31.01.1978
Sameinað þing: 41. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1840 í B-deild Alþingistíðinda. (1549)

337. mál, réttindi grunnskólakennara

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Hér er að miklu vandamáli vikið, þar sem er í raun og veru grunnorsökin til þessarar fyrirspurnar, þ.e.a.s. vandamáli grunnskólanna, kennaraskortinun þar, en í grunnskólunum er auðvitað einmitt lagður sá grunnur þar sem þarf betur að vanda til kennslu en kannske alls staðar annars staðar í skólakerfinu. Þar er auðvitað ekki einhlítt að hafa réttindi og próf. Ég hef af því góða reynslu að hafa til kennslu menn sem höfðu ekki full réttindi. Það er hins vegar staðreynd, að þær spár, sem við höfðum margir hverjir uppi um það, þegar hið stóra stökk var tekið yfir í Kennaraháskólann úr kennaraskólanum gamla, að það yrði til þess, að kennaraskorturinn yrði enn þá meiri, — þær spár hafa ræst, og ég held að nýja frv. um Kennaraháskólann muni ekki bæta þar úr. Ég álít að það hefði þurft að bæta við gamla kennaranámið, eins og það var, og gefa mönnum kost á viðbót þar, en alls ekki að taka það stóra stökk sem tekið var með Kennaraháskólanum, því það hefur sannast að enn færri hafa þess vegna farið í þetta starf. Auk þess er þar í mörgu um alls óskylda hluti að ræða þeim höfuðatriðum sem snerta kennslu og það hvernig á að umgangast fólk á þessum aldri, en það er önnur saga.

Ég veit að vandi skólanna og nemendanna er gífurlegur og það er fyrst og fremst vegna tíðra kennaraskipta. Það er orðið mjög algengt að stúdentar séu eitt ár við kennslu til þess að afla sér peninga til áframhaldandi náms, og þeir eru vitanlega ekkert betur færir til þess að kenna heldur en hinir ýmsu menn sem koma úr byggðarlögunum, jafnvel bifvélavirkjar og aðrir slíkir sem þar hafa kennt með góðum árangri. Þessir menn hafa vissulega mikla þekkingu, en þeir hafa enga reynslu í því að umgangast skólanemendur eða miðla þeirri þekkingu sem þeir hafa. Ég veit að öryggisleysi þjáir þá menn marga, sem hafa, eins on fyrirspyrjandi tók fram, bjargað mörgum skólum, og við þetta öryggisleysi verður ekki unað. Þeir menn, sem vilja bæta við sig menntun til þess að verða fullhlutgengir þarna og njóta sömu launa og aðrir eiga á því heimtingu. Ég harma hvað kennarasamtökin hafa oft verið þröngsýn í þessum efnum og lýst mikilli andstöðu við það. Sem betur fer er það að breytast af þeirri nauðsyn sem kennarar sjá á því að veita réttindi þeim mönnum sem vilja leggja sig fram um þetta starf og hafa stundað það svo lengi, að búið er að fullreyna það að þeir geta kennt börnum, geta miðlað þeirri þekkingu, sem þeir hafa, til barna og unglinga, sem er meira en hægt er að segja um okkur marga hina sem höfum til þessa tilskilin próf.