31.01.1978
Sameinað þing: 41. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1834 í B-deild Alþingistíðinda. (1542)

105. mál, síldveiðar fyrir Norðurlandi

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Eins og kunnugt er voru hér við land þrír síldarstofnar: Íslensk og norsk vorgotssíld og íslensk sumargotssíld. Sumarsíldveiðarnar norðanlands og austan byggðust að langmestu leyti á vorgotssíldarstofninum. Eins og nafnið bendir til, kvikna þessir síldarstofnar að vorlagi, í marsapríl. Annar þeirra hrygnir við suðurströnd Íslands og hinn við vesturströnd Noregs. Að hrygningu lokinni hélt norska síldin í vesturveg til ætisleitar og var fyrr á árum komin á hin áturíku síldarmið norðanlands og austan síðla vors eða á öndverðu sumri. Íslenska vorgotssíldin hélt einnig til þessara miða eftir hrygningu og gekk þá einkum frá hrygningarstöðvunum við Vestmannaeyjar og á Selvogsbanka vestur og norður með landinu. Venjulega var þessi vestanganga komin norður á Húnaflóa um miðjan júní. Meðan báðir vorgotssíldarstofnarnir voru stórir og leituðu á grunnmið fyrir Norður- og Austurlandi varð oft svartur sjór af síld um hásumarið þegar ætisgöngurnar voru í algleymingi. Þessu er ólíkt farið að því er varðar sumargotssíldina, en hún hrygnir, eins og nafnið bendir til, um hásumarið, einkum í júlímánuði. Hrygningarstöðvar eru einkum við Suðurland. Að hrygningu lokinni hélt sumargotssíldin vestur og austur fyrir land og blandaðist vorgotssíldarstofnunum síðsumars, einkum við Norðausturland og á vestursvæðinu norðanlands. Var hún þá enn mjög fitulítil eftir hrygninguna og því ólík vorgotssíldinni sem jafnan var fitumikil. Síðsumars og þegar haustaði og æti minnkaði hvarf fullorðna síldin frá Norðurlandi. Norska síldin hélt á veturstöðvar út af Austfjörðum, sem kallaðar eru rauða torgið, en íslensku stofnarnir héldu sig einkum út af Suður- og Vesturlandi á vertíð.

Um áratugur er nú liðinu síðan þessir þrír síldarstofnar hrundu. Ekkert bendir enn til þess, að íslenska vorgotssíldin sé farin að rétta við. Norska síldin er í þann veginn að komast úr bráðri hættu, ef hún verður ekki ofveidd af Norðmönnum, eins og nokkur hætta var á að gert hafi verið á s.l. hausti. Endurreisn sumargotssíldarinnar hefur gengið tiltölulega betur, þannig að hugsanlegt er að stofninn nái fyrri stærð um eða upp úr 1980.

Seyði sumargotssíldarinnar berast vestur og norður fyrir land, eins og seyði margra annarra nytjafiska. Ungsíldin heldur sig í fjörðum og flóum vestan-, norðan- og austanlands uns hún verður tveggja til þriggja ára. Þá gengur hún venjulega suður fyrir land og sameinast eldri hluta stofnsins, sem virðist nú hafa tekið upp fyrri venjur að því leyti, að eftir hrygninguna 7977 gekk talsverð síld norður með Austfjörðum í ætisleit í ágúst og þaðan allt til Norðurlands. Sömuleiðis gekk síld frá hrygningarstöðvum til af Suðvesturlandi norður með vestanverðu landinu. Sýni, sem bárust frá Norður- og Norðausturlandi síðsumars og á s.l. hausti, sýndu að fullorðna síldin var íslensk sumargotssíld. Ungsíldin norðanlands var aðallega tveggja ára, frá hrygningu 1975, en sá árangur virðist vera góður að dómi fiskifræðinga.

Samkv. reglugerð, sem gilti um síldveiðar þangað til á s.l. ári, var síldveiði leyfð á tilteknum svæðum. En samkv. reglugerð þeirri, sem gilti um síldveiðar og leyfi til síldveiða á árinu 1977, máttu síldveiðar hefjast í reknet 20. ágúst og vera lokið í síðasta lagi 20. nóv., ef veiðikvótinn hafði ekki verið fylltur fyrir þann tíma, sem reyndar varð, því að þessari veiði var lokið, að mig minnir, 11. eða 12, nóv. Hins vegar var leyfður ákveðinn skammtur í hringnót og þau leyfi voru frá 20. sept. En vegna tíðarfars höfðu ekki allir þeir bátar, sem höfðu þessi leyfi, veitt á hinu tiltekna tímabili, eins og reglugerðin gerði ráð fyrir, og var reglugerðin framlengd hvað þessar veiðar snerti um nokkra daga.

Samkv. þessari reglugerð, sem gilti á s.l. ári, voru engin ákvæði sett um veiðisvæði, eins og líður var, og því hefðu bátar mátt reyna síldveiðar í reknet samkv. þeirri reglugerð fyrir Norðurlandi sem annars staðar. En mér er ekki kunnug, um að nokkur bátur hafi reynt það. En það getur verið að það sé vegna þess, að menn hafi ekki kynnt sér til hlítar þá breytingu sem við í sjútvrn. gerðum á reglugerðinni um síldveiðar 1977 frá því sem var tvö árin á undan, frá því að síldveiðar voru aftur leyfðar. Ég tel eðlilegt að þessi tilraun sé gerð og ég hef ekki í hyggju að hreyta þessu ákvæði reglugerðarinnar, þannig að þessar tilraunir geta verið gerðar hvar sem er í kringum landið.