20.12.1977
Sameinað þing: 34. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1613 í B-deild Alþingistíðinda. (1318)

1. mál, fjárlög 1978

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég hef raunar litlu við það að bæta sem þegar hefur verið sagt í þessum umr. af hálfu okkar stjórnarandstæðinga. Afstaða okkar til fjárlagafrv, og þeirra aðgerða, sem það frv. boðar, kemur fram í ítarlegu nál. sem dreift hefur verið fyrir þessa umr. og frsm. minni hl. n., hv. þm. Geir Gunnarsson, gerði frekari grein fyrir henni í ræðu sinni áðan. Þá hefur einnig komið fram nú að undanförnu afstaða okkar stjórnarandstöðuþm. til þeirra örþrifaráða, sem ríkisstj. greip til svo að hún megi koma fjárl. saman, en þau örþrifaráð hafa verið lögð fyrir þingið nú milli 2. og 3. umr. fjárl. og hafa verið til umfjöllunar í þd. að undanförnu.

Í afstöðu okkar minni hl. í fjvn. við 2. umr. kom fram, að afgreiðsla fjárl. væri með nokkuð óvanalegum hætti að þessu sinni. Að vísu er það ekki nýtt, að bíða þurfi eftir till. ríkisstj. þangað til síðustu dagana áður en fjárlög eru afgreidd. Hins vegar hafði það aldrei gerst áður, að fjvn. væri beinlínis neitað um upplýsingar um umfang vandans, þó að þær upplýsingar væru tiltækar hjá meiri hl. fjvn., eins og fram kom þegar nál. meiri hl. var dreift fyrir 2. umr. Á milli umr. hefur fjvn. hins vegar fengið —þær upplýsingar, sem um var beðið, en ekki fengust fyrir 2. umr. Á allra síðustu dögum fjárlagaafgreiðslunnar hefur fjvn. sem slíkri því verið gert ljóst, hvert væri talið vera eðli og umfang þess vandamáls sem við væri að etja við gerð fjárl. Þær upplýsingar bárust svo seint að eingöngu var hægt að meðhöndla þær í n. sem frásögn, en alls ekki sem grundvöll til aðgerða og athugana af hálfu n. sjálfrar.

Minni hl. hefur því á allra síðustu dögum fengið að fylgjast með, en í raun réttri hefur honum ekki gefist neitt ráðrúm til afskipta af þeirri stefnumótun í ríkisfjármálunum sem felst í afgreiðslu fjárl. að þessu sinni. Afgreiðslan öll og sú stefna, sem þar er mörkuð, er því í einu og öllu afgreiðsla og stefnumörkun ríkisstj. og meiri hl. hennar hér á Alþ. og stjórnarandstaðan mun að sjálfsögðu haga afstöðu sinni í samræmi við það við lokaafgreiðslu málsins, sem væntanlega fer fram á morgun. Einstakar till., sem þm. stjórnarandstöðunnar kunna að bera fram nú við 3. umr., eru því ekki vottur þess, að þeir telji sig geta fallist á fjárlagaafgreiðsluna og heildarstefnu þá, sem í fjárl. er mörkuð, aðeins ef viðkomandi till. hljóta samþykki, heldur eru þær fluttar af hverjum og einum sem lokatilraun til þess að fá fram lagfæringar á einstökum áhugamálum viðkomandi þm. eða framfaramálum einstakra byggðarlaga.

Ég vil aðeins taka það fram, áður en ég skil við þetta mál, að það, sem sagt hefur verið af hálfu okkar stjórnarandstæðinga í fjvn. til þess að mótmæla þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið í n. á afgreiðslu fjárl., ber ekki að skilja sem svo, að því sé stefnt til hnjóðs samstarfsmönnum okkar í n. eða formanni n. Við þá höfum við átt gott og drengilegt samstarf um mörg mál, þó að skoðanir hafi að sjálfsögðu verið skiptar.

Vitaskuld er það ríkisstj. sem ræður þessum vinnubrögðum. Það er hún sem ræður því, hvaða upplýsingar eru veittar um ýmsa veigamestu þætti fjárlagagerðar og hvenær þær upplýsingar koma fram, og hæstv. ríkisstj. hefur ekki aðeins dregið okkur stjórnarandstæðinga á slíkum upplýsingum, heldur einnig fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna í nefndinni.

Afleiðingarnar hafa m.a. orðið þær, að n. hefur reynst ófært að fylgja þeim starfsreglum sem hún sjálf þó setti sér með samþykktum í upphafi. Þannig var ráðgert að sérstök undirnefnd fjvn. færi fyrir hönd n. rækilega í saumana á till. ríkisstj. um lánsfjáráætlun og kynnti síðan niðurstöður sínar á fundi n., eins og á við um fjöldamörg önnur mál sem undirnefndir eru kjörnar til að kanna. Þetta var hins vegar ekki gert. Undirnefnd fjvn. um lánsfjáráætlun hefur engan fund getað haldið og lánsfjáráætlunin sjálf því litið sem ekkert verið rædd í n. Til þess hefur ekki gefist tími. Og ég vil taka það sérstaklega fram, að þar er ekki við meiri hl. n. að sakast. Meiri hl. var fyrir sitt leyti reiðubúinn til þess að ræða málið eins og samþykktin um vinnubrögð u. gerði ráð fyrir. Hins vegar gat ríkisstj. ekki fullnægt þeim sameiginlegu óskum fjvn. sem komu fram í þessari afgreiðslu. Því hefur lánsfjáráætlunin, einn mikilvægasti þáttur í efnahagsstefnumótun ríkisstj. við afgreiðslu fjárl., farið nær athugunarlaust í gegnum fjvn., og eru þar þó fjölmörg atriði sem við fjvn: menn hefðum gjarnan viljað spyrja um, en ekki gefist ráðrúm til að fá svör við.

En þetta er því miður ekkert einsdæmi. Það var einnig önnur n. sem kosin var í fjvn. og átti að fjalla um orkumál. Sú n. átti að fjalla um veigamikil atriði. Hún átti m.a. að fjalla um hvaða viðbrögð ætti að taka upp vegna ástandsins við Kröflu. Hún átti t.d. að fjalla um erindi ýmissa byggðarlaga um framkvæmdir í orkumátum, þ. á m. erindi stjórnar Orkubús Vestfjarða. Ýmis byggðarlög gerðu út sérstakar sendinefndir til þess að ræða slík mál við fjvn. og þá fyrst og fremst undirnefnd hennar. En undirnefnd fjvn. um orkumál hefur aðeins haldið einn fund. Hún hefur aðeins hlýtt á eitt erindi. Enginn annar fundur hefur verið boðaður í n., engar afgreiðslur á þeim nefndarfundi og engin till. um afgreiðslur þar gerð.

Meira slíkt væri hægt að telja upp, þó að ekki væru kjörnar formlega undirnefndir til þess að fjalla um slík mál. Þar mætti minnast á fjárfestingartillögur Pósts og síma, þar mætti minnast á málefni RARIK og Orkustofnunar o.fl., o.fl. sem lítill sem enginn tími hefur gefist til þess að ræða í fjvn. Og þessi afgreiðslumáti hefur oft tekið á sig broslegar myndir, svo sem leikurinn með óviss útgjöld í fjárlagafrv., en þau voru í upphafi áætluð 900 millj. kr., síðan var við skoðun talið fært að lækka þau um 200 millj., síðan var skoðað aftur og var talið fært að lækka þau um 400 millj. og foks var búið að koma þessari upphæð, sem upphaflega var áætluð 900 millj. kr., niður í 100 millj, eftir þrjár eða fjórar yfirferðir. Og ekki tók betra við á síðasta degi fjárlagaafgreiðslunnar, því að nú fyrir nokkrum klukkustundum barst fregn um það, að enn vantaði að taka tillit til ákveðinna atriða í sambandi við fjárlagagerð sem kostað gætu 200 millj. kr. Var þá ekki hægt að skera niður óvíss útgjöld öllu frekar, svo að grípa varð til annarra ráðstafana í þeirra stað sem má ætla að sé álíka mikið að marka og niðurskurðinn á þessum útgjaldalið sem borið hefur heitið: Óviss útgjöld.

Forsendur fjárlagaafgreiðslunnar nú eru annars þær sömu og sett hafa svip sinn á allar fjárlagaafgreiðslur núv. hæstv. ríkisstj. þegar allt hefur verið komið í óefni nokkrum dögum áður en Alþ. hefur átt að fara í jólafrí hefur jafnan verið rokið til á síðustu stundu og samþykktar bráðabirgðatillögur um viðbótarálögur, nýja skattheimtu, sem ætlað var að gilda aðeins til bráðabirgða, en ekki reynst tök að fella niður. Þannig hafa fjölmargir nýir tekjustofnar, sem aðeins hafa átt að vera bráðabirgðaúrræði, verið teknir upp og reynst vera varanlegir tekjustofnar fyrir ríkissjóð. Þannig hefur t.d. við ákvörðun skattvísitölu ávallt verið valin sú leið í tíð núv. ríkisstj. að marka hana þannig, að hlutfall beinna skatta af tekjum aukist miðað við ráðstöfunartekjur þegar verðlagshækkun hefur verið meiri en kauphækkun, eins og verið hefur undanfarið við fjárlagaafgreiðslu. Þá hefur skattvísitalan verið hækkuð í samræmi við áætlaða meðaltalshækkun launa með þeim afleiðingum, að samverkandi áhrif verðhækkana og ákvarðana um skattvísitölu hafa leitt til þess, að kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur lækkað. Nú er spáð, að þetta snúist við, að kauphækkun á yfirstandandi ári verði 42–43%, en almennar verðlagshækkanir hins vegar 31% eða um það bil. Þá er umsvifalaust snúið við blaðinu og skattvísitalan ákveðin til samræmis við verðhækkunarspár. Afleiðing af þessum skollaleik við skattborgarana á þessu eina ári, árinu 1978, er aukning á tekjuskattsheimtu sem nemur 2000 millj. kr. Með slíkum aðferðum er lagður á aukinn tekjuskattur um 2000 millj. kr.

Vörugjald var, eins og menn muna, upphaflega lagt á með brbl. Að vísu heitir það enn „tímabundið vörugjald“ í lögum, þótt búið sé að endurnýja gjaldið tvívegis og eigi nú að gera það í þriðja sinn. Hér er því ekki lengur um tímabundna skattheimtu að ræða eins og áformað var í upphafi, heldur varanlegan skattstofn, sem ekki var til áður en núv, hæstv. ríkisstj. tók við völdum, en hún hefur búið til. Á næsta ári mun aðeins þessi eini nýi skattur skila ríkissjóði 6000 millj. kr. í tekjur. Ofan á þær tekjur bætast svo tekjur af auknum söluskatti sem ríkissjóður hefur beinlínis af vörugjaldinu, en söluskattur kemur ofan á vörugjald, eins og kunnugt er. Má því reikna með að tekjur ríkissjóðs af vörugjaldinu, bæði í formi vörugjalds og söluskatts, nemi ekki lægri fjárhæð en 7000 millj. kr. En gjaldabyrðin á vörukaupendur á Íslandi er meiri en þessu nemur, því að hæstv. viðskrh. hefur heimilað heildsölum og smásölum að leggja heildsölu- og smásöluálagningu sína ofan á vörugjaldið, þannig að vöruseljendur hafa beinlínis hagnast um stórfé á þessari nýju tekjuöflun ríkissjóðs. Ef áætlað er varlega má gera ráð fyrir að aukin gjaldabyrði á neytendur í þessu þjóðfélagi sé ekki minni en um 9000 millj. kr., ef allt er tínt til sem fylgir vörugjaldsheimtunni.

Ég hef tvívegis gert tilraun til að fá þessu breytt með því að flytja brtt. við afgreiðslu frv. um vörugjald, þess efnis, að ekki væri heimilt að leggja heildsölu- og smásöluálagningu ofan á vörugjaldið. Þessi till. hefur í hvorugt skiptið fengist afgreidd, en í bæði skiptin hefur hæstv. viðskrh. haft góð orð um að hann mundi beita sér fyrir því, að þetta yrði sérstaklega athugað. Hvort sem sú athugun hefur farið fram eða ekki, þá er niðurstaðan alltént sú, að engu hefur verið hreytt og heildsölum og smásölum í landinu verið leyft að hagnast um þúsundir millj. á þessari nýju skattheimtu ríkissjóðs. Er það auðvitað fráleitt, að þó að ríkissjóður þurfi á meiri tekjum að halda, þá sé þannig farið að við þá tekjuöflun, að ákveðnir aðilar í þjóðfélaginu hagnist talsvert og jafnvel stórkostlega á slíkum tekjuöflunaraðferðum ríkissjóðs.

Annað nýtt gjald, sem lagt hefur verið á, er sjúkratryggingagjaldið sem fyrst var lagt á í fyrra. Þá var það miðað við 1% álag ofan á útsvarsgjaldstofn og átti aðeins að vera takmarkað gjald. Nú hefur það verið hækkað í 2%, og er áætlað að það skili ríkissjóði um 3800 millj. kr. á einu ári. Hér er um að ræða algerlega nýja tekjuöflunarleið, eins og hv. þm. Geir Gunnarsson tók fram áðan, raunar um að ræða ekki aðeins nýjan tekjustofn, heldur tekjustofn sem áður hefur verið einskorðaður við sveitarfélög. Hér er um að ræða ríkisútsvar, brúttóskatt, veltuskatt ofan á almenn laun í landinu, sem kemur þeim verst sem hafa minnstar tekjur.

Þá hefur söluskattur verið hækkaður á tímabilinu, eins og tekið var fram, viðlagasjóðsgjald tekið í ríkissjóð og jafnframt ríflegur hluti olíugjalds.

Samanlagt nema þessar viðbótarálögur ekki lægri fjárhæð en um 17 000 millj. kr. aðeins á næsta ári. Skattheimta ríkissjóðs hefur verið aukin sem því nemur á ársgrundvelli á tímabili núv. hæstv. ríkisstj.

Síðasta ríkisstj, var harðlega gagnrýnd á sínum tíma fyrir fjármálabúskap sinn, m.a. af þeim stjórnmálaflokki sem hefur forustu núv. ríkisstj. En núv. hæstv. ríkisstj. undir forustu Sjálfstfl. hefur svo gersamlega slegið öll fyrri met í gegndarlausum álögum og óráðsíu í ríkisfjármálum, að ef hún hefði látið sér nægja þá tekjustofna, sem síðasta ríkisstj. hafði, væru samanlögð skattgjöld landsmanna a.m.k. 17 þús. millj. kr. lægri á næsta ári en þau eru í fjárlagafrv., og er þá varlega áætlað, því að þá er eftir að reikna með fleiri aukasporslum, svo sem leyfisgjöldum á gjaldeyri, hækkun á innflutningsgjaldi af bílum, bensíngjaldshækkun, tilsvarandi þungaskattshækkun og hækkun á fleiri gjöldum sem núv. ríkisstj. hefur ýmist lagt á eða hækkað í valdatíð sinni, að ógleymdri þeirri aðferð sem hún hefur innleitt með því að gera sjúkleika fólks að sérstakri tekjuöflunarleið með gjaldtöku af sjúklingum fyrir lyf og sérfræðiþjónustu. Þegar á þetta er horft, hvernig gjaldendum hefur verið íþyngt, er því ekki að furða þótt kjör landsmanna hafi farið versnandi þrátt fyrir nokkuð jafna aukningu þjóðartekna á mann frá ári til árs á árabilinu 1572–1978, að einu ári undanteknu, eins og fram kemur í nál. minni hl.

Tilraunir verkalýðshreyfingarinnar til að snúa þessari þróun við hafa umsvifalaust verið að engu gerðar af ríkisvaldinu. Dæmi um það er samkomulagið sem gert var í sumar um skattalækkanir.

Annað dæmi er sú forsenda fjárlagafrv. sem fram kemur í því, að eftir upplýsingum Þjóðhagsstofnunarinnar er ekki gert ráð fyrir að umsamdar kauphækkanir komi að fullu til framkvæmda á næsta ári, og samkv. upplýsingum sömu aðila hafa þær ráðstafanir, sem til þess þarf að gera, enn ekki að fullu komið fram, þannig að þær ráðstafanir, sem fluttar hafa verið inn á Alþ. á undanförnum dögum, eru ekki allt það sem koma skal til þess að rýra kjör launþega í þessu landi, heldur er eitthvað meira á leiðinni, það er eitthvað meira í pokanum við óbreyttir þm, fáum ekki enn að Sjá.

En það er ekki aðeins í fjárlagaafgreiðslunni sjálfri, sem slík stefna eða stefnuleysi kemur fram. Það kemur einnig fram í ýmsum öðrum ráðstöfunum ríkisstj., t.d. í lánsfjármálum, en lánsfjáráætlun er afgreidd samhliða fjárlagafrv. Nú er gert ráð fyrir að öflun lánsfjár á næsta ári verði samtals 20 milljarðar. Bróðurparturinn af erlendum lánum, sem taka á, fer í afborganir og vexti af þegar teknum lánum. Það er sem sé komið svo, að til þess að fleyta þjóðinni yfir afborganir og vexti af lánum sem hún hefur þegar tekið erlendis, telur hæstv. ríkisstj. nauðsynlegt að bæta við nýjum erlendum lántökum, enda er ástandið orðið slíkt, að u.þ.b. 25% af gjaldeyristekjum landsmanna fara nú í vexti og afborganir, 1/4 hluti af erlendu aflafé þjóðarinnar fer beinlínis í hendur útlendra banka, 1/4 hluti af gjaldeyrisfjáraflandi atvinnuvegum og atvinnufyrirtækjum er starfræktur í þágu útlendra bankastjóra.

Sama máli gegnir um lántökuáætlanir hæstv. ríkisstj. á innanlandsvettvangi. Þar er m.a. gert ráð fyrir að hreyta yfirdráttarskuld ríkissjóðs við Seðlabankann í fast lán, svo að hægt sé að draga áfram á yfirdráttarreikning ríkissjóðs þar. Það er gert ráð fyrir að taka með valdboði mestalla þá peninga, sem lífeyrissjóðirnir, hinir frjálsu lífeyríssjóðir, hafa til ráðstöfunar og hafa gert það að verkum að hægt hefur verið að halda uppi nokkurri byggingarstarfsemi í landinu eftir að hið opinbera húsnæðismálakerfi hefur hrunið til grunna. Þessi stjórnsemi í lánsfjármálum, þessi verðbólguræktun, eins og hv. þm. Geir Gunnarsson tók fram, hefur aftur á móti flutt með sér brask með bæði íslenskan og erlendan gjaldmiðil og hugarfarsmengun, sem hefur komið fram í ýmsum allalvarlegum atburðum í þjóðfélaginu á undanförnum árum. Það mætti e.t.v. segja að það þyrfti ekki að kvarta svo ýkjamikið yfir því, þó að lán væru tekin, ef eitthvað kæmi í staðinn, ef eitthvað kæmi á móti sem skilaði þjóðarbúinu auknum tekjum. En lánin hafa ekki aðeins verið tekin til framkvæmda á borð við Kröfluframkvæmdirnar. Lánin á ekki aðeins að taka til kaupa á borð við kaupin á Víðishúsinu. Lánin hafa einnig verið tekin sem beinn eyðslueyrir fyrir ríkið og ríkisstofnanir, fyrir þau lán höfum við ekkert fengið í staðinn.

Ekki þarf að efa að ungir sjálfstæðismenn séu mjög vakandi í þjóðmálum og fylgist vel með hvað þar sé að gerast. Þeir eru án efa hollir sínum flokki, bæði safnaðarstjórn og flokkseigendafélagi og öllum öðrum. Það, sem helst er að frétta úr flokksstarfinu hjá þeim sjálfstæðismönnum nú, er að eftir þriggja ára stjórnarsetu hefur ungum sjálfstæðismönnum fallið slíkur ketill í eld, að þeir finna sig knúða til þess að taka upp sérstaka baráttu undir slagorðinu „báknið burt“. Þessa baráttu hafa þeir ekki talið þörf á að taka upp fyrr en nú, fyrr en ríkisstj. þeirra eigin flokks er búin að sitja að völdum í landinu á fjórða ár.

Þessir ungu sjálfstæðismenn líta sjálfsagt á baráttu sína fyrir „bákninu burt“ sem heilaga krossferð, til þess gerða að frelsa íhaldshugsjónina úr greipum óartarinnar, með svipuðum hætti og þegar Ragnar loðbrók frelsaði Þóru borgarhjört úr prísundinni með því að leggja að velli orminn ógurlega. En sá munur er á hinum rómantísku dagdraumum hinna ungu sjálfstæðismanna og hinum óttalega veruleika, að framsókn íhaldsaflanna í þessa átt hefur orðið illa á í messunni. Þeir hafa nefnilega gert þau óttalegu mistök að fella Þóru borgarhjört, en ganga í eina sæng með lyngorminum ógurlega, sjálfu bákninu sem herförinni var stefnt gegn, og verður ekki betur séð en vel fari á með þeim hjónaleysum.

Það liggur að sjálfsögðu alveg ljóst fyrir, að ef á að stokka upp í ríkisfjármálunum, ef á að leggja til atlögu við þann óvætt sem ungir sjálfstæðismenn eru að lýsa í samþykktum sínum, þá verður það ekki gert með einhverjum örþrifaráðum sem gripið er til á síðustu dögum þings áður en Alþ. er sent í jólafrí. Þetta krefst talsvert mikils og langs undirbúnings, því að staðreyndin er sú, að um 90% á fjárl. gera sig sjálf, hin 10% eru ákvörðuð við fjárlagaafgreiðsluna undir lokin og eru eina svigrúm sem þá er eftir til þess að skera niður eða spara eða auka aðhald. Ef ætti að ganga til móts við þær kröfur að beita sparnaði og aðhaldi í ríkisrekstrinum, sem ekki hefur þekkst, þá verður að byrja á því verki miklu fyrr en hæstv. ríkisstj. hefur gert í stjórnartíð sinni. Þá verður að byrja á því að skoða ekki aðeins fjárlagagerðina sjálfa, heldur fjölmörg önnur lög og samþykktir sem ákvarða stórar upphæðir sjálfkrafa á fjárlögum hverju sinni. Þetta hefur hins vegar ekki verið gert. Ég efa ekki að það kann að hafa verið fyrir hendi vilji hjá hæstv. ríkisstj. til að koma þessu í verk. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki skort viljann til þess að gera ýmislegt gott. En hana hefur skort getuna til að standa við fyrirheitin í þessum efnum eins og fjölmörgum öðrum. Þess vegna stendur hæstv. ríkisstj. nú uppi í síðasta skiptið á kjörtímabilinu, sem hún leggur fjárlög fyrir Alþ., stendur uppi sönn að því að hafa árlega á valdaferli sínum lofað mjög ítarlegum og rækilegum endurskoðunum á ýmsum mikilvægum þáttum fjárl., en af einhverjum ástæðum ekki getað efnt þau loforð, ekki enn, þó að komið sé fram á síðasta ár fyrir kosningar, en orðið að bregða í staðinn á það ráð að bera fram á hverju þingi nýjar till. og ný frv. um tímabundnar hækkanir á skattheimtu, sem í meðförum ríkisstj. hafa reynst verða nýir tekjustofnar til frambúðar. Og enn er bætt í þann belg að þessu sinni.