24.01.1978
Sameinað þing: 38. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1745 í B-deild Alþingistíðinda. (1471)

331. mál, landshafnir

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af því, sem fram kom í ræðu hv. 9. landsk., vil ég segja það, að ég lít svo á þessar hafnir, að þær hafi ekki öðru hlutverki að gegna heldur en almennar fiskihafnir hafa. Hins vegar held ég að öllum sé ljóst, að það hefði verið ofætlun að ætla litlu sveitarfélagi eins og því, sem stendur að Þorlákshöfn, að byggja upp þarna hafnarmannvirki, og raunverulega er þetta eina hafnarmannvirkið á suðurströndinni allri sem er nothæft.

Það er afskaplega sjaldgæft — og maður verður hálffeiminn ef það kemur fyrir — að manni séu send þakkarbréf, því venjulega er það hið gagnstæða sem skilar sér. En það gerðist í upphafi þessa árs, að ég fékk bréf frá formanni hafnarstjórnarinnar í Þorlákshöfn. Hann sagði að ef ekki hefði verið tekin sú ákvörðun að fylla upp í skarðið sem var í varnargarðinum í höfninni þegar vígslan fór fram og ekki var búið að gera, en var ákveðið að gera þá strax og var haldið áfram við, þá hefði sama óhappið og ekki minna orðið í Þorlákshöfn og varð á Eyrarbakka og Stokkseyri. Ég held að þeir fjármunir, innan við 100 millj. eða eitthvað slíkt, sem fóru í þetta séu fullkomlega búnir að skila sér og meira en það.

Ég held því, að ef á að fara að breyta lögunum um landshafnir, sem ég vil ekki fullyrða um, þá verði hv. þm. að gera sér grein fyrir því, með hvaða hætti það á að gerast. Ég veit ekki annað um athugun á þessu heldur en það sem hefur veríð gert í samgrn. s.l. ár, og það eru margar ákvarðanir sem þarf að taka ef ætti að breyta þessu formi.

Ég vil líka segja það, að þó nokkuð margar hafnir á landinu, sem eiga einna erfiðast, hafa fengið framlag upp í 90%. Til þess er heimild í hafnalögum í gegnum Hafnabótasjóð, og það hefur verið gert. Ég veit það líka að Bolungarvík er erfitt hafnarsvæði, eins og suðurströndin er, og svo er viðar. En mér er líka kunnugt um það, að litið hefur verið til þeirrar hafnar á löngu árabil af mörgum aðilum, enda ekki undarlegt, þar sem um er að ræða byggðarlag sem lifir á sjávarútvegi, eins og Bolungarvík gerir, og engin ástæða til að hafa þar nein orð um. En sem betur fer höfum við aukið framlag til hafnamála. Nú eru 75% hin algilda regla, en getur orðið 90%. Það er farið að leggja miklu meiri vinnu í að undirbúa hafnargerðir en áður hefur verið gert. T.d. er sú vinna, sem Hafnamálastofnunin hefur lagt í módelgerðir af mörgum höfnum nú á síðustu árum, stórmerkileg og mun eiga eftir að breyta hafnarframkvæmdum verulega frá því sem áður var. Yfir þessu ber að gleðjast. Og ég efast ekkert um það, að auðvitað þyrftum við að fá meira fé í okkar hafnargerðir eins og í aðrar framkvæmdir. En það hefur verið verulega bætt þar úr og er unnið áfram að því að svo verði, og það sem mest er um vert, að það er farið að leggja miklu meiri vinnu í að rannsaka og undirbúa hafnargerðirnar en áður hefur verið. Þess vegna munu fjárveitingar, sem í það fara, skila sér í ríkum mæli.