26.01.1978
Sameinað þing: 40. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1794 í B-deild Alþingistíðinda. (1509)

108. mál, rekstrar- og afurðalán til bænda

Páll Pétursson:

Herra forseti. Út af því, sem kom fram hjá hv. 4, þm. Norðurl. v., Eyjólfi Konráð Jónssyni, að afurðasölufélögin hefðu ekki peninga til ráðstöfunar, þá vil ég geta þess, að þannig er með Sölufélag Austur-Húnvetninga að allöflug innlánsdeild er við það félag.

Það er náttúrlega meginmál hvor aðferðin er einfaldari, sú, sem við höfum ástundað, eða sú, sem þessi till, gengur út á að tekin verði upp. Mér fyrir mitt leyti er sárnauðugt að standa að ráðstöfunum sem auka mjög skriffinnsku í bankakerfinu. Starfsmenn banka eru orðnir býsna margir, og veit ég að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hefur tekið glögglega eftir því. Hann hefur ef ég man rétt, flutt það mál hér inn á Alþ. En ég bið menn að athuga það, að bændur eru ekki nema helmingi fleiri en starfsmenn bankanna, svo að ég hygg að menn verði að fara varlega í að bæta við það starfsfólk. Hitt er rétt, að inn í bankana mundi við þetta alveg tvímælalaust færast vinna sem er unnin annars staðar.

Ég verð að segja það, að ég varð hálfundrandi — reyndar talsvert mikið undrandi — á ræðu hv. 2. þm. Austurl., — ekki það að ég undraðist að hann styddi þessa till., því að það gerði hann í fyrra og af miklum krafti, heldur það stórbændasjónarmið sem hv, þm, hefur tileinkað sér og ég átti satt að segja ekki von á frá formanni Alþb. Það kann að vera að það séu engir bændur fyrir austan sem eiga í efnahagsörðugleikum eða í basli, smábændur sem þurfi að stækka við sig. En þrátt fyrir allt, þó að ég sé ekki að gera hlut okkar Húnvetninga litinn eða Skagfirðinga, þá fyrirfinnast nú þeir bændur fyrir norðan sem berjast í bökkum. Þess vegna kann að vera að hv. 2. þm. Austurl. þekki ekkert inn á þetta og sjái ekki ástæðu til þess að vera neinn málsvari þeirra. Ég hygg að ég fari rétt með það, að hv. þm. hafi lagt á það ríka áherslu, að bóndinn fengi lánin strax með þessari breytingu, að bóndinn fengi sína peninga strax. En þessu fylgdi einkaframtaksræða sem hvaða íhaldskarl sem væri gæti verið fullsæmdur af, þetta gæti verið sent okkur ofan úr Verslunarráði, svona klausa. Það gæti verið komið úr einhverjum þvílíkum stað. (Gripið fram í: Það gæti komið frá Sjálfstfl.) Já, það gæti komið frá Sjálfstfl., a.m.k. sumum þm. hans. En ég vil þrátt fyrir allt vona að lögmál frumskógarins nái ekki varanlegum tökum á hv. formanni Alþb.

Ég vil leggja á það áherslu, þvert á móti því sem hv. þm. Lúðvík Jósepsson fullyrti hér áðan, að ég held að reikningsviðskiptin hafi reynst bændum vel. Þá hafa bændur haft tækifæri í gegnum reikningsviðskiptin og í gegnum sín fyrirtæki til að aðstoða hver annan. Sumum nægja nefnilega ekki rekstrarlánin, og sumum nægir ekki handbært rekstrarfé. Viðskiptareikningurinn er nefnilega öfugur hjá sumum, og þá er gott að menn geti hlaupið undir bagga hver með öðrum.

Hv. þm. sagði frá því, að það væri óskapleg neyð að hitta sinn kaupfélagsstjóra, Ég get ekki tekið undir þetta með honum. Það getur skeð að það sé best að sleppa við að þurfa að leita til annarra. En ég hygg að það sé betra að geta hitt sinn kaupfélagsstjóra heldur en að þurfa að leita persónulega bjargar hjá nágrönnum sínum, eins og Íslendingar, fátækir menn á Íslandi hafa þó orðið að gera um þúsund ár, eða þá að smala ábekingum og skrifta fyrir bankastjórum sem svo væru e.t.v. tilneyddir að reka menn út í að taka vaxtaaukalán. Bóndinn þarf nefnilega iðulega að eyða meiru en hann hefur aðstöðu til þess að afla og fjárfesta fyrir hærri fjárhæðir en hann hefur handbærar. Þetta má ekki verða regla hjá bóndanum, að eyða meiru en aflað er. Að vísu höfum við Íslendingar farið nokkuð inn á þá braut, en það er ekki til fyrirmyndar, og búskapur getur ekki staðist ef það er gert að reglu. En það eru líka iðulega menn sem ekki þurfa á öllu sínu fjármagni að halda, og þá er í samvinnufélögum bænda ábætur vettvangur til þess að menn hjálpist að.

Ég skil ekki fullkomlega hvernig hv. þm. Lúðvík Jósepsson hugsaði sér aðskilnað á rekstrarlánunum annars vegar, sem mér skildist að hann vildi láta renna til bænda, og afurðalánunum, sem sölufélögin ættu að fá. Þetta hlýtur að vera þannig, að menn eigi að gera upp rekstrarlánin, og það uppgjör yrði þá væntanlega að fara fram í gegnum afurðasölufélögin. Það kann að vera að á því sé einhver lausn, heppileg og íljótleg, en ég sé ekki annað en þarna sé komið strax upp töluvert vandamál.

Ég vil ekki deila um samanburð á kringumstæðum í sjávarútvegi og landbúnaði. Ég held að samvinnustarf sé miklu þróaðra meðal bænda heldur en meðal sjómanna. Satt að segja hefur samvinnustarf ekki lukkast nema í tiltölulega fáum tilfellum, í ótrúlega fáum tilfellum í útgerð. En það hefur lukkast vel hjá bændum. Samvinnustarf bænda hefur leyst af þeim fjötra kaupmannavaldsins sem sannarlega voru búnir að særa þá stétt ekki lítið. Ég er ófús að breyta því sem vel gengur, og að því leyti er ég íhaldssamur, þ.e.a.s. ég vil breyta, en ég vil ekki breyta því sem gengur vel eða sæmilega vei, ef ég sé ekki fram á að annað betra taki við. Og ég er ófús að sundra fylkingum bænda, en það tel ég að óhjákvæmilega hljóti að verða niðurstaðan af breytingu eins og þessari. Hitt er alveg laukrétt, að það er sjálfsagt að veita þessum málum fyrir sér, og meginatriðið er náttúrlega að fá meira fjármagn í þessa lánaflokka, þannig að bóndinn geti fengið sem hraðast greitt sitt kaup í einu eða öðru formi. Um það vona ég að við séum allir sammála, þó að víð höfum ofurlítið mismunandi sjónarmið varðandi framgang þessarar tillögu.