stofnað 1964, og beint tilefni til stofnunar þessa sambands var einmitt afskipti stjórnvalda þá af málefnum lífeyrissjóðanna og m.a. ásælni í að ráðskast með fé þeirra. — Ég verð leiðréttur, ef þetta er ekki rétt munað. — Það, sem þessi sambönd hafa sagt í þessu máli, er út af fyrir sig kannske ekki dómsorð hvers einasta lífeyrissjóðs fyrir sig. Það er rétt að það er hvers lífeyrissjóðs að taka ákvörðun. En ég hygg að bæði þessi sambönd muni ræða þessi nýju viðhorf og áreiðanlega reyna að gefa leiðbeinandi samþykktir fyrir lífeyríssjóðina.

Eins og ég sagði höfum við hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson starfað mikið að þessum málum. Við höfum ævinlega þar til nú verið sammála um að lífeyrissjóðirnir ættu að sporna gegn slíkum afskiptum stjórnvalda af málum þeirra eins og hér eru höfð. Hins vegar virðist afstaða hans hafa breyst verulega í þessum efnum. Lét hann ýmis orð um það falla áðan í sinni ræðu. Hann sagði m.a. eitthvað á þá leið, að það væri ekki lengur spurning um hvort ætti að lögbinda meðferð fjár lífeyrissjóðanna, heldur hvernig. Þetta er gersamlega nýtt viðhorf hjá þessum hv. þm., ég hef ekki fyrr heyrt hann halda þessu fram. Hann talaði um að ef þetta yrði ekki gert, þá væri lýðræði mjög í hættu og stéttavald yrði sennilega ráðandi. Ég veit ekki hvaða samtök eru lýðræðislegar byggð upp en t.d. lífeyrissjóðirnir. Það yrði ekki vald einnar stéttar sem þar kæmi til sögunnar. Þá sameinuðust erkióvinirnir, þ.e.a.s. annars vegar verkalýðsstéttin og hins vegar atvinnurekendastéttin, við þetta mjög svo ólýðræðislega athæfi sem það er að mati hv. þm. ef lífeyrissjóðirnir fá áfram að semja um þessi mál á jafnréttisgrundvelli, en ekki verði lögboðið hvernig stjórna eigi því fjármagni sem þeir hafa undir höndum.

Ég ætla ekki út af fyrir sig að fara að tala hér langt mál. Ég vil aðeins minna á að hv. þm. sagði eða réttara sagt spurði, hvert væri meginverkefni lífeyrissjóðanna, og svaraði síðan, að það væri höfuðatriði að tryggja lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga. Þetta er alveg hárrétt. Við erum fullkomlega sammála um þetta atriði. Þetta eru meginverkefnin. Hins vegar hef ég nokkrum sinnum rætt við þennan ágæta baráttufélaga minn um málefni lífeyrissjóðanna, um þann sjóð sem hann nú veitir forstöðu, er formaður fyrir, og sagt að ég væri ekki að öllu leyti sammála því, hvernig sá sjóður starfaði, einkum þó vegna þess að þessi sjóður er ásamt með nokkrum eldri lífeyríssjóðanna með miklu þrengri reglugerð um lífeyrisréttindi en þeir sjóðir hafa sem stofnaðir voru 1970. Ég veit að Guðmundur H. Garðarsson, hv. þm., hefur áhuga á að breyta þessu. En það er kannske ekki eins auðvelt og mér fannst hann telja það vera að breyta núverandi lífeyriskerfi, — en mér fannst hann gera þau mál miklu einfaldari og auðleystari en þau eru í raun og veru, — og veit ég þó að hann þekkir þessi mál mjög vel. Það er ekki spurning um að þora — hreint ekki. Það er engan veginn eina spurningin, heldur hvernig þessi mál verði leyst. Ég verð að segja það, að þegar hann nefndi vestur-þýska lífeyriskerfið sem einhverja sérstaka fyrirmynd, þá er ég algerlega á annarri skoðun og álít að við eigum að sækja okkar fyrirmyndir allt annað, því að það er enginn grundvöllur til þess í þessu landi að byggja upp slíkt kerfi. Ég ætla ekki að fara neitt nánar út í það.

Hvernig sem aftur lánamálum t.d. þessa sjóðs, sem hv. þm. veitir forstöðu, hefur verið háttað, þá auðvitað hefur þessi sjóður lánað verulega mikið fjármagn til sinna sjóðfélaga. En við höfum plagg hjá okkur á borðinu sem er skriflegt svar fjmrh. við fsp. Péturs Sigurðssonar um ráðstöfunarfé lífeyrissjóða. Ég vitnaði til þess við 1. umr. Þetta plagg her það m.a. með sér, að Lífeyrissjóður verslunarmanna hefur á 5 árum lánað lánasjóði verslunarinnar 279 millj. kr., sem sagt á síðustu 5 árum, og ég veit ekki betur en að þessi lán séu öll með venjulegum lánakjörum, ekki verðtryggð. Þessi sami lífeyrissjóður hefur hins vegar á 6 árum, einu ári lengur en lánin voru veitt, keypt verðtryggð skuldabréf af Byggingarsjóði og Framkvæmdasjóði fyrir 270 millj. kr., sem er heldur lægri upphæð en farið hefur til lánasjóðs verslunarinnar. Síðan er vitað og nýlega frá því skýrt opinberlega, að þessi sjóður hefur lagt æðimikið fjármagn í Hús verslunarinnar, eins og það mun heita. Ég ætla ekki að fara að giska á hve mikið það muni vera, en ég hygg að það muni skipta frekar hundruðum en tugum milljóna. Ég er ekki út af fyrir sig að segja neitt ljótt um þessar ráðstafanir, en ef hv. þm. er t.d. að reyna að komast undan því að lána lánasjóði verslunarinnar jafnmikið fjármagn og gert hefur verið óverðtryggt og flýr í það skjól sem þetta frv. gæti orðið honum í þeim efnum, þá verð ég að segja að það er ekki stórmannlegt að gera það og væri áreiðanlega hægt að hafa önnur ráð.

Hv. þm. sagði að hér væri aðeins um lánaskyldu lífeyríssjóðanna að ræða, en alls ekki neina lagaþvingun. Menn geta haft sínar skoðanir á því. Ég ætla að endurtaka þá fullyrðingu sem ég hafði í frammi hér fyrr í kvöld, að ef 3. gr. þessa frv. verður að lögum gegn þeim mótmælum sem þegar hafa komið fram, ekki bara í ræðum okkar hér á hv. Alþ., heldur fyrst og fremst frá samtökum lífeyrissjóðanna, — ef þetta verður að lögum eins og það liggur nú fyrir, þá er um lagaþvingun að ræða á sjóðina. Það er engan veginn samið í samráði við þá, heldur þvert á móti gegn vilja þeirra.

Ég met ekki mikils þá till. sem hæstv. forsrh. hefur flutt hér tif breytinga og ég aðeins minntist á fyrr í kvöld. Hún er í raun og veru ekkert annað en það, að fjmrh. fær eins konar dómsvald um það, hvort lífeyrissjóðirnir hafi efni á að kaupa verðtryggð skuldabréf fyrir 40% af ráðstöfunarfé sínu eða ekki. Það er í raun og veru ekkert annað sem í þessu felst. Og ég fullyrði það, að lífeyrissjóðirnir munu áreiðanlega ekki fara til hæstv fjmrh. og fara að semja um þessa hluti, — alveg áreiðanlega ekki, eða a.m.k. ekki margir. Þetta mun gerast af sjálfu sér. lífeyrissjóðirnir kaupa fyrir það fjármagn sem þeir sjá sér fært að nota til þess, eftir þessa lagasetningu eins og áður. En meðan ekki eru einhver ógnarviðurlög við því að fara ekki nákvæmlega eftir þessum lögum, þá hef ég enga trú á því, að ríkissjóður eða ríkisstj. fái meira fjármagn út úr lífeyrissjóðunum til stofnlánasjóðanna en hefði fengist með frjálsum samningum. Og eins og frv. er núna, þá sýnist mér að sjóðirnir hafi ýmsa möguleika til að ávaxta fé sitt, jafnvel 40% eða meira, með verðtryggingu og án þess að kaupa neitt af fjárfestingarsjóðunum.