30.01.1978
Neðri deild: 48. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1827 í B-deild Alþingistíðinda. (1534)

112. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð til þess að lýsa yfir stuðningi mínum við þá meginhugsun a.m.k. sem liggur að baki þessu frv. Hv. 1. flm. hefur þegar gert mjög glögga og ljósa grein fyrir málinu, hv. síðasti ræðumaður kom með viðbótarrök í því máli, og ég ætla ekki að endurtaka það. En ég vil leggja á það áherslu, að þetta mál er í rauninni fyrir löngu orðið brýnt úrlausnarefni og það er, eins og þegar hefur verið sagt, fjárhagsmál. Það er menningarmál. það er spurning um það samfélaga sem við viljum búa í.

Í þessum efnum hefur orði nokkur hugarfarsbreyting á síðustu árum. Ég er sannfærður um að ekki lítill hluti hinnar ungu kynslóðar kýs alveg eins að geta búið í góðu og gömlu húsi, sem vel er við haldið, eins og að flytja í nýtt steinsteypuhús. Það er enginn efi á því, að enda þótt framkvæmd laga, sem hafa það markmið sem hér um ræðir, kosti í bili nokkuð aukin framlög til lánasjóðsins, þá verður framkvæmd slíkrar löggjafar tvímælalaust þjóðhagslegur sparnaður mjög fljótlega. Þarf ekki annað en að benda á það sem hv. þm. Ellert Schram nefndi hér, hvernig hefur farið hér í Reykjavík, að þrátt fyrir það að íbúum Reykjavíkur hafi ekki fjölgað um alllangan tíma, þá er haldið áfram að eyða stórfé í nýbyggingar húsnæðis, og allir vita að þetta dýra húsnæði okkar er ein af meginástæðunum fyrir þeirri gífurlegu dýrtíð og þeirri verðbólgu sem hér hefur ríkt og ríkir.

Ég held að frá hvaða sjónarmiði sem þetta mál er skoðað verði niðurstaðan sú að það sé þjóðhagslega skynsamlegt að fara inn á einhverjar slíkar brautir sem lagt er til í þessu frv. og gera það myndarlega. Ég er ekki með þessu að segja að það sé nákvæmlega það, sem hér er lagt til, sem eigi að lögfesta. Sjálfsagt þarf að athuga það mál gaumgæfilega. En ég legg áherslu á að þetta er orðið það brýnt mál, að sú athugun má ekki taka mjög mörg ár. Hún á að gerast fljótt og það á að fara að feta sig áfram á þessar í braut.